Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Innbú

Húsgögn eins og stólar, borð og skápar eru framleidd úr mismunandi hráefnum s.s. timbri, áli, stáli, plasti o.s.fr. og geta innihaldið efni sem eru skaðleg fyrir umhverfið og heilsuna. Þessi efni geta smitast út frá sér eða gufað upp af húsgögnunum við notkun þeirra, framleiðslu og förgun. 

Það þarf mikið af hráefnum til að búa til hluti og við það notum við mikið af auðlindum. Í einn stól þarf málm úr námu, plast unnið úr olíu og timbur úr skógi. Svo þarf að flytja efnið þangað sem það er unnið. Í verksmiðjunni eru síðan notuð ýmis konar efni til framleiðslunnar ásamt vatni, orku og eldsneyti. Húsgögn eru svo stundum galvaniseruð með nikkel eða krómi. Þau húsgögn sem eru úr plasti geta innihaldið ýmis konar íblöndunarefni og svo eru oft efni sett í textíl sem settur er á húsgögn s.s. eldtefjandi efni sem innihalda bróm. Eftir framleiðslu er stólnum er svo pakkað inn í t.d. pappír, plast, frauðplast og hann sendur á milli landa í skipi, flugvél, bíl og bíður í verslunarhúsnæði þar til hann er keyptur og færður heim. Þegar við erum svo orðin leið á stólnum eða hann ónýtur, er hann fluttur í förgun, mögulega endurvinnslu ef hægt er að flokka hann eða að hann endar á urðunarstað þar sem hann fær að brotna hægt og rólega niður.

Hér skiptir því miklu máli að við þú spyrjir þig fyrst: „Þarf ég á þessu að halda? Ef svo er, þá verður þú að velja vörurnar sem þú kaupir af kostgæfni t.d. með hliðsjón af endingu og gæðum, vottun eða öðru sem skiptir máli. Að síðustu verðum við að nýta vel þá hluti sem við kaupum. 

Þegar við kaupum vörur er því gott að þekkja nokkur umhverfismerki sem veita okkur leiðbeiningar um hvaða kostur sé sá besti. Í húsgögnum er t.d. hægt að skoða vottanir eins og Svaninn en merkið staðfestir að framleiðsluferlið hefur verið tekið út og að viðurinn sem notaður er við framleiðsluna sé ræktaður á sjálfbæran hátt. Stöðugt fleiri framleiðendur vinna í því að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu sinnar og því ættum við neytendur að geta spurt út í hvort húsgögnin séu umhverfisvottuð.

Nokkur góð ráð

  • Veldu umhverfismerkt húsgögn ef þau eru í boði, t.d. með Svaninum eða Evrópublóminu
  • Veldu trégarðhúsgögn með FSC merkinu en þar eru gerðar kröfur um að efniviðurinn komi úr skógi þar sem skógræktin tekur mið af sjálfbærri þróun.
  • Láttu lofta vel um ný innihúsgögn í nokkra daga af því að þau geta gefið frá sér skaðleg efni til að byrja með. Regluleg loftræsting er alltaf til bóta.
  • Forðastu húsgögn með gervileðri sem framleitt er úr PVC-plasti með efnasambandi sem er notað m.a. til að mýkja plastefni (enska. phthalate). Athugið að vörum sem innihalda PVC skal skila til endurvinnslu.
  • Veldu húsgögn sem eru lökkuð með vatnsþynnanlegu lakki.
  • Reyndu að velja húsgögn úr gegnheilu efni, sérstaklega ef mikið mæðir á þeim, t.d. eldhússtólar og eldhúsborð.
  • Lengdu líftíma húsgagna með því að gefa eða selja gömul og heil húsgögn sem þú hefur ekki not fyrir lengur. 

Meira um efnin á heimilinu