Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Sérlega varasöm efni - Kandídatalistinn

Skrá yfir sérlega varasöm efni

Sérlega varasöm efni (e. Substances of Very High Concern, SVHCs) eru efni sem uppfylla eitt eða fleiri af eftirtöldum skilyrðum:

  • Eru mjög skaðleg heilsu: Efni sem eru krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða hafa eiturhrif á æxlun (e. Carcinogenic, Mutagenic or toxic for Reproduction, CMR).
  • Eru mjög skaðleg umhverfinu: Þrávirk efni sem safnast fyrir í lífverum og eru eitruð (e. Persistent, Bioaccumulative and Toxic, PBT) eða mjög þrávirk efni sem safnast fyrir í lífverum í miklum mæli (e. very Persistent and very Bioaccumulative, vPvB).
  • Efni skaðleg heilsu eða umhverfi af öðrum ástæðum en þeim sem taldar eru upp að ofan en sem eru sambærileg áhyggjuefni (t.a.m. hormónaraskandi efni og efni sem valda ofnæmisáhrifum við innöndun).

Yfirvöld í ESB/EES-ríkjum og Efnastofnun Evrópu (ECHA) (að beiðni framkvæmdastjórnar ESB) geta lagt fram tillögu (á formi málsskjala skv. XV. viðauka við REACH) um að tilekið efni verði sé skráð sem sérlega varasamt efni á svokallaðan kandídatalista (e. Candidate List). Nafn listans vísar til þess að efnin sem sett eru á hann eru kandídatar fyrir það verða síðar skráð í XIV. viðauka (verða leyfisskyld).

Þegar tillaga eins og lýst er að framan hefur verið sett fram birtir ECHA tilkynningu um það á vefnum og býður hagsmunaðilum að senda stofnuninni athugasemdir fyrir settan eindaga. Meðan á þessu samráði stendur er öllum sem vilja heimilt að senda inn athugasemdir við málsskjölin. Ef engar athugasemdir berast er efninu bætt á kandídatalistann án frekari umfjöllunar. Ef athugasemdir berast í samráðsferlinu er tillit tekið til þeirra áður en ákvörðun er tekin um hvort efninu skuli bætt á listann eða ekki.

Auknar skyldur og útskipting sérlega varasamra efna

Fyrirtæki sem nota eða selja efni sem skráð hafa verið á kandídatalistann sem sérlega varasöm efni ættu strax að huga að því að skipta þeim út fyrir skaðminni efni eða breytta aðferðafræði/tækni.

Þegar efni hefur verið bætt á kandídatalistann hefur það strax í för með sér auknar skyldur varðandi viðkomandi efni. Það á bæði við um efnið eitt sér, í efnablöndum og einnig um hluti sem innihalda efnið. Til viðbótar við það geta skyldurnar aukist enn frekar í framhaldi af því að efnið er sett á kandídatalistann:

  • Efninu getur verið bætt á skrá yfir leyfisskyld efni í XIV. viðauka við REACH. Leyfisskyld efni er ekki heimilt að setja á markað eða nota fyrr en fengist hefur til þess sértakt leyfi frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
  • Sértækar takmarkanir eða bönn kunna að vera sett á framleiðslu, markaðssetningu og notkun efnisins hvort sem það er eitt sér í efnablöndu eða notað í hluti (sjá Takmarkanir).

Öryggisblöð og upplýsingaskylda

Birgjum efna sem eru á kandídatalistanum, hvort sem þau eru ein sér eða innihaldsefni í efnablöndu, ber skylda til að afhenda viðskiptavinum sínum öryggisblöð fyrir efnið/blönduna. Í öryggisblaðinu þarf að uppfæra 15. lið blaðsins þannig að fram komi að efnið hefur verið skrásett sem sérlega varasamt efni (SVHC).

Birgjum hluta sem innihalda efni á kandídatalistanum í styrk sem nemur meira en 0,1% að massahlutfalli ber að veita viðskiptavinum sínum nægar upplýsingar til að tryggja örugga notkun hlutarins innan 45 daga frá því að viðskiptavinur leggur fram beiðni um slíkt.

Framleiðendur og innflytjendur hluta, sem eru með staðfestu innan ESB/EES, skulu tilkynna ECHA um það ef hlutir sem þeir framleiða/flytja inn innihalda efni á kandídatalistanum ef heildarmagn efnisins sem notað er í hlutina nemur meira en einu tonni á ári og styrkur efnisins er meiri en 0,1% að massahlutfalli. Í ákveðnum undantekningartilfellum kunna fyrirtæki að vera undanþegin þessari skyldu.