Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Blý

Blý (e. lead) er eitt af frumefnum jarðar og losnar bæði vegna náttúrulegra ferla og við athafnir manna. Ýmis blýsambönd hafa verið notuð í gegnum tíðina í margvíslegum tilgangi en eflaust kannast margir við notkun blýs í bensíni og málningu sem var mjög algengt en er nú bannað.

Hvar er líklegt að finna þau?

  • Rafgeymum
  • Gamalli málningu (frá því fyrir áttunda áratug síðustu aldar)
  • Raf- og rafeindatækjum
  • Veiðarfærum
  • Litarefnum (t.a.m. fyrir textíl)
  • Leikföngum lélegum gæðum
  • Ódýru skarti
  • Skotfærum
  • Tóbaksreyk
  • Ryki

Hvernig komast þau inn í líkamann?

  • Í gegnum meltingarveginn
  • Með innöndun 
  • Til fósturs í gegnum fylgjuna

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum
  • Aukið líkur á krabbameini
  • Aukið líkur á kvillum í ónæmiskerfinu
  • Truflað nýrnastarfsemi
  • Skaðað taugakerfið
  • Valdið blóðleysi/skorti á rauðum blóðfrumum
  • Aukið líkur á æxlunarvandamálum (getnaður/frjósemi)

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja vandaðar vörur, sérstaklega leikföng, þar sem börn eru viðkvæmari fyrir áhrifum blýs.
  • Velja keramík án blýs en blý getur verið bætt í glerunginn.
  • Forðumst að leyfa ungabörnum að leika með lykla eða penna þar sem hætta er á að þau stingi þeim upp í sig.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um blý

Blý (e. lead) er eitt af frumefnum jarðar og er þungmálmur (e. heavy metal). Það finnst í örlitlu magni í ýmsu bergi, seti og jarðvegi. Á síðustu öld jókst notkun blýs þar sem byrjað var að bæta því í alls kyns varning, t.a.m. bensín, málningu, litarefni, málmblöndur og vatnslagnir. Stórfelld notkun þess leiddi til útbreiddrar blýmengunar þar sem mikið af því barst út í andrúmsloftið, mest frá bílum, og í jarðveg í kringum atvinnusvæði svo sem málmbræðslur.

Flest þróuð ríki bönnuðu blýbætt bensín upp úr 1980 en sum lönd tóku lengri tíma að fasa því út og var síðasta landið, Alsír, að klára sínar birgðir árið 2021. Þessi aðgerð gegn blýbættu bensíni leiddi til þess að á síðustu áratugum hefur losun á blýi minnkað verulega og að sama skapi útsetning fólks fyrir því. Í dag er helsta losunin tilkomin vegna skotfæra úr blýi sem menga jarðveg þar sem þau eru yfirleitt ekki hreinsuð upp.

Blý er hættulegt og getur m.a. haft eiturhrif á æxlun (skaðsemi á frjósemi), valdið fæðingargöllum og skaðað börn sem eru á brjósti. Að auki eru blýsambönd sérlega eitruð vatnalífverum. Það tekur líkamann langan tíma að losa sig við blý og það getur haft áhrif á heilsu jafnvel í litlu magni. Langvarandi útsetning fyrir blýi getur valdið skaða á taugakerfinu, hjarta- og æðasjúkdóma, hækkuðum blóðþrýstingi og nýrnaskemmdum. Blý getur borist til fósturs á meðgöngu en þau eru viðkvæmust fyrir útsetningu. Fóstur og ungabörn sem komast í snertingu við blý eru í aukinni áhættu fyrir skerta vitsmunalega getu, hegðunarröskun, skerta heyrn og hindraðan vöxt beinagrindar.   

Blý er takmarkað innan EES og kemur við sögu í nokkrum reglugerðum. Vert er að nefna hér nokkrar takmarkanir og bönn:

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um blý á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um blý á ensku á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA).

Almennt um blý á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almennt um blý á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um blý á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet.

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 18. janúar 2024.