Stök frétt

Blikastaðakró-Leiruvogur var friðlýst sem friðland í dag þegar Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirritaði friðlýsinguna.

Svæðið sem liggur innan Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, er mikilvægur viðkomustaður farfugla, einkum vaðfugla. Svæðið fóstrar ríkulegt fuglalíf allt árið um kring, þar á meðal ábyrgðartegundir fugla. Svæðið er einnig  viðkomustaður landsela.

Verndargildi svæðisins er hátt og felst ekki síst í grunnsævi, miklum sjávarfitjum og víðáttumiklum leirum. Leirurnar eru meðal fárra óraskaðra leira á höfuðborgarsvæðinu og geyma ríkulegt samfélag sjávarhryggleysingja. Auk þess að vera fuglum nauðsynlegar gegna leirur einnig mikilvægu hlutverki við að takmarka gróðurhúsaáhrif og önnur neikvæð áhrif loftslagsbreytinga en leirur binda gróðurhúsalofttegundir og er binding á flatareiningu mikil.

Friðlandið er 5,26 km2 að stærð. Aðliggjandi austanverðu svæðinu er friðlandið við Varmárósa.

Markmiðið með friðlýsingunni er að viðhalda og vernda til framtíðar þetta mikilvæga búsvæði fugla og sjávarhryggleysingja auk líffræðilega fjölbreytni þess þannig að það fái að þróast samkvæmt náttúrulegum lögmálum og á eigin forsendum. 

Auk verndunar náttúru býður svæðið upp á tækifæri til útivistar og fræðslu. Til gamans má geta að um þessar mundir eiga hundruð eða þúsundir gæsa næturstað á leirunum við Leiruvog. 

Í reglum um friðlandið er meðal annars kveðið á um að flug ómannaðra loftfara er óheimilt á varptíma og fartíma fugla, og að notkun vélknúinna vatnatækja s.s. sjókatta, sæþota o.þ.h. er óheimil. Umhverfisstofnun getur veitt leyfi til athafna í friðlandinu, s.s. til ljósmynda- og kvikmyndatöku í atvinnuskyni.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu og ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar í samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ.

Tengt efni:

 

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Stefán Guðmundsson ráðuneytisstjóri

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Stefán Guðmundsson ráðuneytisstjóri