Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir fiskeldi Rifóss hf. í Kelduhverfi. Í tillögunni er lagt til að heimilt verði að framleiða árlega allt að 1000 tonn af eldisfiski, þar af allt að 400 tonn af bleikju og allt að 600 tonn af laxi á ári í sjókvíum í innri hlutanum í Lóni í Kelduhverfi. Einnig verður rekstraraðila heimilt að reka á staðnum seiðaeldi og sláturhús til eigin nota á eldisstað. Eldið í lóninu fer fram í ísöltu vatni en efst er þó ferskvatnsfilma, um 2-4 metrar að jafnaði. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu þann 29. apríl 2009 að stækkun stöðvarinnar væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Í tillögu Umhverfisstofnunar er brugðist við atriðum sem einkenna reksturinn sérstaklega og Umhverfisstofnun hefur talið að þurfi athugunar við. Þar má nefna að rekstraraðila mun samkvæmt tillögunni gert að hætta notkun á koparblandaði málningu strax á næsta ári. Þessi málning hefur verið notuð á kvíar til að verjast ásætum en Umhverfisstofnun telur að slík notkun ætti að vera óþörf þar sem finna má tækni til sama verks sem ekki felur í sér notkun mengandi efna. Kopar er á lista II í reglugerð um varnir gegn mengun vatns og er því ekki heimilt að losa koparefnasambönd í vatn án sérstakrar heimildar í starfsleyfi. Þá er í tillögunni ítarleg lýsing á meðhöndlun mengaðs botnsets og því lagaumhverfi sem þarf að hafa í huga vegna þess. Þetta kemur til af því að vegna eldisins hefur þurft að fjarlægja uppsafnaðan úrgang úr botni lónsins til að koma í veg fyrir áföll sem rotnun úrgangs (loftfirrt niðurbrot) gæti mögulega valdið.

Önnur ákvæði snúa almennt að rekstri kvíaeldis, seiðaeldis og sláturhúss. Farið er fram á að fráveita frá seiðaeldi sé gróflega hreinsuð og að frárennsli frá sláturhúsi sé hreinsað fyrir losun í viðtaka. Lágmarkshreinsun frá sláturhúsi er að nota sigti og fituskilju eða sambærilega tækni.

Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Norðurþings, Ketilsbraut 9, Húsavík, á tímabilinu 16. júní til 11. ágúst 2011.

Tillöguna má einnig nálgast á vefsíðu Umhverfisstofnunar, http://www.umhverfisstofnun.is/ , ásamt fylgigögnum.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 11. ágúst 2011. Umsagnir skal senda til Umhverfisstofnunar og skulu þær vera skriflegar.

Tengd skjöl