Hvað eru þrávirk lífræn efni?

 

Þrávirk lífræn efni (e. Persistent organic pollutants, POPs) er heiti sem er notað yfir efnasambönd sem brotna hægt eða aldrei niður í náttúrunni og lífverum. Efnin geta dreifst þúsundir kílómetra á landi, í andrúmslofti og vatni. Sýnt hefur verið fram á alvarlegar afleiðingar á heilsu manna, þ.m.t. krabbamein, fæðingargalla, truflun á frjósemi og ónæmiskerfinu, skemmdir á mið- og útlæga taugakerfinu og aukið næmi fyrir sjúkdómum. Hér á landi er það reglugerð nr. 954/2013 sem tekur á þessum málaflokki.

Hvenær er efni talið vera þrávirkt lífrænt efni?

Horft er til eftirfarandi samspils eiginleika:

  • Sterkt viðnám, í mismiklu mæli, við ljósrofi, líffræðilegu og efnafræðilegu niðurbroti, þ.e.a.s. efnin haldast eins í óvenjulangan tíma eða áratugi.
  • Lágur vatnsleysanleiki og hár fituleysanleiki sem leiðir til uppsöfnunar í fituvefjum lífvera og getu til að berast í lífverur með fæðu. Magnið af efnunum eykst smátt og smátt. Hæfni lífvera til að brjóta niður efnin er breytileg en almennt er niðurbrotið mjög hægt. Þetta leiðir til þess að efnin magnast upp í fæðukeðjunni – því ofar sem lífvera er í fæðukeðjunni því meira magn finnst af efnunum. Þetta nefnist líffræðileg mögnun (e. bioaccumulation).
  • Hálfrokgjörn sem gerir þeim kleift að ferðast langar vegalengdir í andrúmsloftinu áður en útfelling á sér stað. Þessi eiginleiki leyfir efnasamböndunum að vera í gufufasa eða loða við agnir í andrúmsloftinu sem auðveldar þar með flutning þeirra.
  • Eitruð bæði fyrir menn og náttúru.

Efnin eru byggð upp af kolefnisatómum sem eru oftast tengd við halógena (flúor, bróm, klór, joð) og þá mest við klór.

Uppruni efnanna

Flest efnanna eru manngerð en þau geta einnig myndast í náttúrlegum ferlum eins og til dæmis við eldgos. Notkun þeirra flestra hófst um eða eftir síðari heimsstyrjöldina, en þau hafa verið lítið notuð hér á landi. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt fram á tilvist þeirra hérlendis t.d. í fálkum, rjúpum, lóum, öndum, æðarfuglum, vatnasilungi og brjóstamjólk kvenna.

Efnin berast langar leiðir með loft- eða hafstraumum, vatni og fartegundum milli landa langt frá upptökum sínum, til dæmis hafa þessi efni fundist á heimsskautssvæðunum. Hraðvirkasta flutningsleiðin er loftstraumar, en almennt flytjast um 80% af efnunum til úthafanna með loftstraumum.

Tegundir og notkun

Þau efni sem lúta ströngustu reglunum eru talin upp í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 1021/2019 um þrávirk lífræn efni. Margs konar notkun er tengd efnunum en þau hafa meðal annars verið notuð sem:
  • Varnarefni, eins og skordýraeitur, viðarvarnarefni og sveppaeyðir.
  • Eldtefjandi efni fyrir raftæki, húsgögn, teppi og textíl.
  • Mýkiefni fyrir til dæmis plast, gúmmí, málningu og steypu.
  • Einangrandi húðun fyrir víra.
  • Smurefni.
  • Leysar við efnaframleiðslu.
  • Fitu- og vatnsfráhrindandi efni sem er eftirsóttur eiginleiki fyrir m.a. textíl, skó, matarílát, snyrtivörur, potta og pönnur.