Aðgengi og þjónusta

Ekið er að Kerlingarfjöllum um Kjalveg (F35), þaðan sem beygt er inn á Kerlingarfjallaveg (F347). Yfir sumartíkmann er fært fyrir alla jepplinga og stærri bíla og engin vöð eru á leiðinni. Hálendismiðstöð og hótel er rekin í Ásgarði þar sem hægt er að kaupa veitingar og gistingu á herbergjum, í skálum og svefnpokaplássi eða á tjaldsvæðinu. 

Nánari upplýsingar um þjónustu í Kerlingarfjöllum má finna á www.kerlingarfjoll.is

Frá Ásgarði er 10-15 mínútna gangur (1,1 km) upp meðfram Ásgarðsá í heita laug þar sem hægt er að baða sig. Vatnið í lauginni kemur í borholu við árbakkann og er á milli 30-40°C heitt 

Kjalvegur

Um tveggja tíma akstur er um Kjöl (Kjalvegur, F35) frá Gullfossi að Kerlingarfjöllum. Á leiðinni er hægt að kaupa veitingar og gistingu í Árbúðum og Hvítárnesi. Hvergi er hægt að kaupa eldsneyti á Kili - næstu bensínstöðvar eru á Geysi til suðurs og á Blönduósi eða Varmahlíð í norðri. 

Vegslóðar liggja einnig að Kerlingarfjöllum að sunnan (Leppistunguleið) og að austan (Setursleið). Þær leiðir opnast seint um sumrin, eru torfærar, grófar og aka þarf yfir óbrúaðar ár og læki. Þær leiðir eru því einungis færar fjórhjóladrifnum jeppum. Leiðirnar opnast seinna á sumrin en Kjalvegur sökum aurbleytu og hættu á skemmdum ef ekið er um þær of snemma.