Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir breytingartillögu að starfsleyfi fyrir Elkem Ísland ehf. Tillögunni er ætlað að heimila í starfsleyfi að taka á móti og endurnýta eldhúð (e. Mill Scale) hvort sem hún er skilgreind sem úrgangur í upprunalandinu eða ekki.

Umhverfis- auðlindráðuneytið hefur veitt rekstraraðila nokkrar undanþágur frá starfleyfi vegna notkunar á eldhúð. Eldhúð er járnoxíð eins og aðrir járngjafar, s.s. járngrýti og kemur málið aðallega til vegna eldhúðar frá Finnlandi. Misjafnt er hvort svona hráefni er skilgreint sem úrgangur í upprunalandi eða ekki og með breytingunni eru tekin af öll tvímæli um notkun á þessu hráefni sé heimil þannig að ekki verður unnið lengur á undanþágu.

Rétt er að taka það skýrt fram að ekki er um að ræða tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Elkem Ísland ehf. heldur breytingu á eldra starfsleyfi. Gildistími hins breytta starfsleyfis er því samkvæmt tillögunni ekki framlengdur og er hann áfram til 1. september 2025. Elkem Ísland ehf. hefur sótt um nýtt starfsleyfi og það er í vinnslu hjá Umhverfisstofnun. Starfsleyfið verður endurskoðað vegna nýrra BAT-niðurstaðna og vegna verkefnisins um niðurfellingu þynningarsvæða.

Breytingartillagan verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 21. apríl til og með 19. maí 2021 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu breytts starfsleyfis verður tekin.

Athugasemdir við breytingartillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 19. maí 2021. Greinargerð mun fylgja starfsleyfisbreytingu við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl:
Umsókn um breytingu á starfsleyfi
Breytingartillaga
Umsókn um breytingu á starfsleyfi - uppfærð