Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Eitt af verkefnum Umhverfisstofnunar er  innleiðing laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Innleiðingin er gerð í viðtæku samráði við hina ýmsu aðila. Lögin hafa það að markmiði að stuðla að verndun vatns og vistkerfa þess. Ein af kröfum laganna er að meta hvort vatnshlot teljist manngert eða mikið breytt. Þau vatnshlot sem falla í þennan hóp skera sig frá öðrum vatnshlotum vegna þess umtalsverða álags sem er til staðar, þá einkum vegna þeirra mannlegu vatnsformfræðilegu breytinga sem á þeim hafa orðið. Sem dæmi um umtalsvert álag mætti nefna vatnsaflsvirkjanir, vegagerð, hafnargerð, þverun fjarða o.s.frv. Þar sem álag er til staðar getur vistfræðilegt ástand verið ólíkt því sem sést við náttúrulegar aðstæður, þar af leiðandi er mat á þeim ólíkt.

Vinnuhópur með fulltrúum frá Orkustofnun, Veðurstofu Íslands, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt Umhverfisstofnun vann annars vegar að mótun aðferða til þess að meta manngerð og mikið breytt vatnshlot með vísan til leiðbeininga Evrópusambandsins og annarra gagna sem unnin hafa verið í þessu skyni, og hins vegar að leggja fram fyrstu tillögu að lista yfir manngerð og mikið breytt vatnshlot á Íslandi. Á þessu frumstigi var ákveðið að einskorða vinnuna við áhrif af vatnsaflsvirkjunum, en slíkar framkvæmdir hafa umtalsverð áhrif á vatnshlot.

Skýrsla vinnuhópsins er fyrsta skref við skilgreiningu á manngerðum og mikið breyttum vatnshlotum á Íslandi og innheldur lýsingar á aðferðum til að meta vatnsformfræðilegar breytingar á vatnshlotum á virkjanasvæðum. Auk þess inniheldur skýrslan lista yfir vatnshlot sem hafa orðið fyrir umtalsverðum vatnsformfræðilegum breytingum og gætu talist manngerð eða mikið breytt. Næsta skref í tilnefningu á manngerðum og mikið breyttum vatnshlotum er að greina hvort vatnshlotin á listanum nái góðu vistfræðilegu ástandi. Þau vatnshlot sem ná góðu vistfræðilegu ástandi verða ekki skilgreind sem mikið breytt vatnshlot.

Hér með gefst tækifæri til að koma með ábendingar eða athugasemdir við skýrsluna sem gæti nýst við gerð vatnaáætlunar sem mun taka gildi árið 2022.
Ábendingar og athugasemdir sendist á ust@ust.is „Stjórn vatnamála“ eða til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frestur til að senda inn ábendingar og athugasemdir er til 15. ágúst. 

  • Skýrsluna má sjá hér