Stök frétt

Mynd: Inga Dóra Hrólfsdóttir

Umhverfis- orku og loftslagsráðherra hefur verið á faraldsfæti undanfarið og staðfest stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði.

Varmárósar

Þann 1. júlí var stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Varmárósa í Mosfellsbæ staðfest. Varmárósar hafa verið friðlýstir frá árinu 1980 en verndargildi svæðisins felst í hinum líffræðilega mikilvægu sjávarfitjum þar sem sérstætt gróðurfar þrífst ásamt því sem svæðið er mikilvægt vistkerfi fyrir fugla.

Mynd: Ingibjörg Marta Bjarnadóttir

Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfestir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Varmárósa.

Kaldárhraun og Gjárnar og Litlu-Borgir

2. júlí voru áætlanir fyrir Kaldárhraun og Gjárnar ásamt áætlun fyrir Litlu-Borgir staðfestar í Hafnarfirði.

Kaldárhraun og Gjárnar voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009 með það að markmiði að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli. 

Markmið með friðlýsingu Litlu-Borga, sem einnig voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009, er að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en borgirnar og nágrenni þeirra hafa um langan tíma verið vinsælt útivistarsvæði.

Flatey

Þann 8. júlí var svo haldið í Breiðafjörð og stjórnunar- og verndaráætlun friðlands í Flatey staðfest. Friðland í Flatey hefur verið verndað frá 1975 en friðlandið var stækkað árið 2021. 

Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir

Fjölskrúðugt fuglalíf einkennir Flatey.

Líffræðileg fjölbreytni friðlands í Flatey er mikil og er þar að finna fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði, miklum fjörum og takmörkuðu aðgengi rándýra að svæðinu. Í Flatey hefur um langt skeið verið náið samspil manns og náttúru þar sem nýting náttúruauðlinda hefur farið fram með sjálfbærni að leiðarljósi. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í að svæðið er búsvæði og varpsvæði mikilvægra fuglastofna. Þar verpa fuglategundir sem eru sjaldgæfar á landsvísu, á válista og ábyrgðartegundir Íslendinga og til dæmis má þar nefna þórshana, kríu, teistu, lunda og toppskarf ásamt því að þar er æðarvarp. Auk varpfugla hafa margar tegundir viðkomu í Flatey vor og haust, til dæmis margæs og rauðbrystingur.

Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir

Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir

Áætlanirnar munu nú verða leiðarljós starfsmanna Umhverfisstofnunar við vernd og rekstur náttúruverndarsvæðanna sem þær gilda fyrir, líkt og markmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlana endurspeglar. Áætlanirnar eru jafnframt lykill af samstarfi milli ólíkra hagsmunaaðila sem eru þó sammála um mikilvægi þess að náttúran njóti verndar um ókomna framtíð.

Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir

Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir