Stök frétt

Íslandi ber að skila skýrslu til Evrópusambandsins um hvaða stefnur og aðgerðir hafa verið samþykktar eða áætlaðar sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum, ásamt því að framreikna út frá þeim losun fram til ársins 2035. Umhverfisstofnun hefur nú í fyrsta sinn skilað slíkri skýrslu en hún mun framvegis verða lykilverkfæri í því að meta jafnóðum hverju fyrirhugaðar aðgerðir skila í samdrætti í losun. Upplýsingunum í skýrslunni verður einnig skilað til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í tvíæringsskýrslu (Biennial Report) í lok árs.

Upplýsingum um stefnur og aðgerðir í loftslagsmálum var safnað í samráði við hagaðila úr ýmsum áttum en auk þess var stuðst við áætlanir ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í loftslagsmálum. Í skýrslunni eru framreiknaðar þær aðgerðir sem uppfylla þau skilyrði að vera nægjanlega útfærðar og sem búið er að taka ákvörðun um að fara í. Jafnframt er gerð grein fyrir öðrum stefnum og aðgerðum sem eru væntanlegar en er ekki búið að tímasetja eða útfæra nánar. Gera má ráð fyrir að þegar þeim verður hrint í framkvæmd verði samdráttur í losun meiri en gert er ráð fyrir í þessari skýrslu.

Áætlaður samdráttur í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda dreifist misjafnlega á undirliggjandi geira. Áætlað er að losun frá orku dragist saman um 23%, losun frá iðnaði (fyrir utan stóriðju) aukist um 17%, losun frá landbúnaði aukist um 5% og losun frá úrgangi dragist saman um 28% til 2030 m.v. 2005.

Skýrslan bregður upp sviðsmynd sem sýnir mögulegan samdrátt í losun árið 2035 út frá þeim aðgerðum sem þegar hafa verið tölusettar og kostnaðarmetnar. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var hluti af 6 af 34 aðgerðum metinn til samdráttar í losun miðað við þessar forsendur.  Framreikningar sýna að það muni nást 19% samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 miðað við árið 2005 og 28% samdráttur muni nást til ársins 2035 miðað við árið 2005.

Þær aðgerðir sem gert er ráð fyrir að skili mestum árangri samkvæmt þessum framreikningum snúa að rafbílavæðingu. Við þá útreikninga var m.a byggt á spá Orkuveitu Reykjavíkur um rafbílavæðingu frá 2018 en spáin var gerð áður en gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda kom út. Áætlaðan ávinning af aðgerðum sem er að finna í aðgerðaáætlun var einungis hægt að framreikna að takmörkuðu leyti.

Umhverfisstofnun ber að skila skýrslu um áætlaðan samdrátt annað hvert ár en þetta er í fyrsta sinn sem umrædd aðferðafræði er notuð. Ljóst er að skýrsla um framreiknaða losun er gagnlegt tæki til að meta árangur af stefnum og aðgerðum, því með því að styðjast við hana er hægt að leggja betra mat á til hvaða aðgerða er best að grípa, hve hratt breytingar þurfa að eiga sér stað og jafnframt hvaða aðgerðir skili árangri. Hafa ber í huga að byggt er á bestu fáanlegu upplýsingum sem voru fyrirliggjandi þegar skýrslan var gerð en mikil vinna er fram undan að bæta mat á aðgerðum. Sú vinna er þegar hafin.

Lesið meira á: https://ust.is/einstaklingar/loftslagsbreytingar/losun-islands