Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Veiðikortanámskeið

Veiðikort gefur almenn réttindi til þess að stunda skotveiðar á Íslandi samkvæmt íslenskum lögum.

Allir sem hyggjast stunda almennar fugla-, refa- eða hreindýraveiðar verða að vera handhafar veiðikorts og ætið bera kortið á sér á veiðum. Skylt er jafnframt að hafa meðferðis skotvopnaskírteini sé um skotveiði að ræða. 

Fyrirkomulag veiðikortanámskeiða 

Umhverfisstofnun heldur veiðikortanámskeið í samstarfi við Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS) og býður fram hæfnispróf veiðimanna.

Námskeiðið er kennt veflægt í gegnum Skotveiðiskóla SKOTVÍS og fara nemendur í gegnum námið á sínum hraða. Nemendur velja sér próftíma í gegnum gagnagátt Umhverfisstofnunar hjá SKOTVÍS í Reykjavík eða fræðslumiðstöð á landsbyggðinni. 

Efnisflokkar: 

  • Bráðin 
  • Lög reglur og öryggi  
  • Náttúru- og dýravernd  
  • Stofnvistfræði  
  • Veiðar og veiðisiðfræði  

Undirbúningur fyrir hæfnispróf veiðimanna (veiðikortapróf)

  1. Skrá sig á námskeið í Skotveiðiskóla Skotvís á gagnagátt Umhverfisstofnunar
  2. Greiða með greiðslukorti við skráningu. Sjá námskeiðsgjöld
  3. Fá rafrænan aðgang að Skotveiðiskóla SKOTVÍS
  4. Fara í gegnum námsefni í Skotveiðiskóla SKOTVÍS
  5. Lesa bókina Veiðar á villtum fuglum og spendýrum eftir Einar Guðmann (ítarefni)

Ekki þarf að skila neinum gögnum til lögreglu ef einungis er farið á veiðikortanámskeið.

Námsefni

Bókin Veiðar á villtum fuglum og spendýrum eftir Einar Guðmann. Bókin er ekki innifalin í námskeiðsgjaldinu. Hún fæst í bókabúðum. Annað námsefni er lesefni, myndbönd og fróðleikur á Skotveiðiskóla SKOTVÍS.

Stafræn próf

Eftir að nemendur hafa farið í gegnum námið í Skotveiðiskólanum taka þeir stafrænt krossapróf. 

Stafræna prófið er tekið á sal í Reykjavík eða á fræðslumiðstöð á landsbyggðinni. Nemandi velur sér próftökustað og próftökutíma í umsóknarferlinu.   

Allir nemendur þurfa að hafa með sér snjalltæki til að auðkenna sig rafrænt (rafræn skilríki) á prótökustað.

Nemendur á landsbyggðinni þurfa að hafa með sér fartölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma til að þreyta prófið. 

Nemendur í Reykjavík þurfa einungis að hafa með sér snjalltæki til auðkenningar en taka próf á tölvur sem eru til staðar í Prómennt, Skeifunni.

 Þegar nemandi mætir í próf skal hann sanna á sér deili með skilríkjum og prófdómari opnar rafrænan aðgang að prófinu.

Þegar allir nemendur hafa komið sér fyrir opna þeir stafrænt próf í gegnum island.is með snjalltæki eða fartölvu og nota til þess rafræn skilríki.

Frá því prófið er opnað hefur nemandi 45 mínútur til að ljúka prófinu.

Fullnægjandi árangur á prófinu er 75% rétt svör.