Stök frétt

Höfundur myndar: Andrés Skúlason

Rík hefð er fyrir því að sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar vinni á hálendissvæðum á Austurlandi. Í ár efldist starf Sjálfboðaliða UST til muna í þessum landshluta þegar sjálfboðaliðahópar voru sendir á tvö friðlýst svæði sem eru í umsjón sveitafélaga á Austurlandi. Er þar annars vegar um að ræða Teigarhorn í umsjá Djúpavogshrepps og Hólmanes í umsjá Fjarðarbyggðar.

Teigarhorn

Teigarhorn er náttúruvætti og liggur í Berufirði. Markmið friðlýsingar Teigarhorns er að viðhalda og varðveita náttúrulegt ástand svæðisins, ekki síst jarðlögin sem rík eru af geislasteinum, en þar er að finna einn stærsta fundarstað geislasteina (zeólíta) í heimi. Svæðið hefur aukist í vinsældum á síðustu árum og óskaði Djúpavogshreppur eftir sjálfboðaliðum til að vinna að viðhaldi stíga. Smíðuðu þau tröppur og gerðu stíginn greiðfærari. 

Stígagerð er mikilvæg leið til náttúruverndar, góðir stígar auka ánægju ferðamanna á sama tíma og þeir stýra umferð fólks frá hættum og viðkvæmum gróðri eða jarðmyndunum. Þar sem ferðamannastraumur er að aukast við Teigarhorn taldist nauðsynlegt að laga stíga þannig að svæðið myndi ekki raskast á komandi tíð. Slík fyrirbyggjandi vinna er ómetanleg og fordæmisgefandi enda oft erfiðara að laga svæði eftir á, þegar umferð er orðin mikil og átroðningur hefur hlotist af. Með áframhaldandi viðhaldi og vinnu við stíga á Teigarhorni er vonandi að sérstæð jarðlög svæðisins varðveitist í takt við aukinn fjölda þeirra sem vilja bera það augum.

Hólmanes

Hólmanes er friðlýst sem fólkvangur norðanmegin en friðland sunnanmegin. Hólmanes er vinsælt útivistarsvæði, staðsett milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Á nesinu vex fjölbreyttur gróður og er þar mikið fuglalíf allt árið um kring. 

Sveitafélagið Fjarðarbyggð óskaði eftir sjálfboðaliðum til að leggja göngustíg sem gert var ráð fyrir í deiliskipulagi Hólmaness. Markmið stígagerðarinnar var að bæta aðstæður til gönguferða og bjóða upp á fjölbreyttar gönguleiðir um svæðið. Verkefnið sem lagt var upp með að frumkvæði sveitafélagsins og verklýsing þess er mjög í takt við almennt verklag á friðlýstum svæðum. Var haft að leiðarljósi að tryggja öryggi göngufólks, að sem minnst spjöll yrðu á gróðri og jarðmyndunum, að stígarnir féllu vel inn í landslagið og að notað yrði efni á staðnum eftir bestu getu. Vegna erfiðs aðgengis og viðkvæms gróðurs á svæðinu var ekki hægt að koma vélum að. Þess vegna þurfti að nota einföld verkfæri og handaflið eitt við vinnunna. 

Sjálfboðaliðar UST hafa það sérkenni að vera þjálfaðir í göngustígagerð. Starfa þau ávallt með það að markmiði að valda sem minnstu raski enda vinna þau iðulega innan friðlýstra svæða eða á einstökum náttúruperlum Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem sjálfboðaliðar UST vinna við náttúruvættið Teigarhorn og í annað sinn sem þau vinna við Hólmanes en áður unnu þau þar að göngustígagerð árið 2011.

Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar fagna þessu aukna samstarfi við umsjónaraðila friðlýstra svæða á Austurlandi og þakka landverði á Teigarhorni, Fjarðarbyggð og Djúpavogshreppi fyrir samstarfið. 

Tenglar