Lónsöræfi

Sjáðu þrívíddarkort af svæðinu

Innfjöll með Eskifelli, Kjarrdalsheiði, Kollumúla og Víðidal voru friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum í ársbyrjun 1977 að fengnu samþykki landeigenda. Frumkvæði að friðlýsingu höfðu Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST). Er svæðið friðland og ýmist kennt við Lónsöræfi eða Stafafellsfjöll. Lónsöræfi er nýyrði án hefðar heima fyrir.

Stærð friðlandsins er 34.528,1

Hvar eru Lónsöræfi

Upp frá Lóni, austan Vatnajökuls gengur fjallahringur, dalir og öræfi er nefnast Stafafellsfjöll. Þau skarta mikilli fjölbreytni í formum og litum sundurskorin af gljúfrum og giljum. Náttúran einstaklega litrík og mikið er um líparít, holufyllingar og fagra steina. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um öræfin. Stafafellslandið er stórkostlegt gönguland fyrir þá sem unna fögrum jarðmyndunum.

STAFAFELLSFJÖLL

Stafafell hefur frá fornu fari verið landmesta jörð í Lóni. Þar var höfuðkirkja sveitarinnar í kaþólskum sið og prestur til 1920. Margar hjáleigur fylgdu jörðinni og upp af einni þeirra byggðist jörðin Brekka. Heimalönd og afréttur í Stafafellsfjöllum er óskipt eign þessara jarða. Ofan bæjar á Stafafelli heitir landið Heimafjall milli Jökulsár og Hlíðarár inn að Hvannagili og Fláatindi. Innan við Hvannagil taka við austurskógar og ná að Sviptungnavarpi við Hnappadalstind. Þar loka hrikaleg gljúfur leiðum fyrir menn og skepnur. Í heild er þetta svæði nefnt Framfjöll til aðgreiningar frá Innfjöllum sem eru vestan Jökulsár frá Skyndidalsá norður á vatnaskil á Hraunum Innfjöllum tilheyrir einnig Víðidalur.

Hvað er áhugavert?

FRIÐLAND Á LÓNSÖRÆFUM

Friðland á Lónsöræfum er eitt af strærstu verndarsvæðum landsins, um 320 km­² að flatarmáli.  Það er úrvalssvæði í fermstu röð og þjóðgarðsígildi.  Háir fjallgarðar, víða yfir 1000 metra, mynda umgjörð friðlandsins á þrjá vegu, krýndir fönnum og jöklum sem senda frá sér skriðjökultungur.  Hæst ber Grendil (1570 m) að vestan og Jökulgilstinda (1313 m) að austan, en á milli rís Sauðhamarstindur (1319 m) nálægt miðju friðlandsins.  Þá sést og víða til Snæfells (1833 m) handan Hrauna í norðvestri.

JARÐMYNDANIR OG LÍFRÍKI

Fjölbreyttar og litríkar jarðmyndanir setja svip sinn á svæðið.  Þær eru að meginstofni 5-7 milljón ára gamlar en þær yngstu eru orðnar til á ísöld.  Innan friðlandsins og í næsta nágrenni þess eru leifar margra megineldstöðva, svo sem Lónseldstöðvar næst byggð.  Kollumúlaeldstöðvar í hjarta friðlandsins, Flugustaðaeldstöðvar á austurmörkum og Eyjabakkaeldstöðvar að norðvestan.  Allar segja þær til sín með súrum gosmyndunum, líparíti og innskotum, og auk þess hefur jarðhiti átt þátt í ummyndun og litauðgi bergs á svæðinu.  Síðustu leifar hans er nú að finna í ölkeldum.  Í Kollumúlaeldstöð myndaðist askja um 35 km² að flatarmáli og er mikið magn af brotabergi norðan Illakambs vottur um sprengigos innan hennar.
Gífurlegir rofkraftar ísaldar hafa sorfið landið og gefa því það stórfenglega svipmót sem nú blasir við. Þannig hafa jöklar heflað út Jökulsárdal og Víðidal og árnar síðan bætt um betur með hrikalegum gljúfrum.  Nokkrir fossar prýða svæðið, fossar í Jökuslá innst í Vesturdal, fagur og hár foss í ánni sem fellur suður úr Vatnadæld, geysihár foss af Suðurfjalli gegnt Tröllakrókum og í Víðidalsá fossar eins og Dynjandi og Beljandi.
Birkikjarr er víða inn með Jökulsá, einna vöxtulegast í Leiðartungum og sunnan í Kollumúla, þar sem einnig vaxa nokkur reynitré.  Fjallaplöntur eins og jöklasóley og melasól fylgja skriðum niður undir láglendi og gullsteinbrjótur minnir á sérkenni austfirskrar flóru.
Heimildir eru um að hreindýr hafi gengið í Víðidal og grennd á 19. öld og eftir 1964 hefur oft verið þar margt hreindýra.

BYGGÐ OG BÚSKAPAHÆTTIR

Tvö eyðibýli, Eskifell og Grund í Víðidal, tengja friðlandið við byggðasögu og ævintýralegt mannlíf á 19. öld.  Í Eskifelli var búið 1836 - 1863 og á Grund þrisvar á tímabilinu 1835 - 1897, samtals í um 20 ár.  Um og eftir aldamótin 1900 fóru Stafafellsbændur að reka fé, aðallega sauði og fráfærulömb , norður fyrir Skyndidalsá og vitna mörg Lambatungnanöfn um búskparhætti fyrri tíðar.  Síðar var fé rekið í Innfjöll fyrir sauðburð og þá rúið og markað þar inn frá.  Þessum upprekstri frá Stafafellstorfunni var hætt upp úr 1960; var þá að mestu fjárlaust á svæðinu í áratug og tók gróður þá stakkaskiptum.  Frá 1971 að telja haf bændur úr Nesjum rekið fé í Innfjöll og ber gróður á svæðinu nú víða merki beitar.

FORN FJALLVEGUR OG FERÐAMENNSKA

Fyrr á öldum lá fjallvegur um þetta svæði með austurjaðri Vatnajökuls og fóru menn þar ríðandi milli landshluta, m.a. úr Norðurlandi á leið í verstöðvar sunnan jökuls.  Um þetta vitna fornar vörður og örnefni eins og Norðlingavað á Jökulsá og Víðidalsá.  Með tilkomu byggðar í Víðidal seint á 19. öld beindust sjónir á ný að þessum öræfaslóðum og nokkrir lögðu leið sína um þær milli Fljótsdal og Lóns, þar á meðal Þovaldur Thoroddsen fyrstur náttúrufræðinga. Leiðin lá þá eins og nú um Illakamb.  Víðidalsbændur komu upp drætti á Jökulsá og Víðidalsá 1892 - 93.  Árið 1953 byggðu Lónmenn göngubrú á Jökulsá við gangnakofann í Nesi sem Víðidalsbændur kölluðu Stórahnaunsnes.  Frá miðjum 7. áratugnum fór ferðafólk að leggja leið sína um vegslóða inn á Illabamb og tjaldaði undir kambinum.   Ferðafélag Austur-Skaftafellinga reisti Múlaskála í Nesi 1991 - 92 og ári síðar byggði Ferðafélag Fljótsdalshéraðs skála við Kollumúlavatn í um 630 m hæð.  Áður var risinn skáli norðan undir Geldingafelli.  Saman mynda þessir skár hæfilega áfanga á gönguleið milli Stafafells og Snæfells eða Fljótsdals.  Í athugun er að koma upp göngubrú yfir Jökulsá í Austurskógum og áningarstða í grenndinni en með því tengist samfelld gönguleið með skálum milli byggða.

Aðgengi

Um friðlandið gilda allar almennar reglur um náttúruverndarsvæði.  Akstur er þar bannaður utan slóðar inn á Illakamb og svæðið er að öðru leyti gönguland. Friðland á Lónsöræfum er í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs og er eftirliti og annarri starfsemi sinnt af starfsfólki þjóðgarðsins.

Landvörður er í Múlaskála að sumarlagi og veitir upplýsingar um gönguleiðir.  Hliðstæð þjónusta er í Snæfellsskála.  Upplýsingar um svæðið er einnig að fá í ferðaþjónustunni í Stafafelli.

Gönguleiðir

1. ESKIFELL - KAMBAR - ILLIKAMBUR

Fjárgötur liggja frá eyðibýlinu Eskifelli inn úr Kömbum á Illakamb fram með hrikalegu gljúfri Jökulsár. Þessi leið liggur mun lægra en ef fylgt er bílaslóðinni yfir Kjarrdalsheiði.

2. MÚLASKÁLI - KOLLUMÚLAVATN - GELDINGAFELL

Gengið með Jökulsá inn um Leiðartungur upp á Sanda að skála við Kollumúlavatn.  Þaðan um Tröllakrókahnaus (809 m) norður Kollumúlahraun og um Vatnadæld að skála norðan undir Geldingafelli.  Þaðan liggur leið yfir Eyjabakkajökul til Snæfells, en einnig má ganga yfir Múlahraun að Eyjabökkum og fylgja Jökulsá niður í Fljótsdal.

3. MÚLASKÁLI - KOLLUMÚLAVATN - MÚLADALUR/GEITHELLNADALUR

Inn Leiðartungur upp á Sanda að Kollumúlavatni.  Þaðan inn Kollumúlaheiði, yfir Víðidalsá á Norðlingavaði og fram með Hnútuvatni um Háás niður í Múladal þar sem lítill ferðamannaskóli er við Leirás.  Jeppaslóð er út dalinn röska 20 km leið til byggða.  Sami dalur heitir Geithellnadalur austan ár.

4. VÍÐIDALSDRÖG - SAUÐÁRVATN - SUÐURDALUR Í FLJÓTSHLÍÐ

Frá Norðlingavaði á Víðidalsá er haldið inn Víðidalsdrög austan ár og fylgt gömlum vörðum yfir sýslumörk á Víðidalsvarpi.  Liggur varðaða leiðin rétt vestan Sauðárvatns og var þaðan riðið um Þorgerðarstaðadal niður í Suðurdal í Fljótsdal.  Stysta gönguleið til byggða liggur hins vegar austan Sauðárvatns og út á Kiðufell (Suðurfell) og niður af fellinu utan Ófæruár og yfir Fellsá á göngubrú við bæinn Sturluflöt.

5.  GJÖGUR - MEINGIL - STÓRIHNAUS

Stikuð leið frá Múlaskála um Gjögur að Meingili og upp með því að vestan að tveimur hengifossum.  Þaðan ofan við Stórahnaus og niður skriður utan við Stórahnausgil að skála.  Gatan um Gjögur er tæp á kafla og varhugaverð fyrir lofthrædda.

6.  MÚLAKOLLUR

Á Múlakoll (901 m) er m.a. hægt að ganga frá leiðinni um Gjögur eða nær beint upp frá Múlaskála.  Lengri leið er um Leiðartungur og frá Söndum suðaustur á koll.  Frá brúnum hans litlu sunnar blasir við Sviptungnakollur, Hnappadalstindur og Grísatungnagil austan Víðidalsár.  Til baka er hægt að fara niður ?milli gilja?.

7.  GRUND Í VÍÐIDAL

Til Víðidals er farið um Leiðartungur og austur yfir Sanda.  Bæjarstæðið á Grund er í sveif  í um 400 m hæð austan Víðidalsár undir hlíðum Hofsjökuls.  Þar sér vel til rústa frá síðustu byggðinni 1883 ? 97.  Víðidalsá er óbrúuð og getur verið illvæð eða ófær en stundum má komast yfir hana á snjólofti í árgilinu norðar.  Frá Grund er gönguleið um skarð sunnan Hofsjökuls til Hofsdals eða Flugustaðadals í Álftafirði.

8. JÖKULSÁRDALUR - TRÖLLAKRÓKAR  VESTURDALUR

Skemmtileg en stíf dagsganga er inn Jökulsárdal um Stórsteina og Tröllakróka inn í Vesturdal.  Rétt er að fylgja ekki Jökulsá milli Leiðartungna og Stórsteina vegna skriðuhafts við ána á kafla.  Komast má upp á Kollumúla innarlega um skriður innan við Tröllakróka og ganga út brúni múlans og um Leiðartungur til baka.

9. SAUÐHAMARSTINDUR

Ganga á Sauðhamarstind (1319 m) er talsvert príl og vissara að hafa með sér brodda og ísöxi.  Ganga má um Víðibrekkusker eða eftir gili sem er litlu sunnar en Múlaskáli.  Komast þarf um skriðu upp á hátt kletabelti og um fannir á Röðul sem myndar suðaustur öxl fjallsins og þaðan á hæsta tindinn.  Nánari leiðsögn hjá landverði.

10.  SKYNDIDALUR - KEILUVELLIR - HOFFELLSDALUR

Frá Jökulsársandi er þægileg ganga inn norðanverðan Skyndidal að Keiluvöllum.  Þar innan við fellur Lambatungnaá allströng í Skyndidalsá.  Ganga má yfir Lambatungnajökul eða vaða Skyndidalsá og halda upp Nautastíg og um varp suður í Hoffelsdal.