Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Minkar lög og reglur

Nýjar veiðiaðferðir

Þessi aðferð er ættuð frá Finnlandi. Þar er henni beitt ásamt gildruveiðum í sænsk-finnska skerjagarðinum til þess að halda ákveðnum eyjum lausum við mink. Aðferðin felst í því að einn hundur er látinn leita að minknum. Þegar minkurinn er fundinn er hundurinn tekinn frá og veiðimaðurinn kemur að með laufblásara og blæs inn í grjóturðina. Skiptir þá engum togum að minkurinn skýst út og er skotinn. Kosturinn við þessa aðferð er sá að fyrr gengur að vinna minkinn (enginn mokstur) og náttúran verður fyrir minni spjöllum. (áður var notað dýnamít og bensín sem nú er bannað).

Aðferðin hefur verið reynd hér á Íslandi með góðum árangri sem felst í því að þegar menn fara að leita að mink með græjuna þá lætur hann sig hverfa af svæðinu!! Þeir fáu minkar sem hafa fundist hafa sýnt sömu viðbrögð og finnskir frændur þeirra en þó virðist sem að blásturinn verði að lenda á þeim eða a.m.k. nálægt þeim. Því gengur þetta vel í grunnum grjóturðum(við sjávarsíðuna og í grjótholtum) en síður í moldarárbökkum eða hrauni. Tilraunir og þróun þessarar aðferðar mun halda áfram næstu þrjú ár a.m.k.

Læðuhland

Minkurinn hefur næmt lyktarskyn. Staðfest hefur verið með tilraunum að karldýrið getur aflað sér upplýsinga um æxlunarástand kvendýrsins út frá þvagi þess og að minkur getur greint milli óþekktra einstaklinga sömu tegundar út frá saur þeirra. Læðuhland sem fengið er úr frjóum aliminkalæðum rétt fyrir eða í "tilhleypingum" í minkabúum ættu því hugsanlega að geta virkað sem aðdráttarafl fyrir villta minkasteggi. Einnig er möguleiki að læðuhland virki allan ársins hring sem agn fyrir læður og jafnvel steggi vegna óðalshegðunar villtra minka. Hins vegar gæti læðuhland einnig fælt minka frá af sömu ástæðum.

Á vormánuðum 2001 stóð Veiðistjóraembættið fyrir söfnun og dreifingu læðuhlands til þess að nota sem agn í tilraunaskyni. Hlandið var fengið úr alilæðum rétt eftir "tilhleypinga" en vegna langvarandi frosta vikurnar á undan var söfnun ekki framkvæmanleg þar sem allt fraus í rennum undir búrunum. Ef til vill hefur tímasetning söfnunarinnar rýrt aðdráttarafl hlandsins hvað villta steggi varðar. Þrettán aðilar fengu senda úðabrúsa með hlandi sér að kostnaðarlausu, en að auki voru lagðar út lífgildrur (stokkar og búr) í Hörgárdal og Öxnadal snemma í apríl, í samvinnu við heimamenn. Egnt var með kattamat og læðuhlandi. Enginn minkur veiddist við þessar tilraunaveiðar en þeir sem stóðu að þeim urðu að minnsta kosti reynslunni ríkari í glímu við vorflóðin. Af þeim 13 aðilum sem fengu send hlandsýni á úðabrúsa hefur þegar frést af árangri tveggja. Hjá öðrum veiddist ekkert, hvorki í gildrur með hlandi né án hlands (taldi hann jafnvel að svæðið hefði hreinsast í veiðum í fyrra). Hinn hafði lagt út gildru til höfuðs ákveðnum mink sem náðist ekki fyrr en egnt var með laxhaus og læðuhlandi.

Niðurstöðurnar eru því í raun litlar sem stendur en vonandi rætist úr þegar minkabanar senda inn gögn um minkaveiðar 2001.

Einnig vil ég benda minkaveiðimönnum á einstaklega gott lesefni sem má finna um minnkaveiðar á Amazon.com ekki síst um veiðiaðferðir, gildrur osfrv. ekki síst eru myndir gagnlegar. Þetta eru upplýsingar sem m.a. skila sér í aukinni veiði

 

Gildrur

Tunnugildra
Gildran hefur ekki verið samþykkt af ráðgjafarnefnd um villt dýr.

Röragildra

Gildran hefur ekki verið samþykkt af ráðgjafarnefnd um villt dýr.

Sverrir

Gildra þessi hefur ekki verið tekin fyrir af ráðgjafarnefnd um villt dýr.

Til eru a.m.k. tvö afbrigði af henni hér á landi, annars vegar sú stærð sem sést hér myndinni (u.þ.b. 20 cm löng), hinsvegar lengri útgáfa (u.þ.b. 30 cm löng) sem er hönnuð með það fyrir augum að hundar klemmi sig ekki í þeim. Þeir sem vita gerst segja fyrirmyndina koma frá Skandinavíu, aðrir segja að hún sé hönnuð "fyrir austan fjall" en ekki virðist hún hafa hlotið íslenskt alþýðuheiti svo að hér skal lagt til að hún verði kölluð Sverrir (sem táknar fjandvin eða andstæðing), í höfuðið á afkastamiklum gildrusmiði fyrir austan fjall og mætti þá kalla afbrigðin Sverri 20 og Sverri 30 eftir lengd þeirra.

Gildran er veiðin, handhæg og drepur minkinn strax. Ágætlega hefur tekist að ná læðum í gildruna fyrir got með því að beita með 20 - 50 g silungsseiðum. Læðan er sem fyrr segir treg að ganga í gildrur en hugsanlega er hún óhræddari við þessa gildru en t.d. búrgildrur því hún þarf aðeins rétt að stinga hausnum inn til að ná í ætið (þ.e.a.s. í styttri útgáfunni). Auk þess er læðan svöng í kringum gotið og því líklega árangursríkara að egna fyrir hana með æti á vorin en á öðrum árstímum.

Aðrar tegundir en minkur hafa álpast í þessa gldru, s.s. kettir, hrafnar og máfar en hlutfall minks í aflanum er yfirgnæfandi. Því betur falin sem gildran er þeim mun minni líkur ættu að vera á að fuglar lendi í henni.

Búrgildrur

Búrgildrur hafa ekki verið samþykktar af ráðgjafarnefndinni frekar en aðrar lífgildrur nema til minkarannsókna.

Búrgildrur af ýmsu tagi eru þó í notkun hér á landi bæði innfluttar og heimasmíðaðar og virðast vera alldrjúg veiðitæki. Nota menn ýmsa beitu: Silung (t.d. hausa, þunnildi og tálkn) og laxahausa. Við minkarannsóknir hefur veiðst mest þegar beitt er með loðnu og bleikjuseiðum en margt fleira hefur verið reynt, t.d. haus og dálkur ýsu og lúðu, regnbogasilungur, laxaslóg og laxahausar, kjúklingainnyfli og egg.

Gildrurnar eru gjarnan lagðar í og við minkaslóðir eins og stokkar. Ágætlega hefur reynst að hlaða upp "trekt" sem beinir minknum að þeim eins og gildir um allar gildrur sem lagðar eru í eða við minkaslóðir.

Minkar, máfar, þrestir, hrossagaukar, kettir og endur hafa veiðst í búrgildrur og virðast þær ekkert ýkja sérhæfðar gagnvart mink. Mjórri afbrigði af búrgildrum (ca. 15 x 15 x 50 cm) eru þó ólíklegri en stærri gerðirnar til að veiða ketti.

Stokkar

Stokkar sem veiða lifandi mink hafa ekki verið samþykktir af ráðgjafarnefndinni frekar en aðrar lífgildrur nema til minkarannsókna. Þó eru ýms afbrigði af stokkum í notkun hér á landi, til dæmis innihalda sumir hálsboga eða samsvarandi útbúnað sem drepur minkinn strax. Stokkar sem eru opnanlegir báðum megin eru gjarnan lagðir í slóðir minksins og geta þá veitt minkinn úr hvorri átt sem hann kemur. Minkabani nokkur, sem veiðir mikið á þennan hátt, notar enga beitu en leggur 3 og 3 stokka saman með um 5 metra millibili í slóð og fær þá mest í miðstokkinn. Þeir stokkar sem eru opnanlegir öðrum megin eru gjarnan lagðir nálægt eða alveg við minkaslóðir þannig að dýrið sjái opið frá slóðinni eða a.m.k. þefi það auðveldlega uppi með hjálp lyktarsterkrar beitu.

Vel hefur gefist að nota ýmisskonar beitu í stokka og kassagildrur og má helst nefna fisk (s.s. harðfisk, síld, loðnu, steinbít, lax og þorsk) og fugl (t.d. rjúpu eða hænu). Minkar og hagamýs hafa náðst í stokka og kettir í kassagildrur.

Þríhyrnugildra

Þríhyrnugildran er smækkuð eftirlíking af rauðrefagildrum frá Danmörk og var tekin til notkunar hér á 8. áratugnum. Gildran er smíðuð úr tré og er þannig útbúin að þegar minkurinn gengur inn í hana, stígur hann á "þröskuld" sem verður til þess að lok með fargi ofan á skellur niður og kremur minkinn til bana.

Að minnsta kosti sumir minkabanar leyfa gildrunni að standa úti allt árið um kring og þannig verður hún eins og hluti af náttúrulegu umhverfi dýrsins. Mikið virðist veiðast af hvolpum í gildruna og séu þeir notaðir sem agn nást læður gjarnan í kjölfarið. Almennt er gildran talin mjög veiðin en helstu gallar hennar eru hversu fyrirferðamikil hún er og sumir segja hana einnig veðurnæma.

Ýmisskonar beita hefur verið reynd í þríhyrnugildru hér á landi. Má til dæmis nefna dauðan mink, fugl og fisk, silung og innmat úr fuglum, laxahausa, smásíld og loðnu. Flestar þessara beitugerða hafa virkað vel.

Glefsir

Glefsirinn er ný gildra á markaðnum og litlar upplýsingar liggja fyrir um notagildi hennar

Vatnsgildra

Það hlýtur að vera eitt af markmiðum allra sem koma að minkaveiðum að dýrin séu aflífuð á sem skjótastan og mannúðlegastan hátt. Tunnugildrur eru ekki skjótvirk drápstæki og í röragildrum getur minkur barist um í nokkra stund áður en hann drepst. Einn af gildrusmiðum landsins hefur hannað gildru sem hugsanlega gæti komið í þeirra stað. Hún er samsett úr röri sem liggur frá ár- eða vatnsbakka niður í búr sem er undir vatnsyfirborði. Minkurinn berst skemur um í þessari gildru en í röra- eða tunnugildru, finnur ekki leiðina út og drukknar því strax.

Í röragildrur hafa veiðst smáfuglar, endur og mýs auk minka.

Leiðbeiningar um gildrusmíði
Búið til grind úr járni með opnanlegu loki.
Útvegið rörbút (frárennslisrör úr plasti) og borið göt á annan enda rörsins.
Klæðið grindina með vírneti. Klippið hringlaga gat á hlið kassans í sömu stærð og rörið er.
Þræðið vír í gegnum götin á rörinu og festið við vírnetið. Bindið þungan stein við lokið til að halda því niðri.
Að lokum þarf hrífuskaft með krók á endanum til að opna kassann, fjóra góða steina til að halda gildrunni fastri, snæri og hæl til að festa hana enn frekar.


Húnbogi (Syningfella)

Byrjað var að nota húnbogann í nóvember 1998 og er hann norskur að uppruna. Gildran er þannig útbúin að öðrum dýrum en minkum stafar lítil hætta af henni því á framhlið kassans er festur 20 cm langur rörbútur og við tekur gat 7 cm í þvermál sem minkurinn stingur hausnum í gegnum og hreyfir um leið við "gikknum". Við það smellur bogi inni í kassanum sem drepur dýrið strax. Kassinn er gerður úr pólýethýlen og ryðfríu stáli sem þola allt að 50 gráðu frost. Gildruna er hægt að nota án rörbútsins en þá aðeins þar sem ekki eru hundar, kettir eða börn.

Flestir hafa notað beitu í húnbogana, s.s. rjúpu, laxahausa, nýjan smáþorsk, ýsuúrgang, loðnu og bleikju. Einna mest hefur veiðst á bleikju.

Einn þeirra minkabana sem veitt hafa svolítið í þessa gildru notar þá aðferð að leggja gildruna í holbakka og reka minkinn í hana með minkahundum. Annar minkabani kemur henni fyrir í holbökkum þannig að kassinn er hulinn með jarðvegi, rörbúturinn tekinn af og hlaðin trekt að opinu sem beinir minknum rétta leið. Loðna hefur reynst vel sem agn.

Hálsbogar

Hálsbogarnir eru einkar hentugir til að leggja fyrir op á holum og göngum. Er þá gjarnan egnt fyrir mink með æti eða t.d. dauðum hvolpi ef hann hefur náðst á undan læðu við greni. Hér er sama fyrirkomulag og þegar fótboga er komið fyrir við munna ops, nema hér gerist ekki þörf á ráðstöfunum til að hindra kvalir minksins því hann drepst strax. Algengt er að veiðimenn lendi í vandræðum með læðuna þegar greni er unnið. Getur þá verið árangursríkt að leggja boga fyrir hana og egna t.d. með dauðum hvolpi og vitja síðan eftir 0,5 - 4 klukkustundir. Þannig sparast mikil vinna sem annars færi í uppgröft. Þar sem greni eru allt að því óvinnanleg, svo sem í hrauni, eru bogar sérlega hentugir.

Hálsboga er einnig hægt að leggja í slóðir. Þá gæti þurft að festa bogann niður þannig að hann gefi ekki allur eftir þegar dýrið hleypur í gegnum hann. Einnig kann að vera að beygja þurfi vírana sem minkurinn hleypur á þannig að hann klemmist á réttan hátt en ekki til dæmis á snoppunni eins og dæmi eru um. Ágætlega hefur reynst að koma bogunum fyrir inní stokk, með eða án beitu.

Fótbogar

Fótbogar koma að gagni við margvíslegustu aðstæður. Hér á eftir fara ýms gagnleg ráð frá minkabönum um notkun þeirra:
Algengast er að leggja bogana í minkaslóðir eða fyrir op á göngum eða holum. Minkaslóðir eru mest áberandi tæpt við árbakka, jafnvel langt inn til landsins og í skurðum. Götur troðast í grasi gróna bakka og spor finnast í leðju og sandi en einnig má finna slóðir í nýföllnum snjó. Þegar lagt er í slóðir er ekki venja að nota beitu en gott er að hylja bogann með því efni sem er í nánasta umhverfi til þess að hann falli sem best að því. Boginn er lagður jafn yfirborði og festur við keðju sem er nógu löng til þess að minkurinn komist ofan í vatn, ef slóðin er við ár- eða vatnsbakka, en þangað leitar hann um leið og boginn smellur á honum. Þyngd bogans dregur hann niður og minkurinn drukknar strax. Boga sem lagt er í slóðir þarf að byrgja ef líkur eru á að húsdýr, s.s. sauðfé lendi í þeim. Einnig má setja trékassa með gati fyrir minkinn yfir fótbogana til að hindra að önnur dýr lendi í gildrunni.

Ágætlega hefur reynst að hlaða upp grjóti eða jarðvegi við slóð til þess að beina minknum að boganum, einskonar trekt, ekki síst þar sem brautin er breið fyrir dýrið. Eins gefst vel að leggja boganum þar sem slóð liggur í gegnum náttúrulega þrengsli, þar sem minkurinn kemst ekki hjá að fara yfir bogann.

Þegar boga er komið fyrir við munna holu sem öruggt er að hafi einungis eitt op er agni komið fyrir innan við bogann, þannig að minkur þurfi að fara yfir hann til að komast að agninu. Ef um göng er að ræða er beitunni komið fyrir milli tveggja eða fleiri boga af sömu ástæðu. Gæta verður þess að göngin séu ekki of þröng til þess að boginn nái að smella. Manngerð göng og holur virðast ekki fæla minkinn frá og lagnir í slík "mannvirki" koma í veg fyrir að húsdýr lendi í bogunum. Í grýttu landi eða urð má hlaða slík göng úr grjóti í sama tilgangi.

Ef minkur kemur í hænsnahús er ágætisráð að hengja upp dauða hænu í um 40 cm hæð og leggja nokkra samfasta boga undir og hylja þá t.d. með fiðri. Bogarnir eru ekki festir nema hver við annan og lifandi hænsnum er komið fyrir á öruggum stað eða bogarnir girtir af til þess að hænurnar lendi ekki í þeim.

Einnig getur gefist vel að leggja boga í vatn, annaðhvort í gjótur sem vitað er að minkur muni leita í, eða t.d. á forvöð yfir ár, vötn eða læki, þar sem minkur annaðhvort þarf að fara yfir, eða líkur eru á að hann geri það. Ef lagt er í forvöð er bogunum komið fyrir þannig að rétt fljóti yfir þá og er þá hlaðið undir ef vatnið er of djúpt. Festi minkur sig í boganum leitar hann út í dýpið og drukknar strax. Best er að hafa tvo eða fleiri boga og binda þá niður hvern fyrir sig, er þá mögulegt að fá fleiri en einn mink í lögn. Bestu aðstæður fyrir bogalagnir í vatni eru þar sem vatnsyfirborð er sem jafnast árið um kring og við kaldavermsl. Helstu hættur við slíka lögn eru að vaðfuglar eða endur lendi í þeim en einnig getur boginn tærst upp og eyðilagst ef lagt er í leirvatn.

Þar sem líkur eru á að minkur drepist ekki strax ef hann festist í boga, t.d. í slóðum fjarri vatni, er nauðsynlegt að tryggja að hann kveljist ekki að óþörfu. Hann reynir að slíta sig lausan og því er gott að tjóðurkeðjan gefi eftir þegar hann festist. Dugar þá að festa þrjá boga saman á tjóðurkeðjunum enda festir minkurinn sig þá oftast í tveimur þeirra eða að festa bogann við 2-3 kg stein með vír. Fótbogar geta verið hin mestu pyntingartæki og því er nauðsynlegt að vitja daglega um þá þar sem aðstæður eru með þessum hætti. Dæmi eru um að veiðimenn hafi hætt að nota fótboga og tekið upp hálsboga í staðinn þar sem minkar ná gjarnan að slíta eða naga sig lausa úr fótbogum. Þrífættir minkar hafa einnig veiðst en ekki er hægt að fullyrða að þeir hafi fatlast við að lenda í fótboga.

Nú eru komnir á markað fótbogar sem eru klæddir gúmmíi og lokast ekki fullkomlega heldur nægilega til þess að halda bráðinni fastri. Hvort tveggja er að sjálfsögðu til þess ætlað að draga úr kvölum dýrsins.

 

Veiðitölur