Stök frétt

Það er mikilvægt að meta þörfina á því að úða garðinn, ekki láta úða umhugsunarlaust.

Nú er vor í lofti og margir garðeigendur spyrja sig ef til vill hvort þörf sé á að láta „eitra“ garðinn í sumar? Til dæmis til að eyða illgresi eða varna framgangi óæskilegra skordýra og sveppasjúkdóma í garðinum. 

Mikilvægt að meta þörfina fyrst

Fyrsta skrefið ætti alltaf að vera að meta þörfina á því að úða. Sjást ummerki eftir skaðvalda? Sjást skaðvaldarnir sjálfir? Tímasetning úðunar skiptir öllu máli upp á árangur!

  • Ef skoðun leiðir í ljós skemmdir á gróðri en lítið sést af skaðvöldum er orðið of seint að úða.
  • Ef engin ummerki sjást eftir skaðvalda og heldur ekki skaðvaldarnir sjálfir er ekki tímabært að úða.

Mikilvægt er að fylgjast vel með og grípa til aðgerða á réttum tíma eða sleppa því að úða ef engir skaðvaldar eða ummerki þeirra sjást í garðinum.

Fyrirbyggjandi úðun skilar oft ekki öðrum árangri en að menga garðinn.

Einungis fagmenn, sem hafa starfsleyfi til úðunar garða og geta framvísað gildu notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum frá Umhverfisstofnun, mega taka að sér að úða garða í atvinnuskyni.

 

Áhrif á aðrar lífverur

Mikilvægt er að hafa í huga að skordýraeitur og illgresiseyðar drepa oft fleiri tegundir heldur en markmiðið er að eyða. Mörg skordýr eru gagnleg lífríki garðsins og eru mikilvæg fæða fyrir garðafugla. Lífríki garðsins er samofið og með úðun erum við að hafa áhrif á gang náttúrunnar í öllum garðinum, ekki einungis þá skaðvalda eða illgresi sem úðunin beinist gegn.

Garðaúðun getur líka haft áhrif mannfólk og gæludýr. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um notkun skordýraeiturs og illgresiseyða. Gætið að því að börn leiki sér ekki á úðaða svæðinu fyrr en öruggt er að svæðið sé ekki mengað og komið í veg fyrir aðgengi gæludýra að svæðinu. Athugið að ef gróður í návígi við matjurtir er úðaður getur úði borist á matjurtirnar. Þá þarf að líða ákveðinn tími frá því að úðað er og þangað til óhætt er að neyta matjurtanna.

Mikilvægt er að úða einungis þær tegundir sem bera meindýr eða sjúkdóma til þess að raska sem minnst vistkerfi garðsins. Sumir plöntuskaðvaldar lifa inni í plöntuhlutum þar sem skordýraeitur eða sveppaeyðir nær illa til þeirra og því ekki víst að úðun beri tilætlaðan árangur.

Hvernig er hægt að draga úr notkun skordýraeiturs og illgresiseyða í garðinum?

  • Skipulagning svæða: Velja tegundir með tilliti til þess hvað hentar svæðinu og hversu vel tegundirnar þola skaðvalda
  • Sláttur: Velja réttan tímapunkt sláttar til útrýmingar illgresis og meta þörf á endurtekningu
  • Líffræðilegar varnir: Takmarkaðir möguleikar utandyra, en hafa gefið góðan árangur í gróðurhúsum
  • Notkun hættuminni efna: Skoða hvort nauðsynlegt sé að nota efni eða hvort hægt sé að velja hættuminni efni
  • Aðrar aðferðir:
    • Hefðbundin beðahreinsun: Hreinsun með handafli eða þar til bærum verkfærum
    • Yfirlagsefni: Til dæmis trjákurl, sandur, möl, gras, molta eða ýmiskonar dúkar
    • Stinga upp plöntur: Hentar þegar um er að ræða stakar plöntur
    • Beit: Getur hindrað vöxt og dreifingu plantna
    • Hitameðhöndlun: Til dæmis svíðing með gasbrennara eða notkun á heitu vatni gegn illgresi í innkeyrslum, stéttum og hellulögnum
    • Herfing: Á opnum svæðum, bílastæðum og stígum með malaryfirborði.
 

Reglur ef nauðsynlega þarf að úða

  • Við notkun á eiturefnum í garðinum þarf ávallt að hafa í huga að sem minnst röskun verði á lífríki garðsins og að úðinn berist ekki annað en honum er ætlað
  • Tilkynna skal umráðendum aðliggjandi lóða um fyrirhugaða úðun
  • Við framkvæmd úðunar garða þarf að passa að nálægir gluggar séu lokaðir, þvottur sé ekki á snúrum og gott að fjarægja lausa hluti svo úði berist ekki á þá
  • Taka skal tillit til nágrannagarða og umferðar fólks um gangstéttir
  • Best er að reyna að úða þegar veður er kyrrt svo að sem minnstur úði berist út fyrir svæðið sem meðhöndla á, til dæmis á matjurtir eða leiktæki barna
  • Áður en úðun garða hefst þarf að setja upp varnaðarmiða á áberandi staði við alla innganga að því svæði sem á að úða

Tengt efni: