Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Merkingar og innihaldsefni í augnabrúna- og augnháralita

Inngangur

Merkingar snyrtivara skulu vera skulu vera á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku samkvæmt reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir reglugerð (EB) nr. 1223/2009.  Reglugerðin gerir þó strangari tungumálakröfur varðandi snyrtivörur sem innihalda tiltekin innihaldsefni sem geta valdið hættu, en þá skulu notkunarskilyrði og varnarorð vera á íslensku. Slík krafa gildir meðal annars um vörur sem notaðar eru til augnhára- og augnbrúnalitunar.

Tilgangur og markmið

  • Að kanna hvort skyldubundnar upplýsingar um notkunarskilyrði og varnarorð á íslensku fylgi augnhára- og augnbrúnalitum og festinum sem þarf að nota með þeim, sbr. reglugerð (EB) nr. 1223/2009 um snyrtivörur.
  • Að skoða út frá innihaldslýsingu varanna hvort þær innihaldi mögulega bönnuð efni samkvæmt sömu reglugerð.
  • Að fræða birgja um reglugerðir sem gilda um snyrtivörur, kröfur um merkingar á þeim og takmarkanir varðandi innihaldsefni.
  • Að auka neytendavernd.

Framkvæmd og niðurstöður

Upplýsingar um birgja sem eru að markaðsetja augnbrúna- og augnháraliti hérlendis voru fengnar út frá tollskrá, heimsóknum á sölustaði sem selja slíkar vörur og í samtölum við starfsfólk snyrtistofa. Í úrtaki eftirlits lentu sex birgjar og var farið í eftirlit til þeirra dagana 5. og 7. desember 2017. Á hverjum stað voru skoðaðar 3-5 vörur og teknar ljósmyndir af merkingum þeirra og innihaldslýsingu, til nánari skoðunar, í því skyni að kanna hvort tilgreind séu rétt notkunarskilyrði og varnarorð á íslensku fyrir  augnbrúna- og augnháraliti og festinn sem þeim fylgir. Samkvæmt III. viðauka í reglugerð (EB) nr. 1223/2009 skulu slíkar merkingar vera á vörunum eða fylgiseðli með þeim. Jafnframt var skoðað út frá innihaldslýsingu varanna hvort þær innihaldi bönnuð efni skv. II. viðauka í sömu reglugerð.

Eftirfarandi birgjar lentu í úrtaki eftirlitsins:

  • Halldór Jónsson ehf.
  • Heilsa ehf.
  • Heilsa og fegurð ehf.
  • Lipur heildverslun ehf.
  • S. Gunnbjörnsson ehf.
  • Zirkonia ehf.

Alls voru skoðaðar 22 vörur og reyndust 20 vörur vera með frávik frá reglum, þar af 17 sem vantaði alfarið íslensk notkunarskilyrði og varnarorð. Í þremur tilvikum þurfti að lagfæra eða uppfæra merkingar. Engar vörur reyndust vera með bönnuð innihaldsefni samkvæmt innihaldslýsingu.

Niðurstöður eftirlits:

 

Fjöldi

Hlutfall

Vörur í úrtaki

22

 

Vörur án frávika

2

9%

Vörur sem vantaði íslenskar merkingar

17

77%

Vörur þarfnast lagfæringa eða uppfærslu merkinga

3

14%

Birgjar fengu sendar niðurstöður eftirlitsins í formi eftirlitsskýrslu og bréfs þar sem fram komu kröfur Umhverfisstofnunar um úrbætur. Allir hafa brugðist við á fullnægjandi hátt, að einum undanskyldum, og fór mál hans í eftirfylgni hjá stofnuninni.