Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Leiðbeiningar

Um bráðabirgðaheimild

Þann 1. júlí 2023 tók gildi breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Breytingin á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir felst í því að heimild til veitingar undanþágu frá starfsleyfi er færð frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til Umhverfisstofnunar og nefnist bráðabirgðaheimild. Heimildin er aðeins veitt í undantekningartilfellum þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi sem fellur undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með breytingunni er aukin aðkoma almennings að ákvörðuninni tryggð og verður ákvörðun Umhverfisstofnunar kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála

Skilyrði fyrir umsókn um bráðabirgðaheimild

Til að hægt sé að sækja um bráðabirgðaheimild þarf að liggja fyrir fullnægjandi umsókn um starfsleyfi hjá viðeigandi heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun, eftir atvikum.

Ef starfsemin heyrir undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana þá þarf einnig að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum eða niðurstaða um matsskyldu og getur Umhverfisstofnun þá veitt undanþágu ef ríkar ástæður mæla með því.

Umsóknargögn

Til að byrja með verður hægt að sækja um bráðabirgðaheimild í gegnum netfangið ust@ust.is og þurfa eftirfarandi þættir að koma fram í umsókninni:

  • Fyrir hvaða starfsemi er sótt um bráðabirgðaheimild (rekstraraðili og umfang starfseminnar)
  • Útgefandi starfsleyfisins (viðkomandi heilbrigðisnefnd eða Umhverfisstofnun)
  • Hvaða ríku ástæður eru fyrir því að gefa ætti út bráðabirgðaheimild
  • Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar á gildistíma starfsleyfisins
  • Upplýsingar um tengilið (nafn, sími og netfang)

Umsóknarferlið

Þegar fullnægjandi umsóknargögn hafa borist er óskað eftir umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og annarra aðila eftir því sem við á.

Séu skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðaheimilda uppfyllt eru áform um veitingu bráðabirgðaheimildar auglýst á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Almenningi gefst þar kostur á að koma með athugasemdir.

Að auglýsingatímanum liðnum er bráðabirgðaheimildin veitt hafi ekkert komið fram sem mælir gegn henni.

Séu upplýsingarnar ekki fullnægjandi, eða einhver skilyrði ekki uppfyllt, er umsækjandanum sent bréf um áform um höfnun þar sem honum er veittur andmælaréttur áður en ákvörðun um höfnun er tekin.   

Ferlið allt á að taka í mesta lagi 4 vikur eftir að fullnægjandi umsókn berst og gert er ráð fyrir að gjald verði innheimt fyrir vinnslu bráðabirgðaheimilda samkvæmt gjaldskrá Umhverfisstofnunar.