Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Umhverfisstofnunar 2024-2026

Markmið

Markmið með jafnréttisáætlun Umhverfisstofnunar er að tryggja samþættingu jafnréttissjónarmiða í öllu starfi stofnunarinnar og hlúa að fjölbreytileika í mannauði þannig að allt starfsfólk fái notið sín í starfi og hafi sömu tækifæri til starfsþróunar óháð kyni. Í áætluninni er talað um starfsfólk og þá er alltaf átt við allt starfsfólk óháð kyni.

Störf hjá Umhverfisstofnun

Hjá Umhverfisstofnun er litið á fjölbreytileika í mannauði sem auðlind. Öll störf standa öllum opin óháð kyni og í auglýsingum skal vandað til orðalags og myndmáls þannig að ekki sé ýtt undir kynjaðar staðalmyndir.

  • Markmið: Að hlutfall kynja sé sem jafnast bæði í stjórnunarstörfum, svo og öðrum störfum.
  • Aðgerð: Árangursvísir skilgreindur, þar sem hlutfall kynja í stjórnunarstörfum og öðrum störfum hjá stofnuninni er tekinn saman.
  • Ábyrgð: Mannauðsstjóri.
  • Tímarammi: Tekið saman í byrjun hvers árs fyrir árið á undan og birt með öðrum árangursvísum stofnunar í ársskýrslu.

Laun og önnur starfskjör

Ákvarðanir um laun skulu teknar með málefnalegum og gagnsæjum hætti. Umhverfisstofnun starfar eftir vottuðu jafnlaunakerfi. Laun eru því ávallt ákveðin með sama hætti sem lýst er í kerfinu óháð kyni, og skal engum mismunað vegna fjölskylduábyrgðar sbr. fjölskyldustefnu stofnunarinnar.

  • Markmið: Að árleg launagreining sé framkvæmd og markmið er að niðurstaða hennar sýni 0% launamun.
  • Ábyrgð: Forstjóri
  • Tímarammi: Árleg launagreining í lok hvers árs. Niðurstöður eru kynntar í desember ár hvert.

Jafnvægi vinnu- og fjölskyldulífs/einkalífs

Áherslur Umhverfisstofnunar um jafnvægi á milli vinnu - og fjölskyldulífs/einkalífs er að finna m.a. í  fjölskyldustefnu  stofnunarinnar. Umhverfisstofnun gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að allt starfsfólk geti samræmt starfsskyldur sínar og fjölskylduábyrgð. Þær ráðstafanir miða m.a. að auka tækifæri til fjarvinnu og styttingu vinnutíma til að mæta, eins og kostur er, fjölskylduaðstæðum starfsmanna og þörfum stofnunarinnar. Þá er starfsfólki auðveldað, eins og hægt er, að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi frá vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna.

Starfsfólk er hvatt til þess að deila ábyrgðinni með maka við að sinna veikum börnum. Starfsfólk er jafnframt hvatt til þess að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs til jafns við maka.

  • Markmið: Allt starfsfólk geti fundið jafnvægi á milli starfs og fjölskyldulífs/einkalífs eins og best verður á kosið með hagsmuni þeirra og Umhverfisstofnunar að leiðarljósi.
  • Aðgerðir: Fjarvinnustefna um 1-2 fjarvinnudaga í viku sé í stöðugri endurskoðun með tilliti til jafnvægis vinnu og einkalífs.
  • Ábyrgð: Mannauðsstjóri
  • Tímarammi: Árlegt stöðumat á fjarvinnustefnu stofnunarinnar.

Starfsþróun, starfsþjálfun og endurmenntun

Allt starfsfólk skal njóta sömu möguleika til sí- og endurmenntunar og annarrar starfsþjálfunar svo og til að sækja námskeið sem eru haldin til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra starfa. Þá verði þess gætt við úthlutun verkefna og annarra tækifæra til starfsþróunar sem kunna að myndast að einstaklingum verði ekki mismunað vegna kynferðis.

  • Markmið: Að allir njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar, starfsþjálfunar innanlands og utan auk annarrar starfsþróunar.
  • Aðgerðir: Starfsmannasamtöl annars vegar og starfsþróunarsamtöl hins vegar fara hvort um sig fram árlega. Hugur starfsfólks er m.a. kannaður fyrir þróun í starfi, starfsmaður og yfirmaður meta þörf fyrir þjálfun og einstaklingsmiðaðar starfsþróunaráætlanir eru gerðar til 1-2 ára í senn.
  • Ábyrgð: Mannauðsstjóri
  • Tímarammi: Reglulegar skýrslur um endurmenntun og þjálfunartíma starfsfólks, greint eftir kyni. Rýnt af yfirstjórn. Minnst árlega í janúar.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá Umhverfisstofnun sbr. mannauðsstefnu stofnunarinnar og skulu starfsmenn upplýstir um að slík hegðun sé ekki liðin.

  • Markmið: Að vinna gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni með skýrum ferlum og kynningum.
  • Aðgerðir: Í gæðakerfi Umhverfisstofnunar eru til skýrir ferlar um skilgreiningar á málsmeðferð mála sem varða einelti og kynferðislega áreitni og hafa þeir verið endurskoðaðir reglulega  Árleg úttekt á fjölda mála sem koma til mannauðsstjóra.
  • Ábyrgð: Mannauðsstjóri
  • Tímarammi: Árleg úttekt á fjölda mála sem upp koma í janúar ár hvert.

Samþætting kynjasjónarmiða og kynjagreining

Samþætting kynjasjónarmiða liggur til grundvallar allri stefnumótun og áætlanagerðar Umhverfisstofnunar. Stofnanamenning stofnunarinnar helgast af því að sjónarmið allra, óháð kyni, njóti sín innan stofnunar og gagnvart viðskiptavinum, s.s. hagsmunaaðilum og neytendum. Afurðir eins og stefnur og áætlanir séu jafnframt kynjagreindar með tilliti til áhrifa þeirra. Forstjóri skipar í vinnuhópa og þverfagleg teymi auk þess sem hún tilnefnir starfsfólk í nefndir og ráð. Þess er ávallt gætt að sem jafnast hlutfall kynja sé tilnefnt og skipað í slíka vinnu þannig að samþætting kynjasjónarmiða skili sér í sem flestum málaflokkum sem falla undir hvert fagsvið Umhverfisstofnunar. Þess er einnig gætt að raddir allra, óháð kyni, nái fram í fjölmiðlum og opinberum kynningarfundum enda fjölbreytni mikilvæg í fyrirmyndum í umræðu um umhverfismál.

  • Markmið: Að sjónarmið alls starfsfólks endurspegli allt starf Umhverfisstofnunar og kynjagreina áhrif verkefna hennar eftir því sem kostur er.
  • Aðgerðir: A) Á tveggja ára fresti verði kynjahlutfall í starfshópum, sem skipaðir eru innan húss, greint og aðgerðaráætlun gerð í kjölfarið halli á annað kynið í þeirri úttekt. B) Skrá yfir viðtöl og opinbera umræðu, þar sem starfsfólk Umhverfisstofnunar er í framlínu, verði haldin og hún kyngreind á tveggja ára fresti. Aðgerðaráætlun verði gerð í kjölfarið halli á eitt í þeirri úttekt. C) Kynjagreining stefna og áætlana sem gerðar eru á vegum stofnunarinnar fari fram
  • Ábyrgð: Forstjóri.
  • Tímarammi: Reglulega, minnst annað hvert ár.

Eftirfylgni

Mannauðsstjóri heldur utan um jafnréttisáætlun og útdeilir verkefnum hennar. Í janúar ár hvert tekur mannauðsstjóri saman gögn aðgerðaáætlunar og kynnir á starfsmannafundi fyrir lok janúar.

Jafnréttisáætlun ásamt tímasettri aðgerðaráætlun verður kynnt á fyrsta starfsmannafundi ársins 2024.

Stefnan er staðfest af yfirstjórn Umhverfisstofnunar 6. september 2023.