Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Landslagsverndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð

Mynd: Hafþór Snjólfur HelgasonMynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Umhverfisstofnun, í samvinnu við landeigendur og heimastjórnir Borgarfjarðar og Fljótsdalshéraðs í Múlaþingi, hafa unnið að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir landslagsverndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð.

Svæðið var friðlýst þann 2. júlí 2021 og er í heildina um 55 km2 en friðlýsingin var kynnt með auglýsingu nr. 850/2021 í B deild Stjórnartíðinda.


Svæðið sem um ræðir er hluti Dyrfjallaeldstöðvarinnar og er staðsett ofan á þykkum basalthraunum. Innan svæðisins er að finna elstu hraun sem fundist hafa á Austfjörðum, um 13,5 milljón ára. Í hömrunum milli Stapavíkur og Selvogsnes er einnig að finna líparít bergganga.
 Stórurð er gömul skriða sem féll ofan í Urðardal sem einkennist af stórum björgum og stórgrýti. Innan um stórgrýtið eru litlar tjarnir og sléttir grasbalar. Stórgrýtið er úr móbergi sem á uppruna sinn í megineldstöðinni í Dyrfjöllum. Úr Stórurð er mikilfenglegt útsýni, meðal annars á dyrnar í Dyrfjöllum sem er stórbrotin sjón.

Héraðssandur er innan þess svæðis á Úthéraði sem skilgreint er sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Landslagsverndarsvæðið nær yfir hluta þess svæðis við ósa Selfljóts og tjarnir Ósbakka en talið er að um 40 tegundir fugla verpi þar.

Í 2. gr. friðlýsingar er fjallað um markmið hennar. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðminjar og landslag sem er sérstætt á landsvísu vegna fagurfræðilegs gildis. Þá er jafnframt markmið friðlýsingarinnar að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni svæðisins með verndun vistkerfa, þ.m.t. mikilvægt fuglasvæði norðan Selfljóts, og stýringu umferðar um svæðið.

Með vernduninni skal tryggt að jarðminjum, landslagsheild, lífríki og ásýnd svæðisins verði ekki spillt og einkenni þess og sérkenni varðveitt þar sem svæðið er sérstætt á landsvísu og skipar mikilvægan sess í vitund þjóðar. Hið verndaða svæði er varðveitt til náttúruupplifunar fyrir almenning og er kappkostað að innviðir geri sem flestum fært að njóta svæðisins án þess að skerða náttúruverðmæti og/eða upplifun annarra hópa. Stórurð verður varðveitt sem áfangastaður fyrir ferðamenn með áherslu á aðgengi. Í heild hefur svæðið hátt vísindalegt gildi og verður kappkostað að viðhalda gildi þess og gera vísindamönnum kleift að rannsaka náttúruminjar svæðisins.

Hér fyrir neðan eru hlekkir á verk- og tímaáætlun og samráðsáætlun vegna verkefnisins auk fundargerða. Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli og eru einstaklingar hvattir til að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.

Drög að áætluninni fór í sex vikna opið kynningarferli þann 24. janúar 2014 þar sem öllum var frjálst að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna hennar. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna var til og með 17. mars 2024.

Umhverfisstofnun vísaði áætluninni til staðfestingar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þann 23. maí 2024.

 Frekari upplýsingar veita Davíð Örvar Hansson (david.hansson@umhverfisstofnun.is) og Lára Björnsdóttir (lara.bjornsdottir@umhverfisstofnun.is). 

Samráðsáætlun

Verk- og tímaáætlun

Greinargerð - Dyrfjöll og Stórurð

Fundargerðir samstarfshóps

1. fundur samstarfshóps 14. nóvember 2022
2. fundur samstarfshóps 23. janúar 2023
3. fundur samstarfshóps 20. mars 2023
4. fundur samstarfshóp 28. mars 2023
5. fundur samstarfshóps 26. maí 2023

Íbúafundur í Hjaltalundi 17. apríl 2023

Á fundinum komu fram ýmsar spurningar og er þeim helstu svarað hér: