Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Drónareglur Dynjanda


Mynd: Annie Spratt - Unsplash

Drónaflug við Dynjanda

Drónar njóta síaukinna vinsælda við ljósmyndun og kvikmyndatöku á Íslandi og hafa náð þeim sessi að vera almenningseign auk þess sem notkun dróna við rannsóknir hefur aukist. Í friðlýsingarskilmálum Dynjanda kemur fram að Umhverfisstofnun sé heimilt að setja nánari reglur um aðgengi og dvöl almennings innan marka hins friðlýsta svæðis, sbr. auglýsing nr. 348/1986. Við mat á áhrifum á flugi dróna á svæðinu lítur Umhverfisstofnun til eftirfarandi þátta: 

Fuglalíf:  

Engar staðrannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum drónaflugs á fugla við Dynjandisvog. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið annar staðar hafa leitt í ljós að drónaflug nálægt fuglum getur í einhverjum tilfellum haft truflandi áhrif á þá.

Í Dynjandisvogi hafa verið skráðar 35 tegundir fugla, þ.á.m. nokkrar tegundir sem eru á lista yfir ábyrgðartegundir Íslands og/eða á válista. Vor og haust nýta rauðbrystingar fjöruna við Dynjanda til fæðuöflunar á leið sinni milli varpstöðva í Grænlandi/Kanada og V-Evrópu þar sem stofninn hefur vetursetu.

Gestir:

Nokkuð hefur verið rætt um áhrif drónaflugs á upplifun gesta á náttúruverndarsvæðum og sýnist sitt hverjum en ljóst er að einhverjir upplifa dróna á flugi sem áreiti og truflun. Langstærstur hluti þeirra gesta sem sækja Dynjanda heim gera það á tímabilinu maí-september en hlutfallslega fáir yfir vetrartímann. Á góðviðrisdögum á sumrin er ekki óalgengt að talsverður fjöldi sé saman kominn á svæðinu en á veturna kemur það reglulega fyrir að mannlaust er í nágrenni fossanna. 

Umhverfisstofnun metur sem svo að truflun af drónaflugi sé óveruleg þegar fáir ferðamenn eru á svæðinu og lítill sem enginn fugl. Lífríki svæðisins og gestafjöldi kalli því ekki á leyfisskyldu yfir vetrartímann.  Á varp- og fartíma fugla, sem fer saman við toppa í gestakomum, geta drónar haft truflandi áhrif bæði á fuglalíf og gesti. Mögulegt er að draga úr neikvæðum áhrifum drónaflugs með ábyrgri notkun en þeir sem hyggjast fljúga dróna við Dynjanda á tímabilinu 1. maí – 15. september þurfa að fá fyrir því leyfi og hlíta leiðbeiningum, skilyrðum og, eftir atvikum, eftirliti Umhverfisstofnunar með fluginu. 

Reglur um drónaflug við Dynjanda

1. maí – 15. september
Óheimilt er að fljúga fjarstýrðum loftförum (drónum) innan náttúruvættisins á tímabilinu 1. maí – 15. september nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Undanskilið banninu eru leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar og annara stofnana sem sinna lögbundnum rannsóknum og eftirlitshlutverki með náttúru- og menningarminjum.

 

16.september – 30.apríl
Heimilt er að fljúga fjarstýrðum loftförum (drónum) innan náttúruvættisins á tímabilinu 16. september – 30. apríl án leyfis Umhverfisstofnunar. Tryggja skal að notkunin skaði ekki fólk og dýr eða valdi tjóni á eignum og gæta skal þess að trufla ekki upplifun annara gesta. Að öðru leyti skal haga notkun dróna í samræmi við reglugerð nr. 990/2017, um starfrækslu fjarstýrðra loftfara. Umhverfistofnun bendir sérstaklega á að ávallt er óheimilt að fljúga dróna yfir mannfjölda og að drónar sem notaðir eru í atvinnuskyni þarf að skrá sérstaklega hjá Samgöngustofu.