Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Gönguleiðir

Hörgsnes

Frá bílastæði á Hörgsnesi liggur stikuð hringleið að klettinum Hörgi og Gíslahelli. Fagurt útsýni yfir Breiðafjörð og oft má sjá seli í sólbaði á skerjunum í fjörunni.

Um 500 m, hálf – ein klukkustund. Hækkun 50 m.

Smiðjutóftin

Frá rótum gamla vegsins um Þingmannaheiði er hægt að komast að Smiðjutóftinni, friðlýstum fornminjum sem kenndar eru við Gest spaka Oddleifsson. Tóftin er um tvöhundruð metrum ofan þjóðvegar, vestan Þingmannaár.

Um 500 m, hálf – ein klukkustund. Hækkun 10 m.  

Þingmannaá og Nafnlausi fossinn

Frá útskoti fyrir bíla við rætur Þingmannaheiðar er stikuð hringleið er liggur meðfram bökkum Þingmannaár og aftur niður gamla veginn. Fagurt útsýni yfir árgilið og „Nafnlausa fossinn“, reisulegar vörður og snotur reynitré. Ofarlega á gönguleiðinni má virða fyrir sér haganlega skessukatla í klöppum við ána.

Um 500 m, hálf – ein klukkustund. Hækkun 200 m. 

Þingmannaheiði

Forn alfararleið sem liggur á milli Vatnsfjarðar og Vattarfjarðar og er skreytt fallegum vörðum, hluti heiðarinnar er innan friðlandsins. Illfær bílvegur var lagður um heiðina 1951 og hægt er að ganga eftir honum en hann fylgir hinni fornu leið og vörðuröðinni á köflum.

24 km, 6 klukkustundir. Hækkun 500 m. 

Lambagil

Stikuð hringleið sem liggur frá útskoti fyrir bíla við rætur Þingmannaheiðar að gömlu skógræktinni, inn með Vatnsdal að Lambagiljum og meðfram Vatnsdalsvatni yfir Mörkina. Fallegt útsýni yfir Vatnsdalsvatn og fjölbreytt landslag. Austan vatnsins á Lambagilseyrum er birki með því hæsta sem gerist á Vestfjörðum.

5 km, 3 klukkustundir. Hækkun 200 m. 

Vatnsdalsvatn og Vatnsdalur

Í Vatnsdal er víða hægt að ganga og velja sér leið eftir hæfi. Hringleið um vatnið er um 9 km en hægt er velja styttri göngur eftir áhuga og elju hvers og eins. Þar sem bílvegurinn endar við nyrðri hluta Vatnsdalsvatns eru um 3 km í dalbotninn og þar má virða fyrir sér fallega fossa. Vatnsdalsá og Útnorðursár sem koma niður í dalbotninn vestanverðan eru oftast erfiðar yfirferðar og geta verið hættulegar. Í Vatnsdal ættu gestir ekki að vera þegar göngur eru yfirstandandi á haustin svo þeir reki ekki fé í smölun af leið.

Smalahellan

Frá bílastæði í Vatnsdal þar sem vegurinn endar liggur stikuð leið að Smalahellunni. Það er gróðurlaus fláki í fjallinu þar sem uppsprettuvatn rennur niður og slípar bratta klöppina. Segir sagan að smalar á þessum slóðum teldust hæfir ef þeir gætu hlaupið yfir hála klöppina.

1,2 km, hálf- ein klukkustund, engin hækkun. 

Helluvatn

Frá Flókalundi liggur stikuð gönguleið að Helluvatni norðan Flókalundar. Fallegt útsýni er yfir Vatnsfjörð á uppleið. Þegar að vatninu er komið má lengja gönguna með því að fara hring um vatnið.

6 km (9 km ef einnig er gengið í kringum vatnið), 3-4 klst, hækkun 300 m.  

Pennugil

Frá bílastæði við neðri brú á Pennu er stikuð létt gönguleið meðfram árgilinu að fallegum fossi. Á leiðinni má virða fyrir sér skemmtilegar bergmyndanir í gljúfrinu.

2 km,  ein klukkustund, hækkun 50 m. 

Lónfell

Frá skilti sem markar upphaf gönguleiðarinnar á Dynjandisheiði liggur stikuð og grýtt leið á Lónfell en fjallið er stundum kallað skírnarfontur Íslands þar sem sumir telja líklegt að Hrafna-Flóki hafi þaðan gefið nafninu land. Gott útsýni um Breiðafjörð og sunnanvert Vestfjarðahálendið. Gróðurleysi og víðátta eru tilbreyting frá algrónu láglendinu. Einnig er hægt að ganga frá Helluskarði og er útsýni á göngunni þá nokkuð annað þar sem sér ofan í firði norðan megin.

5-6 km, 3 klukkustundir, hækkun 300 m.