Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Mannauðsstefna

Mannauðsstefna Umhverfisstofnunar 

Umhverfisstofnun vill hafa á að skipa frábæru starfsfólki sem vinnur í samræmi við stefnu, markmið og gildi stofnunarinnar. Gildi Umhverfisstofnunar eru  framsýni, samstarf og árangur.    

Hæfni

Hjá okkur starfar metnaðarfullt fólk með mikla þekkingu og reynslu sem ber hagsmuni umhverfisins fyrir brjósti. Við ráðningar fylgjum við faglegu ferli og leitum að hæfasta starfsfólki sem völ er á. Við leggjum okkur fram við faglega nýliðamóttöku og tökum vel á móti nýju starfsfólki. Jafnframt er markvisst hvatt til endurmenntunar. 

Starfsánægja

Það skiptir miklu máli að starfsfólk sé ánægt og því líði vel í vinnunni. Vinnutími er sveigjanlegur.  

Á vinnustaðnum er lögð áhersla á óþvingað andrúmsloft og gott félagslíf þ.m.t. árvissa viðburði.  

Stutt er við starf starfsmannafélaganna sem standa bæði fyrir ýmsum viðburðum jafnt sem óvæntum uppákomum. 

Samstarf og starfsaðstaða 

Við vinnum mikið saman og nýtum þá þekkingu sem starfsfólk hefur yfir að ráða. Starfsfólk vinnur í teymum og starfsaðstaðan tekur mið af því. Reynt er að dreifa vinnuálagi eins og kostur er. Við erum með níu starfsstöðvar um allt land og lítum það jákvæðum augum ef fólk vill færa sig til á milli starfsstöðva.  Meirihluti starfa er auglýstur óháð starfsstöð, þannig er hæfasta fólkið ráðið óháð staðsetningu. Rík hefð er fyrir markvissri fjarfundamenningu hjá Umhverfisstofnun. Heimilt er að semja um fjarvinnu einn dag í viku og varðandi sérstök verkefni tvo daga í viku, í samræmi við yfirstandandi tilraunaverkefni. Starfsstöðvarnar eru allar búnar viðbótaraðstöðu og þannig er hvatt til samvinnu á milli starfsstöðva eins og kostur er. 

Jafnrétti og samskipti 

Við berum virðingu fyrir störfum og fagþekkingu hvers annars sem og einkalífi. Við fögnum fjölbreytileika. Jafnrétti er hluti af stofnanamenningu okkar. 

Einelti og kynbundin- og kynferðisleg áreitni eru ekki liðin og skýrar verklagsreglur eru til staðar ef grunur kemur upp um slíkt. Stofnunin er með jafnlaunavottun. 

Heilsuvernd og umhverfi 

Umhverfi og góð heilsa skipta okkur máli og starfsfólk er hvatt til að ferðast til og frá vinnu á umhverfisvænan máta. Í því skyni greiðir stofnunin sérstaka styrki til starfsfólks vegna líkamsræktar og umhverfisvænna samgangna. Stofnun er með öryggis- og heilsustefnu. 

Stefnan staðfest af yfirstjórn 4. september 2023.