Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Loftháð jarðgerð

Loftháð jarðgerð er sú aðferð sem helst hefur tíðkast hér á landi síðastliðna áratugi og er því oft talað um hana sem hefðbundna jarðgerð. Eins og nafnið gefur til kynna einkennist hún af því að örverurnar sem sjá um niðurbrotið þarfnast súrefnis til að geta unnið vinnuna sína (þær eru háðar lofti). Þar af leiðandi þarf að súrefnisflæði en það er gert með því að hræra reglulega í jarðgerðinni. Þar að auki er mikilvægt að passa upp hlutfall kolefnis (C) og niturs (N), eða það sem oft er kallað C:N hlutfall og á að vera um 30:1 í góðri moltu. Þetta er gert með því að passa upp á jafnvægi af brúnu hráefni (s.s. trjákurli, pappa og grasi) sem er ríkt af kolefni og grænu hráefni (s.s. matarleifar) sem er ríkt af nitri.

Það er aragrúi af örverum sem sjá um niðurbrotið á þeim hráefnum sem rata í jarðgerðina og þrátt fyrir að allar vilji gott loftflæði vinna þær best við mismunandi hita. Fyrst um sinn eru það örverur sem vinna best við hóflegt hitastig sem brjóta niður lífræna hráefnið. Á meðan þær vinna að niðurbroti hækkar hitastigið jafnt og þétt og þá taka örverur sem njóta sín best í hærra hitastigi (50-60 °C) við. Þegar mikið af niðurbrotinu hefur þegar átt sér stað og minna er fyrir heitu örverurnar að moða úr lækkar hitastigið á ný og þær örverur sem hófu verkið taka við og klára niðurbrotið. Að 4-12 mánuðum liðnum er komin næringarrík molta sem þú getur nýtt í eigin garði eða gefið góðum grönnum og vinum.

Hvernig virkar loftháð jarðgerð?

Þú getur smíðað þér tunnu fyrir heimajarðgerð sjálfur en einnig er hægt að finna ýmiskonar jarðgerðarkassa í verslunum. Þeir eru margir einangraðir eða hannaðir þannig að auðvelt er að hræra jafnt og þétt í jarðgerðinni og tryggja gott súrefnisflæði.

Sama hvort þú smíðar þér jarðgerðarkassa eða kaupir hann úti í búð er best að koma honum fyrir á stöðugu undirlagi úti fyrir. Best er að neðsti hluti botnsins sé í nánu sambandi við undirlagið svo að ormar og skordýr hafi greiðan aðgang að hráefninu í tunnunni. Með því að staðsetja tunnuna ofan á hellu eða hafa fínrifið vírnet undir getur þú komið í veg fyrir að mýs hafi aðgang að jarðgerðinni en þess má þó geta að flestar tunnur sem fást í verslunum eru hannaðar til að mýs komist ekki inn.

Þegar jarðgerðarkassinn er kominn á sinn stað út í garði er ekkert annað eftir en byrja að safna lífrænu hráefni í hann. Gott er að vera með einhverskonar ílát inni í eldhúsi til að safna því sem til fellur og tæma svo reglulega úr því út í kassann. Best er að hræra í hráefninu í hvert sinn sem þú bætir í jarðgerðina til að tryggja súrefni til örveranna. Þá er einnig góð regla að bæta svolítið af brúnu hráefni þegar tæmt er úr eldhúsílátinu í jarðgerðarkassann til að passa upp á gott C:N hlutfall.

Ef ekki fellur til mikið af brúnu hráefni er gott að bæta við hreinum viðarspæni sem hægt er að kaupa í byggingarvöruverslun og bæta smávegis (um einni lúku) í hvert skipti sem maður tæmir í kassann. Stoðefni, eins og viðarspænir, er ekki einungis góður til að viðhalda góðu C:N hlutfalli, heldur tekur það líka í sig raka ásamt því að auka loftflæði í haugnum.

Niðurbrotið fer hraðast fram efst í tunnunni og hægast neðst. Jarðgerðarferlið er í raun stöðugt í gangi og erfitt að segja til um hvenær því er alveg lokið. Vinnslutími og lokaafurð stjórnast þó mikið af því hráefni sem fer í tunnuna, hversu vel er hugað að jarðgerðinni og hvort það sé heitt eða kalt í veðri. Vinnslutími getur þannig verið á bilinu 3-12 mánuðir. Sumt brotnar niður hraðar en annað. Ávextir og grænmeti brotna fljótt niður en brauð, kjöt, pappír og trjágreinar mun hægar. Bein brotna nánast ekki niður og eiga því síður heima í jarðgerð.

Nýting moltu úr loftháðri jarðgerð

Þegar taka á upp það efni sem er neðst í safntunnunni er ráðlagt að sigta grófu efnin úr og setja þau aftur efst í tunnuna. Fína efnið er þá tilbúin molta, dökkbrún, laus í sér og nánast lyktarlaus. Moltan er gífurlega næringarrík og því mikilvægt að annaðhvort blanda henni 50/50 við jarðveg áður en hún er nýtt eða dreifa henni í þunnu lagi (1-2 cm) á yfirborð jarðvegs þar sem til stendur að nýta hana. Ekki er ráðlagt að nýta hreina moltu við sáningu.

Hvað má fara í loftháða jarðgerð?

Mest allt lífrænt hráefni má fara í loftháða jarðgerð. Það sem helst þarf að gæta að er hlutfall kolefnis og niturs fyrir árangursríkt niðurbrot. Þetta er gert með því að hafa gott jafnvægi á grænum hráefnum (s.s. matarleifar) og brúnum hráefnum (s.s. gras, garðúrgangur og pappi). Helst þarf að byggja jarðgerðina upp í lögum úr mismunandi efnum sem eru jafnframt misgróf.

Dæmi um græn hráefni sem mega fara í loftháða jarðgerð:

  • ávextir
  • grænmeti
  • brauð
  • eggjaskurn
  • kjöt (í litlu magni)
  • fiskur
  • tepokar
  • kaffikorgur

Dæmi um brún hráefni sem mega fara í loftháða jarðgerð:

  • pappírsþurrkur
  • plöntur og visnuð blóm
  • sag
  • gras
  • afklippur af runnum
  • trjákurl
  • niðurrifin dagblöð
  • pappi

Það sem ekki er æskilegt að fari í loftháða jarðgerð:

  • mikil olía og vökvi
  • mikið af kjöti og fiski
  • bein
  • timbur
  • aska
  • of mikið af einhæfum hráefnum
  • maíspokar og umbúðir úr lífplasti (PLA-plast)

Hvernig veit ég að allt er í góðu lagi?

Sé allt í góðu standi í jarðgerðinni á hún að ilma svolítið eins og mold eftir rigningu. Hún á alls ekki að lykta illa eða mikið. Annar vísir um að allt sé í góðu lagi er að jarðgerðin hitni milli þess að þú hrærir í henni (á veturna gætirðu komið auga á smá uppgufun þegar þú hrærir í henni) og að hún sé hægt og rólega að breytast í dökkan og næringarríkan jarðveg.

Eitthvað hefur farið úrskeiðis ef:

Mikil ólykt er af jarðgerðinni. Þetta stafar að öllum líkindum af því að of mikill raki eða bleyta er í henni og súrefni kemst ekki að hráefninu. Best er að koma þessu í lag með því að bæta meira af brúnu hráefni (t.d. sag, trjákurl, dólómítkalk, spæni, greinaafklippur, niðurrifin dagblöð eða pappi) og róta hressilega í jarðgerðinni. Þannig fá loftháðu örverurnar sem sjá um niðurbrotið súrefni á ný og geta haldið áfram starfi sínu.

Flugur eru farnar að gera sig heimakomnar í jarðgerðinni. Flugur sækja gjarnan í prótein úr fiski og kjöti. Þó hægt sé að jarðgera bæði kjöt og fisk í loftháðri jarðgerð er æskilegt að halda magn þess í hófi. Ef flugurnar eru til vandræða er ágætt að setja þunnt lag af mold eða sagi ofan á yfirborðið.

Lífrænt hráefni nær illa að brotna niður. Besta ráðið við hægu niðurbroti er einfaldlega að skera eða brjóta hráefni í smærri bita áður en það ratar í jarðgerðarkassann. Þetta gefur örverunum meira yfirborðsrými til að vinna með og hjálpar þeim við niðurbrotið. Það má einnig flýta fyrir niðurbroti með því að bæta hrossataði, kjötmjöli eða nýslegnu grasi í jarðgerðina. Þess má þó geta að á veturna er eðlilegt að hægist á niðurbroti vegna kulda, en örverurnar ná aftur góðum takti þegar vora tekur.

Jarðgerðin er of blaut. Bættu við meira af brúnu hráefni.

Jarðgerðin er of þurr. Bættu við meira af grænu hráefni.

Góð ráð fyrir árangursríka loftháða jarðgerð

Það helsta sem þarf að passa í loftháðri jarðgerð er gott jafnvægi af brúnu og grænu hráefni sem ratar í jarðgerðarkassann og að hræra reglulega í henni til að tryggja gott súrefnisflæði. Sé þessu fylgt eftir ættirðu ekki að lenda í miklum vandræðum.

Það getur verið heppilegt að hafa jarðgerðina í hæfilegri fjarlægð frá heimilinu, þó ekki svo langt að það sé letjandi að fara og tæma í kassann. Það má gera ráð fyrir að flugur sæki í hana af og til, sérstaklega ef í hana eru settar kjöt- og fiskileifar. Því er hentugt að staðsetja tunnuna ekki of nálægt opnum gluggum. Loks er gott að muna að þegar sólin skín á tunnuna getur myndast hiti sem hjálpar til við niðurbrot.

Viljir þú skoða hvernig ástandið er í jarðgerðinni getur þú stungið priki eða járnteini í hráefnið. Ef prikið kemur upp tiltölulega hreint og er volgt fer niðurbrotið eðlilega fram. Sé það kalt og við það loðir svört eðja er massinn of blautur.

Hentar loftháð jarðgerð mér?

Loftháð jarðgerð er ákjósanlegur kostur ef

  • þú hefur aðgang að garði og pláss fyrir jarðgerðarkassa
  • þú hefur gott aðgengi af brúnu hráefni (s.s. pappír, pappa, trjákurli, niðurklipptum runnum og strái) til að blanda við græna hráefnið sem fellur til á heimilinu
  • þú getur komið jarðgerðinni fyrir þar sem er gott frárennsli

Loftháð jarðgerð er ekki ákjósanlegur kostur ef

  • þú býrð þröngt eða hefur ekki aðgang að garði
  • þú ætlar mestmegnis að jarðgera græn hráefni (matarleifar, laufblöð og gras)
  • þig langar að jarðgera mikið magn af kjöt- og fiskafgöngum sem falla til á heimilinu
  • átt líkamlega erfitt með að hræra í jarðgerðinni og finnst ekki gaman að garðvinnu