Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Sóttvarnavottorð fyrir skip

Sóttvarnarundanþága og sóttvarnarvottorð fyrir skip

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur það hlutverk að samhæfa sóttvarnaráðstafanir um heim allan til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma þjóða á milli sem eru bráð ógn við lýðheilsu. Ný heilbrigðisreglugerð var samþykkt á allsherjarþingi WHO vorið 2005 (IHR 2005). Tilgangurinn er eftir sem áður að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma þjóða í milli án þess þó að valda ónauðsynlegri röskun á alþjóðaviðskiptum og ferðum manna um heiminn. Reglugerðin tekur ekki lengur til einstakra sjúkdóma en þess í stað miðast hún við allar heilsufarsógnir sem breiðst geta milli þjóða. Reglugerðin tók gildi hér á landi 15. júní 2007 og er bindandi alþjóðlegur sáttmáli. Með breytingu á sóttvarnalögum nr. 19/1997 sem tóku gildi vorið 2007 er kveðið á um að Ísland sé bundið af reglugerðinni og að sóttvarnalæknir sé landstengiliður Íslands við WHO um allt sem varðar þessa reglugerð. Helstu stofnanir sem koma að þeim hluta reglugerðarinnar sem snertir skip eru Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Geislavarnir ríkisins og Samgöngustofa. 

Umsóknir um vottorð

Skip sem sigla á milli landa og eru stærri en 200 brúttótonn s.s. fiskiskip, rannsóknarskip og ferjur skulu skila umsóknum til heilbrigðisnefndar. Athugið að ekki þarf að sækja um sóttvarnarundanþágu eða vottorð fyrir skip eða báta undir 200 brúttótonnum, s.s. lystisnekkjur, björgunarbáta, hafnsögubáta, vitaskip, varðskip, dráttarskip, dýpkunarskip.

 

Hverjir gefa út vottorð? 

Heilbrigðisnefnd, í samráði við Samgöngustofu, sér um útgáfu sóttvarnarundanþágu og sóttvarnarvottorðs fyrir skip. Vottorðin geta verið með þremur mismunandi útfærslum: 

  1. Ef ekkert finnst athugavert í skipinu við skoðunina er gefið út sóttvarnarundanþáguvottorð (Ship sanitation control exemption certificate). 
  2. Finnist eitthvað athugavert í skipinu við eftirlitið þannig að beita þurfi ákveðnum sóttvarnaraðgerðum, eru þær framkvæmdar fyrst ef unnt er og síðan gefið út sóttvarnarvottorð (Ship sanitation control certificate). 
  3. Ef ekki er unnt að framkvæma skoðun eða beita tilskildum sóttvarnarráðstöfunum er hægt að framlengja vottorð um sóttvarnarundanþágu um einn mánuð í senn þar til skip nær til hafnar sem getur gefið út sóttvarnarvottorð (Extension of the Ship sanitation certificate) Útgerð farkosts skal greiða kostnað vegna eftirlits og útgáfu vottorða og er heilbrigðisnefnd ábyrg fyrir að senda upplýsingar um útgáfu þeirra, ásamt upplýsingum um gildistíma þeirra til Samgöngustofu og sóttvarnarlæknis. 

Skipaskoðun heilbrigðiseftirlits 

Ef tilskilin vottorð eru ekki til staðar fyrir skip og grunur um hættu fyrir heilsu manna um borð er heilbrigðisnefnd heimilt að skoða skipið og getur í kjölfarið gripið til eftirfarandi aðgerða (í samráði við Samgöngustofu): 

  • Ef engar vísbendingar eru um hættu fyrir heilsu manna getur heilbrigðisnefnd gefið út vottorð um sóttvarnarundanþágu fyrir skipið. 
  • Ef vart verður við hættu fyrir heilsu manna skal heilbrigðisnefnd tilkynna sóttvarnarlækni um hana og grípa til sóttvarnarráðstafana eða sjá til þess að til þeirra verði gripið svo hún geti gefið út sóttvarnarvottorð fyrir skipið. Ef aðstæður eru þess eðlis að ekki er mögulegt að ná fullnægjandi árangri við sóttvarnarráðstafanir skal gera athugasemd um það í sóttvarnarvottorði skipsins. Nauðsynlegt er að ljúka sóttvarnarráðstöfunum áður en nýtt sóttvarnarvottorð er veitt. 

Vottorð: 

Vottorðin skulu vera á ensku og í samræmi við fyrirmynd í fylgiskjali 4

Hafnir: 

Þær hafnir sem geta veitt: 

  • vottorð um sóttvarnarundanþágu má finna í töflu 1 í fylgiskjali 5
  • sóttvarnarvottorð má finna í töflu 2 í fylgiskjali 5

Verklagsreglur: 

Verklagsreglur fyrir sóttvarnarvottun skipa.  

Heilbrigðiseftirlit: 

Fyrirlestrar og námskeið: 

Námskeið um skoðun skipa var haldið þann 15. október 2010 fyrir heilbrigðisfulltrúa. Aðalkennari var Matthijs Plemp, skipaskoðunarsérfræðingur frá Hollandi. 

Sjá glærur: 

  1. Kynning á IHR (PDF, 1.1 MB) 
  2. Hvernig á að bera sig að við skipaskoðun (PDF, 873 KB) 
  3. Megin áherslustaðir við skoðun (PDF, 3.7 MB) 
  4. Útgáfa vottorðs (PDF, 1.7 MB) 

Evrópusamstarfsverkefnið „SHIPSAN ACT Joint action“ 

Þriggja ára samstarfsverkefni fjölmargra Evrópulanda sem Ísland á aðild að og tekur á þeim heilsufarsáhrifum sem fylgt geta sjóflutningum vegna líffræðilegra, efnafræðilegra og geislavirkra skaðvalda, þ.á m. smitsjúkdóma. 

Markmið verkefnisins: 

  1. Fara yfir stöðu þessara mála hvað varðar allar tegundir skipa 
  2. Samræma skoðunaraðferðir á öllum tegundum skipa og þjálfun skoðunaraðila og sjá til þess að upplýsingum sé miðlað greiðlega á milli skoðunaraðila 
  3. Móta leiðbeiningar um áhættumat og viðbrögð vegna efna- eða geislunaratvika 
  4. Koma á og halda við upplýsingamiðlunarkerfi SHIPSAN ACT

    • Skapa möguleika og greiða fyrir rafrænum samskiptum, t.d. frá skipi til hafnar, milli hafna eða frá höfn til sóttvarnalæknis. 
    • Upplýsingakerfi vegna útgáfu sóttvarnavottorða skv. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni. 
    • Gagnabanki til að halda utan um framkvæmdar skipaskoðanir. 
    • Standa fyrir námskeiðum bæði innan hvers lands og innan Evrópu. 
    • Móta ramma fyrir aðferð til að gera áhættumat og heilsufarsafleiðingar eftir tegundum flutningaskipa.