Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Ástandsmat áfangastaða innan friðlýstra svæða

Friðlýst svæði á Íslandi eru nú um 130 talsins, en umfang þeirra, eðli og ástand er eins misjafnt og svæðin eru mörg. Svæði kunna að hafa verið friðlýst vegna náttúrufars, landslags, jarðminja, útivistar eða sambland framangreindra þátta. 

Margir þættir geta haft neikvæð áhrif á verndargildi friðlýstra svæða. Þó má segja að áhrif mannlegra umsvifa séu hvað mest en friðlýst svæði eru oft vinsælir áfangastaðir ferðamanna. Samkvæmt heimildum Ferðamálastofu komu árið 1953 um 6000 erlendir gestir til landsins. Árið 1983 voru þeir tæplega 78.000 og 2003 komu um 320.000, eða álíka margir og íbúar á landinu. Árið 2018 voru erlendir gestir sem heimsóttu Ísland 2,34 milljónir. 

Sú gríðarlega aukning á komu ferðamanna til landsins hefur aukið álag á friðlýst svæði. Vinsælustu áfangastaðirnir eru að fá um milljón gesta á ári og kallar sá fjöldi á mikla innviðauppbyggingu til verndar viðkvæmri náttúru. 

Árið 2016 voru sett lög um gerð landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Mikil uppbygging hefur nú þegar átt sér stað og önnur er í ferli, ásamt því að landvarsla hefur verið aukin til muna. 

Umhverfisstofnun tók saman í fyrsta sinn lista árið 2010 yfir þau svæði sem að veita þarf sérstaka athygli og að hlúa sérstaklega að. Rauði listinn var gefinn út á tveggja ára fresti til ársins 2016. 

Árið 2017 var byrjað að nota nýtt verkfæri til að meta ástand ferðamannastaða innan friðlýstra svæða. Verkfærið byggir á 27 viðföngum sem metin eru. Skýrsla um ástand ferðamannastaða innan friðlýstra svæða er gefin út árlega. Áhersla er lögð á að verkfærið leggi hlutlægt mat á verndarsvæði, sé samanburðarhæft milli svæða og gefi til kynna hvort ástand svæða fari batnandi eða versnandi milli ára. Þrír meginþættir eru metnir, skipulag, innviðir og verðmæti.