Leiðbeiningar um starfsleyfi
Hvað er starfsleyfi?
Starfsleyfi er skrifleg heimild til að starfrækja að öllu leyti eða að hluta tilgreindan atvinnurekstur.
Hvað gilda starfsleyfi lengi?
Starfsleyfi skulu gefin út til tiltekins tíma. Starfsleyfi frá Umhverfisstofnun gilda almennt í 16 ár.
Hvað er starfsleyfisskylt hjá Umhverfisstofnun?
Starfsemi sem fellur undir viðauka I og II laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir (viðauka I og IX reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirliti). Umhverfisstofnun veitir jafnframt starfsleyfi fyrir starfsemi sem fellur undir I., II. og IV. viðauka sem er staðsett er á hafi utan sveitarfélagamarka (utan netlaga).
Önnur starfsemi er starfsleyfisskyld hjá heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags eða skráningarskyld samkvæmt viðauka við reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sé um að ræða starfsemi á varnarsvæði gegnir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja því hlutverki sem heilbrigðisnefndum, heilbrigðisfulltrúum og Umhverfisstofnun er ætlað að gegna, skv. reglugerð nr. 823/2003 um hollustuhætti og mengunarvarnir á varnarsvæðum.
Hvað er starfsleyfisskylt hjá heilbrigðisnefndum?
Starfsemi innan sveitarfélagsmarka sem fellur undir IV. viðauka laga nr. 7/1999 um hollustuhætti og mengunarvarnir og viðauka X í reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirliti.
Athugið að starfsemi kann að vera háð skráningu í stað starfsleyfis hjá heilbrigðisnefnd.
Hvar er sótt um starfsleyfi?
- Sótt er um starfsemi sem er starfsleyfisskyld í þjónustugátt Umhverfisstofnunar. Verið er að vinna í að færa umsóknina á island.is
- Sótt er um brennsluver og urðunarstaði í þjónustugátt Umhverfisstofnunar
- Sótt er um starfsleyfi fyrir fiskeldi í þjónustugátt Matvælastofnunar
- Sótt er um leyfi fyrir geymslu koldíoxíðs á ust@ust.is
- Sótt er um starfsleyfi fyrir starfsemi sem er starfsleyfisskyld hjá heilbrigðisnefndum á island.is eða heimasíðu viðeigandi heilbrigðiseftirlits
Hvað þarf að liggja fyrir áður en sótt er um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar?
Í 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 er fjallað um hvaða upplýsingar eigi að koma fram í umsókn um starfsleyfi. Umhverfisstofnun gerir kröfu um ýmis gögn sem þarf að skila með umsókninni í samræmi við lög og reglugerðir.
Gögn sem þurfa að fylgja með umsókninni, eftir því sem við á:
- Afrit af eða tengil á gildandi deiliskipulagi eða gildandi aðalskipulagi sé deiliskipulag ekki til staðar
- Uppdráttur af staðsetningu
- Álit eða niðurstaða Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, skv. lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana (eða þágildandi laga nr. 106/2000), sbr. þó 11. gr. laganna (samþætting).
- Mat á áhrifum á vatnshlot og vöktunaráætlun á vatnshlot ef rekstraraðili er með eigin fráveitu
- Grunnástandsskýrsla
- BAT-greining ef starfsemin fellur undir BAT-niðurstöður
- Bráðamengunartrygging og áhættumat og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar, þarf þó ekki að berast með umsókn en þarf að berast fyrir auglýsingu starfsleyfis.
- Áætlun um rekstrarstöðvun, tímabundna og varanlega
- Öryggisskýrsla sem tekin er saman í samræmi við IV. kafla reglugerðar um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna
- Aðrar upplýsingar, sem eru lagðar fram í samræmi við önnur lög.
Um umsókn um geymsluleyfi gildir 6. gr. reglugerðar nr. 1430/2022 um geymslu koldíoxíðs.
Hvað er fullnægjandi umsókn?
Hugtakið „fullnægjandi umsókn“ er hvorki skilgreint í lögum nr. 7/1998 né reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.
Mat á fullnægjandi umsókn má hins vegar skipta í tvær athuganir:
- Stjórnsýsluskoðun þar sem metin er heilleiki umsóknar, hvort öll gögnin séu komin.
- Gæðaskoðun þar sem lagt er mat á gæði umsóknar, hvort gögnin og upplýsingarnar séu fullnægjandi.
Umsókn er samþykkt fullnægjandi þegar öll gögn liggja fyrir til að vinna starfsleyfi og umsóknin uppfyllir báðar athuganirnar.
Er hægt að samþætta mat á umhverfisáhrifum?
Já, heimildina er að finna í 11. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sé framkvæmd háð fullu umhverfismati er hægt að sækja um samþætta málsmeðferð til Umhverfisstofnunar. Í forsamráði á að taka ákvörðun um samþættingu, skv. 8. gr. laga nr. 111/2021.
Hvert er ferli starfsleyfisgerðarinnar?
- Eftir að umsókn hefur verið móttekin eru umsóknargögnin metin og óskað eftir frekari upplýsingum ef þörf er á. Þegar umsókn hefur verið móttekin er umsækjanda tilkynnt um það ásamt fyrirkomulags gjaldtöku.
- Þegar umsókn hefur verið metin fullnægjandi er umsækjanda send bréf þess efnis, jafnframt er auglýsing um innkomna umsókn um starfsleyfi birt á vef Umhverfisstofnunar.
- Eftir þetta hefst vinna við gerð starfsleyfis, en mögulega er óskað eftir frekari upplýsingum á því stigi. Þegar fyrir liggur starfsleyfistillaga er hún send umsækjanda í rýni innan tiltekins frests.
- Að þessu loknu fer stofnunin yfir athugasemdir umsækjanda og vinnur lokadrög að starfsleyfistillögu. Þegar tillaga að starfsleyfi liggur fyrir er hún auglýst opinberlega í 4 vikur á vef Umhverfisstofnunar þar sem almenningi gefst færi á að koma með athugasemdir.
- Að þeim tíma liðnum hefur Umhverfisstofnun 4 vikur til að taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins.
Hver eru viðmiðin á bakvið grunngjald fyrir nýtt starfsleyfi?
Umhverfisstofnun innheimtir grunngjald fyrir vinnslu nýs starfsleyfis, skv. gjaldskrá stofnunarinnar. Grunngjaldið felst í grunnvinnu (lágmarksvinnu) við gerð starfsleyfistillögu, afgreiðslu, auglýsingu, úrvinnslu og útgáfu.
Samtals tímar fyrir vinnslu og útgáfu starfsleyfi sem eru í viðauka I laga nr. 7/1998 eru a.m.k. 40 klst. Þeir sundurliðast með eftirfarandi hætti:
- Yfirferð umsóknar, yfirferð gagna, mat á umsókn og mat á erindi- Leggja til grundvallar að það tekur, að minnsta kosti 8 klst.
- Gerð starfsleyfistillögu, að minnsta kosti 13 klst.
- Tillaga til afgreiðslu, að minnsta kosti 6 klst. (For-afgreiðslufundur, rýni sérfræðinga, fara yfir rýni frá sérfræðingum og rekstraraðila).
- Tímar í auglýsingu á tillögu, að minnsta kosti 4 klst. (Skrifa frétt, finna gögn, senda póst á hlutaðeigandi aðila og birta á heimasíðu).
- Gerð greinargerðar og svar við athugasemdum, að minnsta kosti 4 klst. (Inngangur, mat á umhverfisáhrifum, fara yfir athugasemdir og svara þeim í greinargerð, yfirfara breytingar frá auglýsingu).
- Útgáfa starfsleyfis,að minnsta kosti 5 klst. (undirbúningur fyrir afgreiðslufund, afgreiðslufundur, undirritun, auglýsa starfsleyfi, skrifa frétt, birta, senda póst á hlutaðeigandi aðila, finna gögn).
Samtals tímar fyrir vinnslu og útgáfu starfsleyfi sem eru í viðauka II. laga nr. 7/1998 eru a.m.k. 30 klst. Þeir sundurliðast með eftirfarandi hætti:
- Yfirferð umsóknar, yfirferð gagna, mat á umsókn og mat á erindi- Leggja til grundvallar að það tekur, a.m.k. 3 klst.
- Gerð starfsleyfistillögu, að minnsta kosti 8 klst.
- Tillaga til afgreiðslu, að minnsta kosti 6 klst. (For-afgreiðslufundur, rýni sérfræðinga, fara yfir rýni frá sérfræðingum og rekstraraðila).
- Tímar í auglýsingu á tillögu, að minnsta kosti 4 klst. (Skrifa frétt, finna gögn, senda póst á hlutaðeigandi aðila og birta á heimasíðu).
- Gerð greinargerðar og svar við athugasemdum, að minnsta kosti 4 klst. (Inngangur, mat á umhverfisáhrifum, fara yfir athugasemdir og svara þeim í greinargerð, yfirfara breytingar frá auglýsingu).
- Útgáfa starfsleyfis, að minnsta kosti 5 klst. (undirbúningur fyrir afgreiðslufund, afgreiðslufundur, undirritun, auglýsa starfsleyfi, skrifa frétt, birta, senda póst á hlutaðeigandi aðila, finna gögn).
Hve langan tíma tekur vinnsla starfsleyfis?
Málshraðaviðmið Umhverfisstofnunar fyrir starfsleyfi er 240 dagar frá samþykkt fullnægjandi umsóknar. Samvinna við rekstraraðila og gæði gagna hefur mikið að segja um tíma sem fer í vinnslu starfsleyfa.
Hvað kostar nýtt starfsleyfi?
Fyrir nýtt starfsleyfi innheimtir Umhverfisstofnun grunngjald og viðbótargjald samkvæmt gildandi gjaldskrá Umhverfisstofnunar.
Umhverfisstofnun innheimtir gjald fyrir vinnu starfsleyfisins reglulega á meðan vinnslu starfsleyfis stendur.
Hvaðan koma starfsleyfisskilyrðin?
Starfsleyfisskilyrðin eru í samræmi við lög og reglur, aðallega 9. gr. laga nr. 7/1998 og 8. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Einnig eru gerðar kröfur skv. sérlögum og reglugerðum til dæmis 16. gr. reglugerðar nr. 738/1999 um urðun úrgangs (urðunarstaðir) og 17. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs (móttökustöðvar) og lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Séu til útgefnar BAT-niðurstöður er starfsleyfið gefið út í samræmi við þær. Þá geta kröfur leitt af mati á umhverfisáhrifum (eða matsskyldufyrirspurn), framlögðum skýrslum í því ferli og umfjöllun og ferli málsins hjá Skipulagsstofnun eða sveitarfélagi. Varðandi geymslu koldíoxíðs er mælt fyrir um skilyrði leyfisins í reglugerð nr. 1430/2022 um geymslu koldíoxíðs.
Hvernig fer auglýsingin fram?
Umhverfisstofnun vinnur tillögu að starfsleyfi og auglýsir hana opinberlega á heimasíðu sinni undir opinber birting. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur útgefanda starfsleyfis innan fjögurra vikna frá auglýsingu. Þegar starfsleyfistillaga er auglýst sendir stofnunin hana á umsækjanda, sveitarfélög, heilbrigðisnefndir, stofnanir og aðra hagsmunaaðila, eftir því sem við á. Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun á ust@ust.is merkt málsnúmeri. Allar athugasemdir eru gerðar opinberar nema nafnleyndar sé sérstaklega óskað. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu þar sem öllum athugasemdum er svarað, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.
Hvað er átt við með útgáfu starfsleyfis?
Starfsleyfi skal veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum nr. 7/1998 og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að veita starfsemi starfsleyfi og ákvörðunin er birt þá er talað um „útgáfu“ starfsleyfis. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar eru birt opinberlega á heimasíðu Umhverfisstofnunar, hvorttveggja undir útgefin starfsleyfi og undir fyrirtækjasíðum.
Er hægt að kæra ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis?
Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar stofnunarinnar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Ég ætla að breyta starfseminni minni, á ég að tilkynna ykkur það?
Rekstraraðili skal upplýsa útgefanda starfsleyfis um allar fyrirhugaðar breytingar á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar sem geta haft afleiðingar fyrir umhverfið. Tilkynna skal um breytingu á starfsemi í þjónustugátt Umhverfisstofnunar. Stofnunin mun síðan meta hvort þörf er á að breyta eða endurskoða starfsleyfið. Óheimilt er að gera breytingar á starfseminni fyrr en niðurstaða Umhverfisstofnun liggur fyrir um breytinguna.
Hvað kostar breyting á starfsleyfi?
Fyrir endurskoðun eða breytingar á starfsleyfi er innheimt tímagjald sérfræðings samkvæmt gildandi gjaldskrá Umhverfisstofnunar. Heildarkostnaður fer t.d. eftir umfangi breytingarinnar og staðsetningu.
Starfsleyfið mitt er að renna út, hvað á ég að gera?
Rekstraraðili ber ábyrgð á að starfsleyfi hans sé í gildi. Hægt er að sækja um framlengingu á gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist stofnuninni, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998.
Er hægt að fá undanþágu frá starfsleyfi?
Umhverfisstofnun er heimilt í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir lög nr. 7/1998, að veita rekstraraðila bráðabirgðaheimild að hans beiðni fyrir starfseminni, sbr. 7. gr. a. laganna. Skilyrði fyrir útgáfu er að um sé að ræða brýna þörf og fullnægjandi umsókn liggi fyrir. Nánar um bráðabirgðaheimild.
Umhverfisstofnun hefur ekki heimild til að veita undanþágu frá lögum eða reglugerðum. Hins vegar er hægt að sækja um undanþágu frá reglugerð til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ef sérstaklega stendur á, sbr. 41. gr. laga nr. 7/1998.
Ég vil loka starfseminni minni, hvað á ég að gera?
Sótt er um niðurfellingu starfsleyfis inni á þjónustugátt Umhverfisstofnunar. Jafnframt skal tilkynna Umhverfisstofnun um tímabundna og varnalega stöðvun og starfa eftir rekstrarstöðvunaráætlun.
Hvert er hlutverk skiptastjóra ef starfsleyfisskyld starfsemi er gjaldþrota?
Skiptastjóri skal tilkynna Umhverfisstofnun um leið og hann hefur fengið afhent bú til gjaldþrotaskipta. Skal þá ákveðið hvort sótt sé um handhafabreytingu á starfsleyfinu eða um niðurfellingu á leyfinu. Sótt er um hvorttveggja í þjónustugátt Umhverfisstofnunar. Sé starfsemin starfsleyfis- eða skráningarskyld hjá heilbrigðisnefnd skal tilkynna gjaldþrotið til viðeigandi heilbrigðisnefnd.