Þingmannaheiði

Þingmannaheiði er forn þjóðleið frá Vatnsfirði, sem liggur upp með Þingmannaá og kemur niður í Vattarfirði. Nafnið á heiðinni er líklega tilkomið vegna þess að leið þingmanna á héraðsþing til forna, sem og á Alþingi á Þingvöllum, hefur legið um hana. Margar sögur eru til um hrakningar manna á þessum slóðum og á  Þingmannaheiði er að finna vörður sem hafa varðað leið ferðamanna  og reynst þeim vel í slæmu skyggni, margar hverjar listilega vel hlaðnar. Á heiðinni má einnig finna grettistak með rúnaristu. Enginn veit með vissu hvað ristan táknar en lengi var talið að hún væri fangamark Grettis sterka Ásmundarsonar sem var uppi á 10. og 11. öld. Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem var gefin út árið 1772 er sagt frá grettistakinu en þeir félagar töldu að hér væri um að ræða 100 ára gamalt fangamark. Steinninn er skammt frá veginum,  við raflínuna, á vatnaskilum Mjóafjarðar og Kjálkafjarðar.


Sagt var að Þingmannaheiði hafi verið 6 roðskóa heiði á vestfirsku, en roðskór hafa ekki verið endingargóðir á hrjóstrugri og gróðursnauðri heiðinni.  Hin forna leið á Þingmannaheiði er víða niðurgrafin og liggur með vörðunum, en bílvegurinn sem gerður var árið 1951 liggur á köflum við hlið hinar fornu leiðar.