Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í dag var undirrituð friðlýsing Kerlingarfjalla og nærliggjandi svæða, alls um 344 km2. Friðlýsingunni var fagnað við hálendismiðstöðina í  Ásgarði í Kerlingarfjöllum.

Kerlingarfjöll eru í hópi helstu náttúruperla landsins, vinsælt útivistarsvæði með mikið verndargildi. Áform um friðlýsingu hófust árið 2016 en sveitarfélagið Hrunamannahreppur hafði frumkvæði að samstarfi við undirbúning hennar. Margir hafa komið að verkefninu auk sveitarfélagsins s.s. Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Kerlingarfjallavinir. Vill Umhverfisstofnun koma á framfæri þakklæti til samstarfshóps um friðlýsinguna fyrir frábært samstarf en friðlýsta svæðið verður í umsjá Umhverfisstofnunar sem sinna mun landvörslu, viðhaldi og rekstri á svæðinu til framtíðar.

“Við erum mjög glöð á þessum degi, enda hefur með friðlýsingu svæðisins verið stigið tímamótaskref, landi og þjóð til heilla,” segir Hildur Vésteinsdóttir, teymisstjóri friðlýsinga og áætlana hjá Umhverfisstofnun.

Kerlingarfjöll draga nafn sitt af móbergsdranga sem rís upp úr líparítskriðu sunnan í Tindi í vestanverðum fjöllunum. Fjallaklasinn samanstendur af litríkum líparíttindum og stórbrotnu landslagi. Svæðið er megineldstöð og eitt af öflugri háhitasvæðum landsins. Í Hveradölum, einu helsta aðdráttarafli Kerlingarfjalla, hvína og sjóða fjölbreyttir og litríkir gufu- og leirhverir. Í kringum marga þeirra vex sérstæður og viðkvæmur gróður. Á svæðinu eru fjölmargar gönguleiðir, m.a. að jarðhitasvæðunum.

Sjá nánar um svæðið hér.

Svandís Svavarsdóttir, settur umhverfis- og auðlindaráðherra í málinu, undirritaði friðlýsinguna, en nokkur fjöldi fólks var viðstaddur tímamótin eins og sjá má á myndinni.