Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Blautós og Innstavogsnes

Blautós og Innstavogsnes

Blautós og Innstavogsnes var friðlýst árið 1999 og var tilgangur friðlýsingarinnar að vernda landslag og lífríki svæðisins, en þar er að finna auðugt fuglalíf.

 

Staðsetning

Blautós er innan landamerkja Akraneskaupstaðar þar með taldar, leirur, fjörur og fitjar að stórstraumsflóðmörkum. Við Æðarodda er hesthúsabyggð og fylgja mörk friðlandsins grjótvörn allt að ós Flæðilækjar. Innstavogsnes er allt friðlýst ásamt skerjum, hólmum og fjörum að stórstraumsfjörumörkum á utanverðu nesinu og telst þar með Langasker og Innstavogshólmi. Í suðri markast svæðið frá Flæðilæk yfir í kverk við Mónes.

Stærð friðlýsta svæðisins er u.þ.b 295 ha.

Hvað er áhugavert?

Svæðið er auðugt af fuglalífi og er vel gróðri vaxið. Það býr yfir fallegu landslagi og athyglisverðum jarðmyndunum. Svæðið er töluvert vinsælt útivistarsvæði enda nálægt þéttbýlinu á Akranesi. 

Náttúruminjar

Friðlandið býr yfir fjölmörgum vistkerfaþjónustum. Þar má nefna t.d. að friðlandið er hentugt búsvæði fyrir villtar plöntur og dýr og viðheldur því líffræðilegum og erfðafræðilegum fjölbreytileika. Svæðið gegnir einnig mikilvægu upplýsingahlutverki en það býr yfir fallegum og fjölbreytilegum landslagsþáttum ásamt því að bjóða upp á afþreyingarmöguleika sem hægt er að tengja við græna ferðamennsku s.s. gönguferðir og hestaferðir. Breytileiki náttúrunnar gefur einnig tækifæri til menningarlegs og listræns innblásturs en svæðið hefur verið notað sem efnisviður í kvikmyndir, listmálun og þjóðsögur. Þar að auki þá hefur Blautós og Innstavogsnes vísinda- og menntunarlegt gildi en svæðið hefur verið nýtt bæði til vísindarannsókna og til kennslu í skólum. 

Margæsir hafast við í Blautósi og Innstavogsnesi á vorin og haustin og benda rannsóknir til þess að þeim sé að fjölga en árið 2008 voru taldir 1800 fuglar innan friðlandsins. Talið er að um fjórðungur margæsarstofnsins noti Blautós og Innstavogsnes ásamt friðlandinu í Grunnafirði á ferðum sínum á milli landa en margæsir sem stoppa á Íslandi verpa í Kanada og hafa síðan vetrarsetu á Írlandi. Æðarvarp er á svæðinu og er leyfilegt að nýta það á sama hátt og tíðkast hefur. 

Aðgengi

Friðlandið liggur rétt utan við Akraneskaupstað. Enginn vegur er um svæðið og ekki er eiginlegur merktur göngustígur um friðlandið. Þó er hægt að ganga eftir slóð í gegnum friðlandið en hún liggur meðfram ströndinni. 

 Bæjarstjórn Akraness er heimilt, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun að setja reglur varðandi nýtingu og umferð um svæðið, en almenningi er heimil för um það og dvöl á því í lögmætum tilgangi enda sé góðrar umgengni gætt. 

Hægt er að heimsækja friðlandið allan ársins hring.

 

Myndin er af friðlýsta svæðinu