Markaðsleyfi

 

Tímabundin skráning plöntuverndarvara

Við gildistöku efnalaga nr. 61/2013 þann 17. apríl 2013 féllu úr gildi allar skráningar varnaefna skv. ákvæðum laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, og reglugerðar nr. 50/1984, um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði efnalaga var hægt að sækja um tímabundna skráningu fyrir plöntuverndarvörur sem voru á skrá við gildistöku þeirra. 

Markaðsleyfi skv. reglugerð um plöntuverndarvörur.

Reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur er sett til innleiðingar á reglugerð (EB) nr. 1107/2009 setningu plöntuverndarvara á markað. Reglugerðin nær til þeirra plöntuverndarvara er innihalda virk efni sem voru áhættumetin á vettvangi ESB eftir þann 14. júní 2011. Markmiðið með reglugerð (EB) nr. 1107/2009 er að tryggja að innan Evrópska efnahagssvæðisins séu aðeins á markaði plöntuverndarvörur sem geta talist öruggar gagnvart fólki og umhverfi. 

Hér má finna leiðbeiningar fyrir umsóknir um markaðsleyfi: Leiðbeiningar - Umsóknir um markaðsleyfi.

Gagnkvæm viðurkenning á tilteknum markaðsleyfum fyrir plöntuverndarvörum 

Reglugerð nr. 1002/2014 er gefin út á grundvelli ákvæða í efnalögum og gildir um gagnkvæma viðurkenningu á tilteknum markaðsleyfum fyrir plöntuverndarvörum sem áður hafa verið veitt markaðsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli tilskipana 79/117/EB og 91/414/EB, áður en reglugerð (EB) nr. 1107/2009 gekk í gildi þann 14. júní 2011. Reglugerðin brúar þannig bilið á milli eldri séríslenskrar löggjafar á þessu sviði og nýrrar löggjafar Evrópusambandsins um setningu plöntuverndarvara á markað. Enn hafa engin markaðsleyfi verið gefin út samkvæmt þessari reglugerð.

Þeir sem hyggjast sækja um gagnkvæma viðurkenningu á tilteknu markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvöru er bent á að senda tölvupóst til stofnunarinnar á ust@ust.is

Umhverfisstofnun innheimtir gjald vegna umsókna um markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvörum skv. 35. gr. efnalaga, þ.m.t. umsókn um gagnkvæma viðurkenningu,  samkvæmt núgildandi gjaldskrá stofnunarinnar.