Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Úthlutunar reglur

Úthlutunarreglur hreindýraveiðileyfa

                                                                           1. gr.

Gildissvið og markmið

Reglur þessar gilda um úthlutun hreindýraveiðileyfa sem Umhverfisstofnun annast, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og eru settar í samræmi við 5. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða með síðari breytingum.

Markmið reglnanna er að tryggja að úthlutun hreindýraveiðileyfa sé gegnsæ.

2. gr.

Umsóknir og umsóknarfrestur

Aðeins er tekið við umsóknum um hreindýraveiðileyfi rafrænt á þjónustugátt Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun er heimilt að vísa frá umsóknum sem berast með tölvupósti, bréfpósti í gegnum síma eða á annan hátt en í gegnum þjónustugátt.

Sá einn getur fengið leyfi til þess að veiða hreindýr sem hefur veiðikort og heimild lögreglu til þess að nota skotvopn af réttri stærð, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða.

Í aðalvali umsóknar skal velja hvort sótt sé um leyfi til að veiða kú eða tarf og tilgreina á hvaða svæði sótt erum leyfi. Öllum umsækjendum er heimilt að sækja um varaval og eitt aukadýr sem getur einnig gilt sem varaval. Í varavali skal sækja um annað kyn og annað svæði eða annað kyn og annað svæði en í aðalvali.

Umhverfisstofnun er heimilt að vísa frá umsóknum aðila sem uppfylla ekki skilyrði til að fá leyfi til að veiða hreindýra þegar útdráttur fer fram. Til að umsókn teljist gild þarf umsækjandi að vera handhafi veiðikorts og hafa skotvopnaleyfi með B-réttindum eða sambærileg réttindi. Veiðikort þarf þó ekki að vera í gildi þegar sótt er um leyfi eða þegar útdráttur fer fram. Það er á ábyrgð umsækjanda að skila upplýsingum á þjónustugátt um að hann hafi heimild lögreglu til að nota skotvopn af réttri stærð (B-réttindi). 

Umsóknarfrestur er auglýstur árlega en skal að jafnaði ekki vera síðar en 15. febrúar ár hvert. Að umsóknarfresti liðnum er farið yfir umsóknir og ógildum umsóknum vísað frá.

3. gr.

Útdráttur og úthlutun veiðileyfa

Þegar umsóknir eru fleiri en þau leyfi sem úthlutað verður í samræmi við hreindýrakvóta skal dregið úr innsendum og gildum umsóknum.

Að umsóknarfresti liðnum fá allar gildar umsóknir slembitölu á bilinu 1 – 100.000. Úthlutun slembitalna á umsóknir er framkvæmd af starfsmanni Umhverfisstofnunar að viðstöddum sviðsstjóra viðkomandi sviðs og lögfræðingi. Slembitölurnar ráða því hvar í röð umsókn lendir. Í aðalvali fær lægsta slembitalan á hverju svæði fyrir sig fyrsta dýr.

Útdráttur skal haldinn á opnum fundi og fer þannig fram að umsóknum er raðað eftir slembitölum og í hverjum flokki fyrir sig, þ.e. eftir svæði og kyni.

Séu umsóknir fleiri en kvóti í tilteknum flokki lenda þær umsóknir sem ekki fá úthlutað leyfi á biðlista og ræður slembitala því hvar á biðlista umsókn lendir. Þannig lendir sú umsókn sem hefur lægstu slembitöluna fremst á biðlista.

Séu umsóknir færri en dýr í boði í tilteknum flokki kemur til skoðunar varaval umsækjenda sbr. 4. gr. Úthlutun á varavali umsókna fer fram eftir útdrátt hreindýraveiðileyfa og þar af leiðandi ekki á opnum fundi.

Að útdrætti loknum skal Umhverfisstofnun senda öllum umsækjendum upplýsingar um niðurstöður umsóknarinnar og eftir atvikum stöðu umsóknar á biðlista með tölvupósti og/eða á Þjónustugátt.

4. gr.

Varaval og aukaval

Klárist biðlisti á tilteknu svæði koma úthlutanir á grundvelli varavals til skoðunar. Varaumsóknum skal úthlutað að fimmskiptalista tæmdum og ræður slembitala varaumsókna í öfugri röð við aðalumsókn þannig að hæsta slembitalan fær fyrsta dýr og svo í lækkandi röð.

Tæmist listi varaumsókna verður hreindýraveiðileyfum úthlutað af aukavali eftir sömu reglum og varaumsóknum. Að auki geta þeir sem velja dýr í aukavali fengið úthlutað aukadýri eftir því vali ef búið er að bjóða öllum umsækjendum sem ekki hafa fengið hreindýraveiðileyfi úthlutað.

5. gr.

Úthlutun leyfa sem skilað er inn

Hyggist umsækjandi ekki nýta veiðileyfi sem hann hefur greitt að fullu skal hann skila því inn til Umhverfisstofnunar og skal stofnunin leitast við að úthluta því til fyrsta umsækjanda á biðlista eða eftir atvikum á fimmskiptalista til 5. september vegna tarfa og 10. september vegna kúa en eftir þann tíma fer eftir 3. mgr.

Skili umsækjandi veiðileyfi sínu skal Umhverfisstofnun endurgreiða sem nemur ¾ hlutum gjaldsins takist stofnuninni að endurselja leyfið. Mæli sérstakar aðstæður með því er stofnuninni þó heimilt að endurgreiða gjaldið að fullu jafnvel þótt ekki takist að endurselja það.

Eftir 5. september vegna tarfa og 10. september vegna kúa er Umhverfisstofnun heimilt að úthluta veiðileyfum sem skilað hefur verið inn til umsækjenda sem hafa tilkynnt stofnuninni að þeir séu reiðubúnir að kaupa hreindýraveiðileyfi allt til loka veiðitímabilsins. Unnt er að senda slíka tilkynningu á Þjónustugátt stofnunarinnar frá og með 1. júní ár hvert. Umsækjendur sem tilkynna áhuga sinn á að kaupa hreindýraveiðileyfi fram að lokadegi veiðitímabils er raðað upp samkvæmt þeirri slembitölu sem þeir fengu við fyrstu úthlutun.

6. gr.

Fimmskiptaregla

Hafi einstaklingur ekki fengið veiðileyfi úthlutað í síðustu fimm skipti sem sótt hefur verið um og fær ekki úthlutun með sjöttu umsókn sinni er umsókn hans tekin fram fyrir biðlista aðalvals í þeim flokki sem sótt var um.

Listi yfir þá sem ekki hafa fengið veiðileyfi úthlutað síðustu 5 umsóknir frá árinu 2003 og sækja um er fenginn úr gagnagrunni og skal fjöldi einstaklinga á listanum tilkynntur fyrir útdrátt.

Allar gildar umsóknir teljast með í fimmskiptareglunni, óháð því hvort umsækjandi hafi sótt um árlega eða með hléum frá 2003. 

Ef fleiri en einn umsækjandi eru á fimmskiptalista í sama flokki ræður fjöldi ára sem umsækjandi hefur ekki fengið veiðileyfi úthlutað röðinni. Sé árafjöldi á fimmskiptalista jafn ræður slembitala röðinni.

Þiggi umsækjandi boð um úthlutun á veiðitímabili fellur hann af biðlista. Umhverfisstofnun er heimilt að bjóða umsækjanda að haldast á listanum takist honum ekki að fella dýr þrátt fyrir að hafa fengið leyfi úthlutað.