Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Valhúsahæð, Seltjarnarnesi

Valhúsahæð var friðlýst sem náttúruvætti árið 1998. Á Valhúsahæð er rákað berg eftir ísaldarjökul. Þaðan er víðsýnt um Faxaflóa. Hæðin ber nafn sitt af húsum sem fyrr á öldum geymdu veiðifálka Danakonungs. Valhúsahæð er hæsti staður á Seltjarnarnesi í 31 m hæð yfir sjó.

Á Valhúsahæð er graslendi, lítt grónir melar, mólendistorfur og votlendisblettir. Þar er að finna fjölda tegunda t.d. olurt, túnvingul, blóðberg, vallelftingu, krossmöðru, gulmöðru, túnfífla, blávingul, vallhæru, axhæru, vallarsveifgras, hvítmöðru, klóelftingu, vallhumal, kattartungu, gleym-mér-ei, umfeðming, grávíðir, þursaskegg, túnvingul, mosajafna, krækilyng, mósef, brjóstagras, gullmuru, lógresi, friggjargras, mýrfjólu, þrenningarfjólu, njóla, túnsúru, brennisóley og maríustakk svo eitthvað sé nefnt.

Jarðfræði á Valhúsahæð er margbreytileg en þar er að finna laus jarðlög, basalthraunlög (grágrýti) og jökulrákir. Einnig er vel hugsanlegt að forna eldstöð sé að finna á Valhúsahæð. Aldur grágrýtishraunanna á Seltjarnarnesi er nokkuð óljós, en talið er að þau hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði. Laus jökulruðningur sem þar er að finna er væntanlega frá lokum síðasta jökulskeiðs. Á Valhúsahæð má skoða minjar sem tengjast hersetu og sögu hernámsins hér á landi í seinni heimstyrjöldinni

Stærð náttúruvættisins er 1,7 ha.

Ljósmynd tekin ofan af Valhúsahæð