Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Flokkun og endurvinnsla

Allir hlutir sem við notum verða á endanum að úrgangi. Það er því nauðsynlegt að hafa í huga að til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum úrgangs er mikilvægast að draga úr myndun hans, þ.e. með því að nýta hluti vel og forðast einnota hluti. Sé það hins vegar ekki mögulegt er næstbesti kosturinn sá að leggja áherslu á að hluturinn komist í endurvinnslu.

Úrgangurinn okkar er hráefni sem við getum endurunnið aftur og aftur. Þegar auðlindir eins og málmar, olía, matvæli eða annað er af skornum skammti í heiminum er ekki vænlegt að sóa þessum auðlindum með því að grafa þau í jörðu. Margir spyrja sig hvort það borgi sig virkilega að senda endurvinnanlegan úrgang erlendis en það gerir það svo sannarlega því þá erum við að draga úr auðlindanotkun og um leið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna urðunar. Það er undir okkur komið að hráefnið sem til er á jörðinni haldist áfram í notkun í stað þess að þurfa sífellt að sækja nýtt hráefni.

Af hverju ættum við að flokka?

Því tæknivæddari og flóknari sem vara er, því fleiri og fjölbreyttari hráefni þarf til að framleiða hana og því endar hlutfallslega minna af hráefninu í lokaafurðinni.

Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna hjá okkur endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni. Úrgangur er ýmist brenndur eða brotnar niður á löngum tíma á urðunarstöðum og við það losna efni af ýmsum toga eða þá brotna nær ekkert niður og safnast þá upp í miklu magni. Flokkun og endurvinnsla er því algjört lykilatriði í því að forða hráefnum frá því að verða mengunarþáttur.

Hvað er hægt að endurvinna?

Langflest það sem við notum á degi hverjum er hægt að endurvinna. Ef nefna ætti eitthvað sem ekki er hægt að endurvinna þá væri það til dæmis tyggigúmmí, svampur eða einnota bleyjur. Timbur, plast, gler og pappír missa ekki eiginleika sína þó að við höfum ekki lengur not fyrir það og málma er hægt að endurvinna margoft án þess að verðmæti þeirra minnki. Pappír er einnig mjög hentugur til endurvinnslu en hann er hægt að endurvinna fjórum til sjö sinnum án þess að hann tapi gæðum.

Sumt af því sem við notum inniheldur skaðleg efni og kallast sá flokkur efna og vöru einu nafni - spilliefni. Slíka hluti verður að flokka og skila inn til endurvinnslu því það er einfaldlega bannað að urða þá eða brenna. Þar má nefna rafhlöður, olíumálningu, terpentínu, tjöruleysi, lyf og margt fleira.

Hvernig byrja ég að flokka?

Engin ein leið er best, heldur ætti hver og einn að setja upp þá aðstöðu sem hentar þeim og þeirra heimili. Við eigum það til að flækja hlutina óþarflega mikið en það þarf yfirleitt ekki miklar breytingar á heimilum okkar til að rýma fyrir flokkun. Þetta þarf t.d. ekki að vera flóknara en að hengja poka á bak við hurð eða inni í skáp fyrir plastið og setja pappírinn í einhvern kassa sem við eigum eða margnota poka með botni. Sama á við um aðrar tegundir úrgangs.

Hættum að velta flokkuninni fyrir okkur og byrjum bara. Það er algjört glapræði að við séum að urða allt þetta fína hráefni. Um leið og við tökum t.d. pappírinn og plastið frá, þá sjáum við strax mikinn mun á magni úrgangsins sem fer í urðun og okkur líður miklu betur þegar við vitum að við erum að leggja okkar af mörkum.

Sveitarfélögin sjá um sorphirðu fyrir íbúa sína svo það er gott að athuga hvaða þjónustu það býður uppá. Einnig er hægt að kaupa þjónustu frá einkaaðila ef við viljum að flokkaði úrgangurinn sé sóttur heim til okkar. Í öllum/flestum sveitarfélögum er boðið upp á flokkun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu eru t.d. einar 80 talsins á höfuðborgarsvæðinu og því auðvelt að nýta sér þær.

Sama á við um fyrirtæki. Allir ættu að flokka úrganginn sinn en fyrirtæki þurfa hins vegar að fá einkaaðila til að sækja úrganginn eða fara með hann sjálf.

Sorphirða fyrir flokkaðan úrgang er yfirleitt ódýrari vegna þess að hann er söluvara. Nálgast má verðskrá fyrir mismunandi úrgangsflokka hjá þínu sveitarfélagi.

Fyrir frekari upplýsingar á flokkun - https://urgangur.is/flokkun-heimilisurgangs/