Leiðsögumannanámskeið

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Austurbrú, stendur fyrir námskeiði á vorönn 2024 fyrir verðandi leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Námskeiðið er liður í að fá réttindi til að gerast leiðsögumaður með hreindýraveiðum en veitir ekki sjálfkrafa réttindi til þess.

Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti  21. janúar 2024

Fjöldatakmarkanir

Í boði eru 30 sæti á námskeiði fyrir nýja leiðsögumenn. Komi til þess að fleiri en 30 sækist eftir þátttöku í námskeiðinu verður valið úr hópi umsækjenda með tilliti til eðlilegrar nýliðunar í hópi leiðsögumanna, sbr. 11. mgr. 14. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. Verður þar m.a. horft til þess að mikil þörf er á nýjum leiðsögumönnum á svæðum 7, 8 og 9. Við val inn á námskeiðið verður jafnframt horft til veiðireynslu á því svæði sem sótt er um og meðmæla frá starfandi leiðsögumönnum á viðkomandi svæði. 

Umhverfisstofnunar hefur metið þörf á nýliðun leiðsögumanna eftir veiðisvæðum:

VeiðisvæðiFjöldi sæta 
 1 5
 2 0
 3 3
 4 3
 5 3
 6 3
 7 4
 8 4
 9 5
 Samtals30 

 

Umsóknarferlið 

Umsækjendur þurfa að setja sig í samband við leiðsögumann með hreindýraveiðum og fá frá honum meðmæli og vilyrði fyrir að fara með honum í verklega veiðiferð ef kostur er. Leiðsögumenn veita meðmæli með rafrænni auðkenningu í gegnum umsóknargátt Umhverfisstofnunar.  

Umsækjendum verður raðað inn á námskeiðið með hliðsjón af framangreindum atriðum. Ef margir umsækjendur á ákveðin svæði uppfylla framangreindar kröfur verður umsækjendum úthlutað slembitölum og dregið úr potti með sama fyrirkomulagi og hreindýraúrdrátturinn fer fram. 

Fylgigögn og upplýsingar sem fylla þarf út á umsóknargátt eru:

  • Kynningarbréf
  • Meðmæli frá starfandi leiðsögumanni sem samþykktur er af Umhverfisstofnun
  • Vilyrði um verklega þjálfun í 2 veiðiferðum (kostur) 

Fyrirkomulag og upphaf náms

Námið hefst 21. febrúar 2024 og lýkur í 21. apríl. Námið er blanda af Teams/Zoom fyrirlestrum og staðarlotum. Staðarlotur fara fram á Egilsstöðum dagana 1.-3 mars og 19.- 21. apríl 2024. 

Stundarskrá og nánari upplýsingar um námskeið verða kynnt á heimasíðu Austurbrúar.

Verklegar ferðir

Til að hljóta réttindi til að leiðseigja með hreindýraveiðum þarf viðkomandi meðal annars að hafa tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt með hreindýraveiðum undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns sem samþykktur er af Umhverfisstofnun. Umsóknum er ekki sjálfkrafa hafnað þó umsækjandi hafi ekki fundið sér leiðbeinanda í verklega veiðiferð en það mun telja við mat á umsóknum. 

Verð

Verð fyrir námskeið: 330.000 fyrir námskeið og próf í kjölfar námskeiðs 

Sækja um

Umsóknum skal skila í gegnum Gagnagátt Umhverfisstofnunar

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson