Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Svifryk

Í andrúmsloftinu er ógrynni ýmis konar agna bæði í vökvaformi sem og í föstu formi. Stærð þessara agna er mjög breytileg, en svifryksagnir, sem hér er fjallað um, mælast í míkrómetrum (µm), en 1 µm = 0,001 mm. Yfirleitt eru agnir sem eru 10-15 µm að stærð taldar til fallryks, en þær sem undir 10 µm til svifryks. Svifryki er skipt í gróft og fínt svifryk, það grófa er frá 2,5 - 10 µm að stærð og það fína er minna en 2,5 µm. Erlendis er oft einnig talað um mjög fínt svifryk en það eru agnir minni en 1 µm. Í stórum dráttum má segja, að fínni svifryksagnir séu flestar af mannavöldum (frá bruna eldsneytis), en þær grófari frá náttúrulegum uppsprettum.

Svifryksagnir eru ekki aðeins ólíkar hvað stærð varðar, en efnasamsetning þeirra er einnig mjög breytileg. Eiginleiki agnanna er mjög mismunandi eftir uppruna þeirra. Nægir í því sambandi að nefna sót, steinryk, málmryk, súlföt, kalk, salt og fleira. Stærri agnir geta verið frjókorn, sandur og silt. Agnir, sem stærri eru en 10-15 µm í þvermál, falla til jarðar nálægt mengunaruppsprettum, en þær sem smærri eru geta borist lengri vegalengdir fyrir áhrif vinda. Fínasta rykið sem myndast í andrúmsloftinu eru loftmengunarefni og þar má nefna t.d. brennisteinsdíoxíð(SO2).

Svifryk af mannavöldum kemur svo að segja frá allri starfsemi, en mest frá eldsneytisbruna, umferð og iðnaði. Náttúrulegar uppsprettur ryks í andrúmsloftinu eru t.d. uppblástur jarðvegs, eldgos og sjávarúði. Talið er að almennt sé 80-90% af ryki í andrúmsloftinu frá náttúrulegum uppsprettum en nýleg könnun á samsetningu svifryks í Reykjavík sýnir að um 12-36% svifryks kemur frá náttúrulegum uppsprettum sem jarðvegur og salt. Það sem sem getur leitt til aukins styrks svifryks er t.d.:

  • Þegar það er stilla og þurrt í lofti, einkum kaldir vetrardagar. Þá getur mengun safnast upp þar sem að ekki er mikil hreyfing á loftinu.
  • Mikil umferð og þá helst við stórar umferðaræðar og nálægt verksmiðjum.
  • Mikið rok en þá er aðallega mikið um uppfok á ögnum frá jarðvegi og umhverfi.

Aukinn styrkur ryks í andrúmsloftinu getur leitt til kólnandi veðurfars, þar sem rykið dregur úr sólarljósi sem nær til jarðar. Áhrif eru þannig öfug við aukinn styrk koldíoxíðs (CO2) sem, ásamt öðrum efnum, viðheldur gróðurhúsaáhrifum. Gróft ryk veldur sjónmengun og óþægindum en fínasta rykið dregur úr skyggni. Sótagnir í andrúmsloftinu auka skaðsemi brennisteinsdíoxíðs (SO2) og brennisteinssýru H2SO4, þar sem þessi efni bindast sótögnunum.

Áhrif svifryks á heilsu fólks er að mjög miklu leyti háð stærð agnanna. Fínar agnir eru heilsufarslega mun hættulegri en þær grófu, en agnir minni en 10 µm eiga auðveldara með að ná djúpt niður í lungun og geta því safnast þar fyrir. Þegar svo langt er komið, fara áhrifin alfarið eftir því hversu lengi og hversu oft persónan andar að sér menguðu lofti og hvort hættuleg efni eru í rykinu eða loða við það, t.d. þungmálmar eða PAH (fjölarómatísk vetniskolefni). Almenningur finnur  þó mismikið fyrir áhrifum svifryks en aldraðir, börn og þeir sem eru með undurliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir.

Stöðugar mælingar  á svifryki fara fram í Reykjavík við Grensásveg og Fjölskyldu og Húsdýragarðinn  en einnig á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði ,  í Kópavogi og við Tryggvabraut á Akureyri. Svifryk hefur einnig verið mælt í nágrenni álversins á Grundartanga og á Reyðarfirði .

Tenglar: