Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í dag, 25. Júní, undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ sem náttúruvætti.

Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Jafnframt er svæðið vinsælt útivistarsvæði. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir, eldhraun, eldstöð og hraunhella sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að varðveita náttúrulegt gróður- og dýralíf svæðisins. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðinni og jarðmyndunum svæðisins. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að auðvelda almenningi aðgengi og kynni af náttúruminjum þar sem svæðið er aðgengilegt og tilvalið til fræðslu og útivistar vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið.

Undirritunin fór fram á svæðinu að viðstöddum fulltrúum Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, umhverfis- og auðlindaráðuneytis auk fleiri gesta. Að lokinni undirritun var boðið upp á fræðslugöngu um svæðið sem var leidd af Snæbirni Guðmundssyni jarðfræðingi.

Ljósmyndari Ingibjörg Marta Bjarnadóttir