Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Malbikunarstöðina Höfða hf. Tillagan er um margt sambærileg og eldra starfsleyfi en þó eru að finna nýmæli í henni, svo sem losunarmörk fyrir köfnunarefni (NOX reiknað sem NO2), kolmónoxíð og PAH-efni. Í starfsleyfinu koma einnig fram kröfur sem snúa að bikbirgðastöðinni sem rekin er í tengslum við malbikunarstöðina norðan við Sævarhöfða 6-10. 

Starfsleyfi eru bundin ákveðnum staðsetningum samkvæmt lögum og reglugerðum. Stofnunin hafði farið yfir gögn varðandi aðalskipulag Grafarvogs og skjalið „Borgin við Sundin“ og af þeim gögnum vaknaði sú spurning hversu lengi gera mætti ráð fyrir því að rekstur stöðvarinnar samræmdist skipulagi. Þegar málið kom til afgreiðslu hjá Umhverfisstofnun ákvað stofnunin því að leita álits hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um þann gildistíma sem mælt sé með af þess hálfu í sambandi við veitingu starfsleyfisins á núverandi staðsetningu. 

Umsögn barst og var hún færð í gerðabók umhverfis- og skipulagsráðs 14. janúar 2015. Í umsögninni kemur fram að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er mörkuð stefna um að landfrek og mengandi iðnaðarstarfsemi skuli víkja úr Ártúnshöfðanum. Í kaflanum „Borgin við Sundin“ sé gert ráð fyrir að á svæðum í Ártúnshöfða og beggja vegna við Elliðaárvog fari að rísa blönduð byggð á árunum 2016-2020. Í umsögninni var í framhaldi af þessu lagt til að nýtt starfsleyfi verði í mesta lagi veitt til 1. febrúar 2019, enda sé starfsemin þegar í ósamræmi við áætlaða landnotkun. Einnig kom fram að kappkostað verði að finna nýjan stað fyrir reksturinn „óháð viðkomandi ártali“. 

Umhverfisstofnun hefur í framhaldi af þessu ákveðið að í tillögunni verði gert ráð fyrir að gildistími starfsleyfis stöðvarinnar verði til 1. febrúar 2019. Starfsleyfistillagan verður í auglýsingu á tímabilinu 13. apríl til 8. júní 2015 og frestur til að gera athugasemdir við hana er til 8. júní 2015.

Tengd gögn