Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Útfösun HFC-efna

 

Vetnisflúorkolefni eða HFC-efni (e. hydrofluorocarbons, HFCs) eru útbreiddasta gerð F-gasa. Þau eru meðal annars mikið notuð sem kælimiðlar, en einnig sem þanefni (e. blowing agents) fyrir frauð, sem leysar og sem slökkvimiðlar.

Innflutningur HFC-efna og blandna sem innihalda þau er aðeins leyfilegur þeim sem úthlutað hefur verið sérstökum innflutningsheimildum en skipulögð útfösun HFC-efna er meðal þess sem horft er til í dag til að ná árangri í loftslagsmálum. Þessi höft á innflutningi ná þó einungis til HFC-efna sem flutt eru inn ein sér en ekki til slíkra efna sem þegar hefur verið komið fyrir í búnaði.

Ísland er ekki eitt í því að ráðast til aðgerða varðandi þessi efni - slíkum aðgerðum hefur verið hrundið af stað innan Evrópusambandsins og einnig hefur verið gerð breyting á Montrealbókuninni um efni sem valda rýrnun ósonlagsins sem skyldar aðila að henni til að draga úr neyslu vetnisflúorkolefna.

Hér að neðan er nánari umfjöllun um hvernig þessum málum er háttað hér á landi.

Hérlendar reglur ólíkar reglum ESB

Reglugerð nr. 1066/2019 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir innleiðir reglugerð Evrópusambandsins um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir (reglugerð (ESB) nr. 517/2014 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir) með nokkrum aðlögunum. Markverðasta aðlögunin er sú að þær greinar gerðarinnar sem snúa að kvótakerfi til niðurfösunar HFC-efna eru ekki innleiddar hér á landi. Ísland er því ekki þátttakandi í kvótakerfi ESB heldur var sett á fót kvótakerfi hér á landi sem byggir á ákvæðum Montrealbókunarinnar. Síðan þá hafa kvótamörkin verið þrengd í þeim tilgangi að ná hraðari niðurfösun.

Kvóti á markaðssetningu

Sem fyrr segir er innflutningur vetnisflúorkolefna nú einungis heimill þeim sem úthlutað hefur verið innlflutningsheimildum (sjá Innflutningur). Slíkum heimildum er úthlutað með tvennum hætti. Stærstur hluti þeirra heimilda sem úthlutað er ár hvert (89%) gengur til aðila sem staðið hafa að innflutningi árin á undan en afgangnum (11%) er úthlutað til þeirra sem sækja um innflutningsheimild í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Magn heimilda sem úthluta má ár hvert má sjá í I. viðauka við reglugerð nr. 1066/2019 (sjá einnig í töflu 1 hér að neðan) og reikniaðferðirnar sem notaðar eru við úthlutun eru útlistaðar í II. viðauka og III. viðauka við sömu reglugerð.

Tafla 1: Áætlun niðurfösunar innflutnings á vetnisflúorkolefnum sem bundin er í reglugerð.
Þrep niðurfösunar Ár Hámarksmagn innfluttra vetnisflúorkolefna
Hlutfall af grunnlínu * Kílótonn koldíoxíðjafngilda
1. þrep 2019-20 90 % 243,9
2. þrep 2021-23 35 % 94,9
3. þrep 2024-26 12 % 32,5
4. þrep 2027-29 10 % 27,1
5. þrep 2030-35 8 % 21,7
Lokastaða 2036- 6 % 16,3

* Grunnlínan sem miðað er við nemur 271 kílótonni koldíoxíðjafngilda.

 

Mynd 1: Grafið sýnir innflutning frá 2015 til 2022 ásamt kvótamörkum skv. reglugerð til ársins 2038.

Hraðari útfösun og aðrar takmarkanir

Eins og sjá má á mynd 1 hefur innflutningur verið vel innan kvótamarkanna síðan 2020. Árið 2022 var samdráttur í innflutningi orðinn 96% frá meðaltali áranna 2015 til 2019 þegar miðað er við koldíoxíðígildi.

Útfösun efnanna hefur þannig verið umtalsvert hraðari hér á landi en kvótakerfið mælir fyrir um. Líklegt er að takmarkanir á notkun og skattlagning efnanna hafi sitt að segja hvað þetta varðar.

Lesa má um tilteknar takmarkanir á síðunum Áfyllingarbann og Takmarkanir á markaðssetningu. Um skattlagningu efnanna má lesa á síðunni Skattar á F-gös.




Efni á þessari síðu var síðast uppfært 17. maí 2024.