Krossanesborgir

Krossanesborgir voru friðlýstar sem fólkvangur árið 2005. Markmiðið er að vernda svæðið til útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu. Auk þess er verndaður mikilvægur varpstaður fjölda fuglategunda, búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og sérstæðar jarðmyndanir og þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni.

Stærð fólkvangsins er 114,8 ha.

Hvað er áhugavert?

Svæðið er alsett klettaborgum eða stuttum klappaásum, sem snúa norður-suður, og eru vanalega hvalbakslaga, þ.e. aflíðandi að sunnanverðu, en með klettabelti að norðan og austan.

Í borgunum er 5-10 milljóna ára basalt, úr því er berggrunnur Akureyrar. Langflestar borganna eru nokkurn veginn eins og ísaldarjökullinn skildi við þær fyrir um 10 þús. árum. Þær liggja í óreglulegum röðum og þyrpingum, en á milli þeirra eru oftast mýrarsund, og tjarnir í sumum þeirra. Stærstu borgirnar hafa eigin nöfn, s.s. Stekkjarklöpp, Krummaklöpp, Háaklöpp og Hestklöpp. Helstu tjarnirnar eru Djáknatjörn, skammt fyrir innan Brávelli, og Hundatjörn upp af Ytra-Krossanesi. Hundatjörn er heppilegur staður fyrir skólanemendur að æfa sig að safna lífverum, sem lifa í tjörnum og öðru votlendi.

Gróðurfar

Mikill gróður er í þessum tjörnum, sérstaklega Djáknatjörn, en þar vaxa margar nykrutegundir, m.a. hin sjaldgæfa langnykra. Á klettunum eru ýmis merki um jökulskrið, fyrir utan lögunina sem þegar er getið. Þar eru víða greinilegar jökulrákir (jökulrispur) og dýpri grópir, grettistök o.fl. Gróðurfar í borgunum er fjölbreytt og hafa þar fundist um 190 plöntutegundir, þar af 16 starategundir. Þetta er um 40% allra íslenskra blómplantna og byrkninga. Meginhluti mýranna í borgunum hefur sloppið við framræslu. Þar eru einu mýrarnar í bæjarlandinu sem eru óskemmdar. Mýragróðurinn er sérstaklega fjölbreyttur. Annars er lyng- og grasgróður ríkjandi á þurrlendinu og nokkuð er af víðirunnum.

Dýralíf

Fuglalíf var rannsakað sérstaklega sumarið 2003. Í ljós kom að alls urpu 27 tegundir fugla á svæðinu, þ.e. um 35% af öllum íslenskum fuglategundum. Þéttleiki fugla er á svæðinu mikill, sumarið 2003 var hann um 600 pör/km2 og hafði aukist um 100% frá því 5 árum fyrr. Nokkrar fuglategundanna sem verpa á svæðinu eru á válista. Fyrir fleiri fuglategundir er svæðið mikilvægt varpland.

Menningarminjar

Á svæðinu var um tíma kotbýlið Lónsgerði, en enn sést móta fyrir húsatóftum. Þá má á svæðinu enn sjá merki um vatnsveituskurð, sem gerður var um aldamótin 1900. Fyrsti akvegur í norður frá Akureyri, lagður 1907, liggur um svæðið og er nánast eini búturinn sem eftir er af þeim vegi. Á tímum síðari heimsstyrjaldar voru hermannabraggar á svæðinu, byssuhreiður og gaddavírsflækjugirðingar, sem enn sjást leifar af.