Skyldur aðila

Samkvæmt lögum og reglum er koma nokkrir aðilar að móttöku úrgangs í höfnum. Hér að neðan er gerð grein fyrir helstu atriðum varðandi aðkomu Umhverfisstofnunar, hafnaryfirvalda og notenda hafna.

Hafnir

Hafnaryfirvöldum ber að koma upp viðunandi aðstöðu fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum, sem venjulega nota viðkomandi höfn.

Hafnaryfirvöld gera áætlun um móttöku úrgangs og farmleifa sem Umhvefisstofnun staðfestir. Áætlunin skal taka til allra tegunda úrgangs og farmleifa frá skipum sem venjulega koma til viðkomandi hafnar og þær skulu taka mið af stærð hafnarinnar og gerð skipa sem hafa þar viðkomu. Áætlunina skal endurskoða á þriggja ára fresti eða þegar meiriháttar breytingar eru gerðar á rekstri viðkomandi hafnar.  

Hafnaryfirvöld hafa það hlutverk að fara yfir tilkynningar um úrgang og farmleifar sem berast til viðkomandi hafna með SafeSeaNet tilkynningum og fara fram á úrbætur ef með þarf. Ef viðbótarupplýsingar berast ekki til hafnaryfirvalda þegar farið er fram á þær skulu hafnaryfirvöld gera Umhverfisstofnun og Samgöngustofu (hafnarríkiseftirliti) viðvart.

Hafnaryfirvöldum ber að innheimta gjald fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum. Gjaldið má lækka ef umhverfisstjórnun, hönnun, búnaður og starfræksla skips er með þeim hætti að skipstjóri geti sýnt fram á að minni úrgangur verði til um borð. Hafnaryfirvöld geta veitt undanþágu frá greiðslu gjaldsins fyrir skip í áætlunarsiglingum sem hafa tíða og reglulega viðkomu í höfnum og sýna fram á trygga afhendingu úrgangs og greiðslu gjalda í einhverri höfn á siglingaleiðinni. Gert er ráð fyrir að þau skip hafi áður fengið undanþágu Umhverfisstofnunar frá afhendingu úrgangs og/eða skilum tilkynningar um úrgang og farmleifar. Sjá reglugerð 1201/2014 um gjaldtöku í höfnum vegna losunar, móttöku, meðhöndlunar og förgunar úrgangs og farmleifa frá skipum.

Hafnaryfirvöld skulu fyrir 1. mars ár hvert senda Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndum viðkomandi sveitarfélaga samantekt á þeim tilkynningum um úrgang og farmleifar sem þeim hafa borist árið á undan og yfirlit yfir magn og tegund þess úrgangs sem skilað hefur verið.

Þjónustuaðilar sem starfa innan hafnasvæðis ber skylda til að upplýsa hafnaryfirvöld um magn og tegund úrgangs sem þeir hafa tekið á móti. Heilbrigðiseftirlit gefur út starfsleyfi og hefur eftirlit með þjónustuaðilum.

Nánari upplýsingar er að finna í reglugerð nr. 1200/2014  um móttöku á úrgangi og farmleifum frá skipum.

Notendur hafna

Skipstjóri skips sem er á leið til hafnar ber ábyrgð á að tilkynning um úrgang og farmleifar í skipum sé fyllt út með réttum upplýsingum og að koma henni til viðkomandi hafnaryfirvalda a.m.k. 24 tímum áður en áætlað er að skip komi í höfn. Undanþegin því eru skip í ríkiseign eða ríkisrekstri sem um stundarsakir eru nýtt í þágu hins opinbera til annars en viðskipta sem og fiskiskip og skemmtibátar sem ekki mega flytja fleiri en 12 farþega.

Skipstjóri ber ábyrgð á að skila úrgangi og farmleifum til hafnar eða viðurkennds þjónustuaðila áður en látið er úr höfn .

Skipstjóri  ber ábyrgð á því að alltaf sé nægjanlegt geymslurými fyrir úrgang um borð til að komast í næstu höfn.

Rétt er að benda á að hægt er að sækja um undanþágu frá afhendingu úrgangs og skilum tilkynningar um úrgang og farmleifar til Umhverfisstofnunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Umsókn um undanþágu skal berast Umhverfisstofnun á þar til gerðu eyðublaði og skulu eftirtalin gögn fylgja umsókn:

a) Upplýsingar um geymslurými um borð.

b) Gögn sem sýna fram á að viðkomandi skip sé í áætlunarsiglingum og hafi reglulega við-komu í höfnum.

c) Afrit af samningi/yfirlýsingu sem í gildi er við tiltekna höfn á siglingaleiðinni eða þjónustu-aðila um móttöku á úrgangi.

d) Kvittanir um móttöku á úrgangi sem sýna að samningur sé virkur.

e) Listi yfir þær íslenskar hafnir sem undanþága varðar.

Áður en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun um veitingu undanþágu getur stofnunin leitað umsagnar viðkomandi hafnarstjóra.

Undanþága fellur úr gildi ef breytingar verða á áætlunarsiglingum þess skips sem undanþága tekur til eða fyrirkomulagi á móttöku úrgangs frá skipi.

Nánari upplýsingar er að finna í reglugerð nr. 1200/2014 um móttöku á úrgangi og farmleifum frá skipum.

Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun staðfestir áætlanir hafna um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa. Hér er að finna yfirlit yfir hafnir/hafnasamlög sem eru með staðfesta áætlun um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa.

Áætlun skal taka til allra tegunda úrgangs og farmleifa frá skipum sem venjulega koma til viðkomandi hafnar og þær skulu taka mið af stærð hafnarinnar og gerð skipa sem hafa þar viðkomu.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum og að til staðar sé aðstaða fyrir móttöku úrgangs. Reglubundið eftirlit með höfnum fer fram að lágmarki á fimm ára fresti og heimilt er að fara í aukaeftirlit ef fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að ákvæði reglugerðarinnar séu ekki uppfyllt. Í eftirliti skal fara yfir hvort starfsemi sé í samræmi við áætlanir hafna, hvort meðhöndlun úrgangs í móttökuaðstöðu sé í samræmi við kröfur laga og reglugerða um meðhöndlun úrgangs og að samræmi sé á milli afhendingar úrgangs og tilkynninga um úrgang og farmleifar.  

Eftirlit Umhverfisstofnunar fer fram samkvæmt eftirlitsáætlun sem gerð er til fimm ára í senn  og eru niðurstöður eftirlitsins birtar á heimasíðu stofnunarinnar.

Auk þess sem hafnaryfirvöld fara yfir tilkynningar um úrgang og farmleifar sinnir Samgöngustofa eftirliti með slíkum tilkynningum í gegnum hafnarríkiseftirlit og Umhverfisstofnun fer yfir ákveðinn fjölda tilkynninga á ári samkvæmt eftirlitsáætlun. Þessu eftirliti er ætlað að tryggja að tilkynningar um úrgang og farmleifar frá skipum séu fullnægjandi.