Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Moskus efnasambönd

Moskus efnasambönd (e. musk compounds, synthetic musks) eru manngerð ilmefni sem eru notuð m.a. í ilmvötnum, snyrtivörum og þvottaefnum. Þekktustu efnin moskusxýlen (e. musk xylene) og moskusketón (e. musk ketone) eru takmörkuð innan EES en eru enn mikið notuð í öðrum löndum, einkum Bandaríkjunum, Kína og Indlandi.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

  • Snyrtivörum
  • Hreinlætisvörum
  • Ilmkertum
  • Hreinsiefnum
  • Þvottaefnum
  • Bíla- og bátavörum

Hvernig komast þau inn í líkamann?

  • Með upptöku í gegnum húð
  • Í gegnum meltingarveginn
  • Með innöndun 

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Grunaðir krabbameinsvaldar
  • Sum eru grunuð um að trufla innkirtlastarfsemi líkamans

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja umhverfismerktar vörur án ilmefna, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja vörur án ilmefna sérstaklega fyrir ung börn.

Nánari umfjöllun um musk efnasambönd

Moskus efnasambönd (e. musk compounds, synthetic musks) eru manngerð ilmefni sem voru þróuð til þess að líkja eftir moskusilmefnum sem fengin eru frá hjartardýrum og uxum. Almennt er moskus efnasamböndum skipt í þrjá undirhópa, nítrómoskus (e. nitro musk), fjölhringja moskus (e. polycyclic musk) og stórhringja moskus (e. macrocyclic musk). Efni sem tilheyra nítrómoskus hópnum voru mjög vinsæl á árum áður innan EES, einkum moskusxýlen (e. musk xylene) og moskusketón (e. musk ketone). Þrjú önnur efni tilheyra nítróhópnum,  moskusambrett (e. musk ambrette), moskusmosken (e. musk moskene) og moskustibeten (e. musk tibetene), en þau eru almennt bönnuð vegna alvarlegra áhrifa þeirra.

Nítrómoskus efni brotna mjög hægt niður í umhverfinu og safnast upp í lífverum, einkum í fituvefjum en efnin eru ekki vatnsleysanleg. Moskusxýlen og moskusketón eru bæði flokkuð sem mjög eitruð vatnalífverum með langvarandi áhrifum og eru grunuð um að vera krabbameinsvaldar. Efnin tvö eru takmörkuð í snyrtivörum og gildir eftirfarandi:

  • moskusxýlen má vera til staðar í allt að 1 % í ilmvötnum, 0,4 % í kölnarvatni (e. eau de toilette) og 0,03 % í öðrum vörum.
  • moskusketón má vera til staðar í snyrtivörum í allt að 1,4 % í ilmvötnum, 0,56 % í kölnarvatni og 0,042 % í öðrum vörum.

sbr. reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir færslur 96 og 97 í III. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1223/2009 með sama heiti.

Vert er að nefna að moskusxýlen er leyfisskylt efni og þar sem tímafresturinn til að sækja um leyfi fyrir framleiðslu þess og notkun rann út án þess að umsóknir bærust er efnið í raun bannað innan EES (XIV. viðauki við REACH, færsla 1; Umhverfisstofnun). ATH moskusxýlen og moskusketón eru enn mikið notuð í Kína, Indlandi og Bandaríkjunum.

Þegar byrjað var að takmarka nítrómoskus efnin þá fór iðnaðurinn að skipta þeim út fyrir fjölhringja moskus efni. Meðal þekktra efna þess hóps eru galaxólíð (e. galaxolide/HHCB), tónalíð (e. tonalide), selestólíð (e. celestolide) og traseólíð (e. traseolide). Efnin eru ekki takmörkuð innan EES en galaxólíð hefur samræmda flokkun sem mjög eitrað vatnalífverum með langvarandi áhrifum og er í mati hjá Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) sem innkirtlatruflandi efni og PBT efni (þrávirkt efni sem safnast upp í lífverum og er eitrað). Tónalíð er einnig í mati hjá ECHA varðandi innkirtlatruflandi eiginleika og er grunað um að vera mjög eitrað vatnalífverum. Að auki hefur það verið tilkynnt til ECHA að efnið beri með sér flokkunina bráð eiturhrif 4 (e. acute tox. 4), bráð eiturhrif á vatn 1 (aquatic acute 1) og langvarandi eitrunarhrif á vatn 1 (e. aquatic chronic 1).

Moskus ilmefni eru ódýr og veita langvarandi ilm sem gera þau vinsæl, en innan EES er galaxólíð mest notað af fjölhringja moskus efnum.

ATH – Yfirleitt eru þessi heiti efna ekki að finna á innihaldslýsingum snyrtivara en almennt tíðkast að nota „parfum“ eða „fragrance“ fyrir ilmefni þar sem fleiri en eitt ilmefni er til staðar í snyrtivörum.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Almennt um musk efnasambönd á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Skýrsla á ensku um álit Vísindanefndar um öryggi neytenda (e. SCCS) á moskusxýlen og moskusketón.

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 3. apríl 2024.