Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir handspritti undanfarnar vikur vegna kórónaveirufaraldursins og því vaknaði sú spurning hvort hægt sé að anna henni meðan faraldurinn stendur yfir. Af þessu tilefni gerði Umhverfisstofnunar athugun á framboði og framleiðslugetu á sótthreinsivörum í landinu, þar á meðal sótthreinsispritti, sem leiddi í ljós að birgðastaða sótthreinsiefna og hráefna til frekari framleiðslu á þeim virðist vera góð sem stendur og eitthvað fram í tímann.

Mikilvægt er að átta sig á því að þótt að spritt sé virkt til þess að eyða smitefni kórónaveirunnar þá fylgja notkun þess líka ókostir. Þannig veldur mikil notkun sótthreinsispritts húðvandamálum eins og handþurrki og sáramyndun eða jafnvel útbrotum. Sömuleiðis getur sótthreinsispritt valdið skemmdum á hlutum eins og raftækjum, t.d. tölvuskjáum og snertiskjáum, og húsbúnaði eða flötum innandyra sem eru með viðkvæmu yfirborði.

Ýmsir aðrir góðir kostir en notkun á spritti bjóðast til að eyða smiti kórónaveirunnar af yfirborðsflötum. Þannig dugar allt eins vel að nota heitt vatn og sápu eða önnur hreinsiefni í stað sótthreinsispritts til að fjarlægja smitefni COVID-19 á árangursríkan hátt. Að auki bjóðast sótthreinsiefni sem ekki innihalda spritt og eru síður til þess fallin að valda skemmdum á yfirborðsflötum.

Leggjum áherslu á að nota handþvott með sápu til að verja okkur fyrir smithættu af völdum kórónaveirunnar og heitt vatn með sápu eða öðrum hreinsiefnum til þess að fjarlægja smitefni af yfirborðsflötum á heimilum og vinnustöðum.

Kynntu þér málið nánar á vef landlæknis.