Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Saga og menning

Fyrstu heimildir um jörðina Dynjanda eru frá miðöldum en fram á 17. öld var hún oftast í eigu ríkra einstaklinga sem búsettir voru utan Arnarfjarðar. Hún var t.a.m. í eigu Guðmundar „ríka“ Arasonar á Reykhólum á 15. öld en hann átti 140 jarðir á Vestfjörðum þegar best lét. Jörðin var að fornu mati 18 hundruðir en árið 1847 var hún svo metin og var þá meðtalin eyðijörðin Búðavík sem var hjáleiga frá Dynjanda og talin hafa farið í eyði fyrir árið 1650. Á Dynjanda var gott beitarland og var skógurinn nytjaður til beitar, hrís- og eldiviðartöku ásamt því sem kolabrennsla fór fram. Jörðin var því talin góð.

Bæjarstæðið var á miðjum svokölluðum Bæjarhól. Dý var fyrir neðan hólinn, nefnt Skolladý, sennilega til að hræða börn frá því. Í hlíðinni voru útihús sem enn sjást ummerki um. Skriður féllu stundum á beitarlönd og eins gat Dynjandisá flætt yfir bakka sína og spillt engjum og túnum. Bændur á Dynjanda hlóðu því flóðvarnargarð og má sjá leifar hans á árbakkanum ofan brúar. Á hjalla ofan við bæinn er hlaðin lítil þríhyrnd laug sem hugsanlega var notuð til þvotta eða böðunar af heimilisfólki. Sumarið 1887 mældist hitinn í lauginni 26,5° C en hafði lækkað niður í 23,5° C árið 1996.

Einna kunnastur fyrri ábúenda á Dynjanda er Símon Sigurðarson (1788-1859) er ættaður var úr Eyjafirði. Hann stóð fyrir búi á Dynjanda á árunum 1824-1858. Símon var mikill sjósóknari og þótti afburðafær skutlari við sela- og hvalveiðar. Sagt er að Símon hafi eitt sinn verið staddur við messugjörð á Hrafnseyri. Þar sem hann stóð á hlaðinu við gamla bæinn sá hann hvar maður gekk með háan kollhatt fyrir neðan kirkjugarðinn. Greip hann þá að gamni sínu broddstaf sem þar var og skutlaði svo hattinn tók af höfði mannsins án þess að skaða hann, eina 25-30 m. Á fyrrihluta 19. aldar sigldi Símon skipum til Danmerkur um nokkurra ára skeið og var brautryðjandi í þeim efnum. Markús Bjarnason, fyrsti skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, var sonarsonur Símonar en margir afkomenda hans urðu afburða sjómenn og nafnkenndir skipstjórar.

Jörðin Dynjandi var í ábúð til ársins 1951. Þá féll niður föst búseta á staðnum er síðustu ábúendurnir, Guðmundur Jóhannsson og Guðrún Sigríður Guðjónsdóttir, fluttu til Bíldudals. Þau nytjuðu jörðina þó áfram fram á sjöunda áratuginn.