Stök frétt

Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013,  31. gr. segir: „ Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum.“
Það sem átt er við með náttúruspjöllum er skilgreint í reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands nr. 528/2005, í 3.gr. þar sem segir: „Náttúruspjöll: Spjöll á gróðri, dýralífi, jarðvegi, jarðmyndunum og landslagi hvort sem um varanlegan eða tímabundinn skaða er að ræða. Myndun slóða og hjólfara hvort sem er á grónu landi, þar með töldu mosavöxnu landi, eða ógrónu svo sem melum.“

Allt of algengt er að ekið er utan vega á snævi þakinni jörð þegar jörð er ekki nægilega frosin og snjóþekja ekki traust. Í lögum um náttúruvernd, 6. gr. er fjallað um almenna aðgæsluskyldu, þar segir: „Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif sem áhrif hafa á náttúruna skal gera allt sem með sanngirni má ætlast til svo komið verði í veg fyrir náttúruspjöll.“ Það verður að vera alveg ljóst að þegar ekið er utan vega á snævi þakinni jörð að það skilji ekki eftir sig slóða eða hjólför. Umferð un hálendi Íslands yfir vetrartímann hefur stór aukist á örfáum árum samhliða aukningu ferðamanna til landsins. Svæði í og við friðland að Fjallabaki er eitt af þeim svæðum sem eru undir miklu álagi vegan bílaumferðar. Reglu um aðgæsluskyldu er ekki alltaf framfylgt sem gerir það að verkum að svæðið lætur mikið á sjá eins og meðfylgjandi myndir sýna. Mesta hættan á náttúruspjöllum vegna aksturs utan vega á snævi þakinni jörð er á vorin og haustin. 

Ólöglegt er að aka utan vega á snævi þakkinni jörð ef það veldur náttúruspjöllum. Ganga verður úr skugga um það að  jörð er frosin og með nægilega þykkum og traustum snjó svo tryggt sé að náttúran verði ekki fyrir skaða. Ef einhver vafi leikur á hvort umræddar aðstæður til aksturs séu til staðar, skal náttúran ávallt njóta vafans. Umhverfisstofnun biðlar því til einstaklinga og ferðaþjónustuaðila að huga að almennri aðgæsluskyldu þegar ferðast er um náttúru Íslands og meta aðstæður hverju sinni þegar ekið er á snjó utan vega.