Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Ástjörn og Ásfjall, Hafnarfirði

Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar var t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar og er flórgoði  alfriðuð tegund og á válista.  Í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað.

Stærð fólkvangsins er 56,9 ha.