Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Gönguleiðir

 

Í Hornstrandafriðlandinu eru margar og fjölbreyttar gönguleiðir. Hornstrandir eru afskekktar og því er mikilvægt að vera vel undirbúin fyrir ferð um svæðið. Hér að neðan eru nokkrar leiðarlýsingar.

Hesteyri - Sæból í Aðalvík, um Sléttuheiði (12 km 5 klst.)

Gengið er áleiðis út Hesteyrarfjörð eftir göngustíg sem leiðir upp á Nóngilsfjall. Þaðan er gengin Sléttuheiði (280m). Göngustígur er að hluta til góður og vel varðaður. Rétt ofan við Sléttu þarf að þvera Sléttuá. Þegar gengið er niður að prestsetrinu á Stað í Aðalvík verður erfiðara að greina göngustíginn. Leiðin niður að Stað getur verið blaut og þarf því að fara varlega. Með viðkomu á Sléttu lengist gangan um 1 – 2 klst.


Hesteyri


Sæból í Aðalvík

Sæból – Darri - Sæból (7 km 3 klst.)

Frá tjaldsvæðinu á Sæbóli er gengið að Traðará, þaðan er farið eftir götu austan við ánna og upp í Garðadal. Þar er áin þveruð og stíg fylgt upp á fjallið. Eftir að komið er upp á fjallið tekur við vegur sem leiðir gesti alla leið upp að herstöðinni á Darranum (490 m). Sama leið er gengin til baka.



Minjar eftir breska herstöð á Darra, ofan Sæbóls í Aðalvík

Hesteyri - Látrar í Aðalvík, um Hesteyrarskarð (10km 4 klst.)

Leiðin liggur upp frá þorpinu á Hesteyri og í Hesteyrarskarð (270m). Genginn er gamall akvegur í skarðið. Úr Hesteyrarskarðinu er gatan (nokkuð greinileg) sem liggur spölkorn frá vörðunum. Þegar að komið er niður Stakkadal þarf að vaða Stakkadalsós. Botn óssins er að mestu sandur. Eftir að ósinn hefur verið þveraður er genginn stígur eftir sandinum og yfir að Látrum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hesteyrarskarð (270m) horft yfir að Látrum

Látrar – Straumnesfjall – Rekavík bak Látur – Látrar (22 km 6 – 8 klst.)

Frá Látrum og upp á Straumnesfjall liggur vegur inn víkina og upp á Látrafjallið innanvert. Veginum er fylgt alla leið að herstöðinni sem stendur efst uppi á fjallinu. Þegar haldið er til baka er gengið niður í Öldudal, vörðubrot finnast hér og þar en engin gata. Ef halda á niður að Rekavíkurbænum þarf að ganga inn víkina til baka við Rekavíkurvatn. Betra er að halda hæð ofan við hamrabeltin, í ca 60-80 metrum, og ganga þar inn að Grasadalsá. Handan árinnar er vegslóði sem genginn er til baka að Látrum.


Herstöðin á Straumnesfjalli

Látrar í Aðalvík – Fljótavík, um Tunguheiði (10km 4 - 5 klst.)

Frá Látrum er genginn vegurinn inn víkina þar til hann beygir til vesturs ofan Rekavíkur. Austur út frá veginum tekur við vörðuð gönguleið sem leiðir göngumenn fram á brúnir Tungudals (480m). Niður Tungudalinn liggur brött gata. Farið er framhjá Tungubænum og gengið nokkuð inn víkina að Fljótavatni. Við Fljótavatn er merkt vað, til móts við Langanes. Athugið að vaðið getur verið mis hátt, allt frá kálfum og upp í nára.



Tunguheiði, horft ofan í Aðalvík

Fljótavík – Kjaransvík, um Þorleifsskarð (15 km 7- 8 klst.)

Leiðin liggur um mýrlendi meðfram Fljótavatni. Gengið er upp hlíðar Þorleifsdals og þaðan upp brattar hlíðar Þorleifsskarðs (360m). Gönguleiðin úr skarðinu niður í Almenninga er í gegnum stórgrýti. Farið er um Almenningaskarð (430m) og þaðan í Kjaransvík. Leiðin er seinfarin og erfið yfirferðar. Hluti leiðarinnar er stikaður, en engu að síður er hún villugjörn í þoku.

Hesteyri - Kjaransvík - Hlöðuvík, um Kjaransvíkurskarð (14 km 6-7 klst.)

Frá Hesteyri er gengin vörðuð leið inn Hesteyrarbrúnir og að Kjaransvíkurskarði (426m). Niður úr skarðinu er áfram vörðuð leið niður í fjöru Kjaransvíkur. Þar er Kjaransvíkurá þveruð og haldið áfram í fjörunni fyrir Álfsfell og yfir í Hlöðuvík.

Hesteyri séð frá Hesteyrarbrúnum

Hlöðuvík - Hornvík, um Atlaskarð (10 km 4 – 5 klst.)

Frá Hlöðuvík liggur gönguleiðin upp innanverðan Skálakamb (350m). Bratt er upp Skálakambinn en gatan er góð. Varasamt getur þó verið að ganga þar um eftir mikla ofankomu og leysingar. Frá Skálakambi er gengin vörðuð leið ofan Hælavíkur og yfir í Atlaskarð (327m). Niður í Rekavík bak Höfn er greinileg gata alveg niður í fjöru, þar sem Rekavíkuráin er þveruð. Haldið er áfram inn í Hornvík eftir greinilegri götu sem leiðir fólk niður í fjöru, um Tröllakamb og inn að Höfn.

Hlöðuvík ofan frá Skálakambi. Álfsfell tignarlegt í baksýn.

 

Rekavík bak Höfn, Hornbæirnir standa undir Jörundi og Kálfatindum.

 

Veiðileysufjörður - Hornvík - um Hafnarskarð (10 km 4 -5 klst.)

Úr botni Veiðileysufjarðar er gengið upp í Hafnarskarð. Leiðin er vörðuð þar sem hún liggur upp með Veiðileysuá. Hafnarskarð (519m) er bratt og getur verið snjóþungt. Vel vörðuð leið tekur svo við úr skarðinu og niður í Höfn. Mikið er af vatnsföllum á þessari leið og má því gera ráð fyrir að þurfa að vaða einstaka á eða læki.

Veiðileysufjörður í stillu. Séð frá tjaldsvæði.

 


Hafnarskarð. Mikill snjór getur verið beggja vegna skarðsins.

Hrafnfjörður - Furufjörður, um Skorarheiði (7 km 3klst.)

Gengið er úr botni Hrafnfjarðar um Skorarheiði (200m), í Furufjörð. Leiðin liggur upp með vestanverðri Skorará u.þ.b 1 km en þar er komið að brú. Fylgt er skýrri götu upp á heiðina og fram hjá Skorarvatni. Eftir 1 km skiptist stígurinn, þá er farið af megin stígnum og gengið meðfram hlíðinni til að losna við að ganga í mestu bleytunni.

Gýgjarsporshamar í botni Hrafnfjarðar.

 

Brúin yfir Skorará í Hrafnfirði.

 

Skýr og greinileg gata er yfir Skorarheiði.

 

Bænhúsið í Furufirði.

Furufjörður – Hornvík (2-3 dagar)

Frá Furufirði er haldið út með firðinum að norðanverðu. Gengið er fyrir Bolungarvíkurófæru í norðanverðum Furufirði, þar þarf að sæta sjávarföllum. Úr Bolungarvík er farið um Göngumannaskörð (366m) í Barðsvík, um Smiðjuvíkurháls í Smiðjuvík og áfram norður Almenninga að Axarfjalli. Lítið er um vegmerkingar á þeirri leið. Af Axarfjalli er haldið niður að Hornbjargsvita í Látravík. Einnig er hægt að halda á beint í Hornvík, þá er hæðinni haldið á Axarfjalli og sveigt til vesturs í átt að Kýrskarði og þaðan yfir í Hornvík.

Úr Furufirði er einnig hægt að ganga um Svartaskarð í Þarlátursfjörð og Reykjafjörð og þaðan áfram í Ófeigsfjörð og Ingólfsfjörð (4 - 5 dagar).

Tekið fyrir ofan Smiðjuvík.

 

 

Smiðjuvík.

 

Bjarnanes.

 

Úr Hrollaugsvík, horft yfir Bjarnanes.

Höfn – Hornbjarg (13 km 8 -10 klst.)

Gengið er fyrir víkina að Hafnarósnum. Vaðið yfir ósinn er rétt fyrir neðan Kýrá sem rennur saman við ósinn. Gönguleiðin liggur niður með ósnum og svo fyrir ofan fjöruna þegar utar er komið í víkina. Göngustígurinn leiðir alla leið út að Horni (238m) í Ystadal. Þaðan er hægt að ganga skemmtilegan hring um bjargið yfir Miðfell (366m). Athugið að gönguleiðin yfir Miðfell er brött og erfið yfirferðar þá sérstaklega ef vætursamt er.

Hornbjarg séð frá Höfn.

 

Miðfell í þoku. Erfitt getur reynst að ganga þaðan niður í mikilli bleytu.

 

Svaðaskarð, rétt fyrir neðan Miðfell.

 

Hornbjarg – Innstidalur – Hornbjargsviti 

Gönguleiðin liggur upp Innstadal. Gott er að fylgja stígnum neðan við Múla sem leiðir upp í Almenningaskarð (310m). Frá skarðinu er hægt að ganga áfram meðfram bjargbrúninni og að rót Kálfatinda. Þaðan er hægt að ganga yfir í Miðdal og niður. Einnig er hægt að ganga að Hornbjargsvita og þá er haldið áfram úr Almenningaskarði til austurs. Frá vitanum er hægt að ganga til baka um Kýrskarð, en þá er farið beint upp frá vitanum og upp í skarðið.


Úr Almenningaskarði, horft austur strandir