Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Vistvænar samgöngur

ganga og hjóla er ekki aðeins gott fyrir umhverfið og fjárhaginn heldur líka mjög góð hreyfing. Könnun á ferðavenjum höfuðborgarbúa árið 2012 sýndi að meðalvegalengd milli heimilis og vinnu á höfuðborgarsvæðinu er aðeins um 6 km löng og ferðatími um 11 mínútur, en slíkar vegalengdir eru t.d. fljótfarnar á hjóli. Það er því mikill misskilningur að ekki sé hægt að nota hjól á Íslandi sem valkost í samgöngum.

Samtökin Hjólafærni hafa útbúið nokkur kort sem sýna hvað fjarlægðir eru í raun og veru stuttar í borgum og bæjum landsins og að það taki ekki langan tíma að nýta hjólið sem ferðamáta. Kortin sýna radíus sem má hjóla út frá miðju á 6 eða 15 mínútum í allmörgum sveitarfélögum. Göngu- og hjólreiðastígar höfuðborgarsvæðinu verða betri með hverju árinu. Um leið dregur úr álagi á samgöngumannvirki og kostnaði samfélagsins vegna viðhalds og reksturs og þar með umhverfisáhrifa.

Að nota almenningssamgöngur sparar einnig útblástur gróðurhúsalofttegunda ef það dregur úr notkun einkabílsins. Samtímis minnkar álag á samgöngumannvirki, kostnað vegna viðhalds og reksturs lækkar og samhliða minnka umhverfisáhrif.  Ekki láta það hræða þig að ferðin taki 20- 30 mín, að vera á eigin bíl er kannski einhver tímasparnaður en mun dýrara, auk þess getur svona slökunartími í strætó verið afar dýrmætur, eða til að skipuleggja daginn og fjölskyldulífið. Svo þarf ekki að hafa áhyggjur af færð, skafa glugga og finna bílastæði. Við erum líka einstaklega heppin á Íslandi hvað vegalengdir eru stuttar til og frá vinnu. Það kemur mörgum á óvart þegar þeir skoða í fyrsta sinn strætóleiðir í nágrenni við sig, oft jafnvel munar ekki svo miklu í tíma hvort farið er með strætó eða eigin bíl.

Um það bil 45.000 manns ferðast með Strætó á hverjum degi en hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er þó aðeins um 4% allra ferða. Ef við berum saman fjárhagslegan ávinning af því að nota strætó eða eiga bíl þá kostar t.d. heilsárskort hjá strætó um 78.000 kr. fyrir höfuðborgarsvæðið árið 2019 en samkvæmt FÍB fyrir sama ár er rekstrarkostnaður nýrrar 1000 kg bifreiðar, sem kostar 2,8 milljónir og er ekinn 15.000 km á ári, um 1.166.000 kr/ári. Fyrir þann pening er því hægt að fjármagna kaup á strætókortum í 20 ár. Innan þess ramma er alveg hægt að leyfa sér að leiga bílaleigubíla eða nota leigubíla fyrir t.d. stærri innkaupaferðir.

Á Íslandi eru bæði hjólreiðar og almenningssamgöngur raunverulegur kostur fyrir flesta. Það má spara miklar upphæðir og losun gróðurhúsalofttegunda á ári hverju með því að losa sig við einkabílinn. Venjum börnin okkar á að ganga, hjóla eða taka strætó, þau eru fljót að læra á kerfið og verða sjálfstæðari fyrir vikið. Það er tvímælalaust hagræðing fyrir alla aðila og kemur í veg fyrir heilmikla keyrslu til og frá vinum eða frístundum.

Samgöngusamningar verða sífellt vinsælli kostur bæði hjá stofnunum og fyrirtækjum. Eftir því sem ökutækjum fjölgar og bílastæðum fækkar verður nauðsynlegra fyrir þessa aðila að finna aðrar og betri leiðir fyrir starfsfólk sitt til að komast til og frá vinnu. Auk þess hafa visthæfar samgöngur ákveðna heilsufarslega kosti og ýta undir það að starfsfólk hjóli, gangi eða noti strætó í stað einkabíls. Kostnaður fyrirtækja við gerð og viðhald á bílastæðum getur einnig verið mikill og því töluvert hægt að spara með vistvænum samgöngum starfsmanna. Samgöngusamningarnir geta verið með ýmsum hætti en yfirleitt er gert samkomulag þar sem  starfsmaðurinn skuldbindur sig til þess að hjóla, ganga eða nota strætó minnst þrisvar í viku.

Samakstur og sameign á bílum
Þurfum við endilega að eiga okkar eigin bíl? Þegar við förum að nota visthæfar samgöngur þá þurfum við sjaldnar á bíl að halda og því gæti verið þægilegt að sleppa því að eiga eigin bíl en hafa frekar afnot af bíl með öðrum og geta gripið til hans þegar þarf. Þannig höldum við bæði í vistvænni lífsstíl og nútímaþægindi að geta ferðast á milli staða án þess að þurfa að skipuleggja okkur um of. Kannski er einhver sem þú þekkir, til í að taka þig upp í á leiðinni í vinnuna gegn t.d. því að greiða hluta af bensíninu? Svo er líka hægt að prufa að eiga bíl með öðrum og skiptast á að nota hann.

Annar kostur er áskrift hjá deilibílaþjónustu (e. Car sharing organization). Slík fyrirtæki eru byggð upp á mismunandi hátt en markmið flestra þeirra er að draga úr notkun einkabílsins og umhverfisáhrifum sem honum fylgja. Í flestum tilfellum þarf að skrá sig í áskrift hjá viðkomandi fyrirtæki og borga mánaðarlega greiðslu. Síðan er borgað fyrir þær klukkustundir sem bílinn er notaður en það er mismunandi hvað er innifalið í þeirri greiðslu, s.s. hversu marga kílómetra má aka. Deilibílar eru yfirleitt ætlaðir fyrir íbúa í nærsamfélaginu og í þær ferðir sem erfitt er að notast við almenningssamgöngur, s.s. stærri innkaup. Zipcar er eina deilibílaþjónustan á Íslandi, sem vitað er um, enn sem komið er. 

Visthæfir leigu- og bílaleigubílar
Við neytendur getum haft áhrif á framboð og eftirspurn, en með því að óska eftir umhverfisvænni leigu- og bílaleigubílum þegar við þurfum á þeim að halda, sköpum við þrýsting á þjónustuaðila og hvetjum þá til þess að bjóða upp á slíka kosti. Í dag getum við miðað við að visthæfur bíll losi minna en 120 gr af CO2 á km eða að hann sé rafmagns- eða metanbíll.