Notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum

Um meðferð útrýmingarefna og notendaleyfi gilda efnalög nr. 61/2013 og reglugerð nr. 677/2021 um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna.
Samkvæmt reglugerð nr. 677/2021 eru meindýr skilgreind sem rottur og mýs, skordýr og aðrir hryggleysingjar, sem valda tjóni eða umtalsverðum óhreinindum í eða við híbýli manna, í gripahúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv. Refur, minkur, kanína og vargfugl eru ekki skilgreind sem meindýr og því ná ákvæði þessarar reglugerðar ekki til þeirra.
Notendaleyfi er leyfi sem veitir nafngreindum einstaklingi heimild til þess að kaupa og nota í atvinnuskyni útrýmingarefni til eyðingar meindýra. Umhverfisstofnun sér um að gefa út slík leyfi.
Til þess að einstaklingur geti sótt um notendaleyfi þurfa eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:
1. Að umsækjandi hafi lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð útrýmingarefna. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans.
2. Að Vinnueftirlit ríkisins hafi staðfest að umsækjandi hafi yfir að ráða aðstöðu og búnaði sem staðist hefur skoðun og er nauðsynlegur til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á útrýmingarefnum.
3. Að umsækjandi sé eldri en 18 ára.
Landbúnaðarháskóli Íslands hefur séð um að halda námskeið um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna. Að jafnaði hafa námskeiðin verið haldin annaðhvert ár en það fer þó eftir eftirspurn. Best er að hafa samband við Landbúnaðarháskóla Íslands í síma 433-5000 eða með tölvupósti endurmenntun@lbhi.is til að fá upplýsingar um næstkomandi námskeið og skráningar á þau.
Hægt er að sækja um notendaleyfi rafrænt í gegnum Þjónustugátt – Mínar síður á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Umsækjendur skrá sig inn í Þjóunstugátt með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Umsókn um notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum er fyllt út og fylgiskjöl einnig sett inn í umsóknina.
Gildistími notendaleyfa eru 8 ár. Framlengja má notendaleyfi í allt að 2 ár.
Fyrir 1. janúar 2022 þarf eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt fyrir endurnýjun á notendaleyfi:
- Að umsækjandi hafi lokið námi eða námskeiði um meðferð útrýmingarefna, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á viðhald þekkingar hans.
- Að Vinnueftirlitið hafi staðfest að umsækjandi hafi yfir að ráða aðstöðu og búnað sem staðist hefur skoðun og er nauðsynlegur til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á þeim vörum sem sótt er um.

Sótt er um endurnýjun á notendaleyfi í gegnum Þjónustugátt – Mínar síður á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
Einstaklingur sem starfar í atvinnuskyni við eyðingu meindýra þarf að vera með gilt notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum. Auk þess skulu aðilar sem stunda eyðingu meindýra í atvinnuskyni hafa gilt starfsleyfi sem gefið er út af heilbrigðisnefnd í viðkomandi sveitarfélagi.
Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má finna lista yfir einstaklinga sem eru með notendaleyfi í gildi. Listann má finna hér.