Uppbygging kerfisins

Viðskiptakerfið byggir á svokallaðri “cap and trade” hugmyndafræði hagfræðinnar. Í grófum dráttum virkar kerfið þannig að takmörk eru sett á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá rekstraraðilum og flugrekendum sem falla undir viðskiptakerfið. Þessum fyrirtækjum er úthlutað  losunarheimildum* í samræmi við staðlaðar reglur og þeim síðan heimilað að eiga viðskipti með þær. Heildarfjöldi heimilda í kerfinu samsvarar þeim takmörkunum sem settar eru í upphafi. Hluta heimilda er úthlutað endurgjaldslaust, og hluti þeirra annarsvegar seldur á uppboði og hinsvegar komið fyrir í varasjóði sem ætlaður er nýstofnuðum fyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem vilja auka framleiðslu sína verulega. Vægi uppboðanna mun aukast eftir því sem á líður og þ.a.l. mun endurgjaldslaus úthlutun dragast saman sem nemur samsvarandi aukningu uppboðsheimilda.

Eftir því sem dregið er úr endurgjaldslausri úthlutun þurfa fyrirtæki að leita annarra leiða til að eiga heimildir fyrir losun sinni. Þetta geta þau annaðhvort gert með því að þróa leiðir til að draga úr losun ellegar kaupa viðbótarheimildir á markaði eða opinberu uppboði. Með þessu fæst hagrænn hvati fyrir fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Myndbandið hér að neðan gefur ágætis yfirlit varðandi hugmyndafræðina að baki kolefnismörkuðum:

 

ETS kerfið starfar í öllum 28 aðildarríkjum ESB, auk EFTA ríkjanna Íslandi, Noregi og Liechtenstein.